HJÁLPUM ÞEIM !

Hjálpum þeim! - vesalings Bandaríkjamönnunum sem treysta sé ekki til að láta af hendi yfirburða forystu sína í útblástri gróðurhúsalofttegunda. Hjálpum þeim til að sleppa við að endurvinna ál með því að lofa þeim að reisa ný álver hér á landi til þess framleiða það sem þeir þurfa til að geta hent álumbúðunum áfram. Hjálpum þeim í leiðinni til leggja niður óvinsæl álver heima hjá sér. Hjálpum þeim til að varðveita orkubúntið Yellowstone með því að virkja fyrir þá hér á Íslandi mun dýrmætari náttúru á heimsvísu. 

Hjálpum þeim til að reisa olíuhreinsistöðvar hér í stað stöðvanna sem þeir hafa lagt niður hjá sér.  

Við erum fá en en við getum hjálpað þeim eins og við getum við framleiða áfram stóra og eyðslufreka bíla með því að halda áfram að kaupa slíka bíla af þeim og veita áfram tollaafslátt í því skyni.

Ef við hjálpum þeim hjálpa þeir kannski okkur. Ef við styðjum sem allra mesta uppbyggingu herafla NATÓ við bæjardyr Rússa í austanverðri Evrópu getum við kannski hleypt lífi í nýtt kalt stríð og fengið herinn aftur til okkar, herinn sem fór héðan og menn segja að hafi með því valdið mesta atvinnu- og tekjumissi hér á landi í áratugi.

Ég er félagi í Samtökum um vestræna samvinnu og studdi með atkvæði mínu veru varnarliðsins. Ég hef hins vegar vonast til að ekki þyrfti að koma til þess, sem nú virðist stefna í, í flótta Bandaríkjamanna frá viðfangsefnum alþjóðsamfélagsins.

Það er í ósamræmi við fyrri viðbrögð Bandaríkjamanna við alþjóðlegri vá. Þeir komu, seinþreyttir til vandræða,  Evrópubúum og raunar mannkyninu öllu til hjálpar á ögurstundum í heimstyrjöldunum tveimur, einkum þeirri síðari. 

Ég var að vona að þeir brygðust eins við nú. Nú dofnar sú von hratt og stefnir að óbreyttu í það að hlutunum verði snúið við, - við verðum að hjálpa þeim við að komast hjá því að taka á sig sinn stærstan skerfinn af ábyrgðinni af því hvernig mannkynið umgengst jörðina sína og afkomendur sína.

Aðrar þjóðir heims, þar á meðal Íslendingar, eiga líklega engra annarra kosta völ en að láta herópið hljóma svo það berist vestur yfir Atlantshafið:  Hjálpum þeim !


mbl.is Bandaríkin skrifa ekki undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"SECOND TO NONE"

Ofantalin þrjú orð eru í miklu dálæti hjá Bandaríkjamönnum þegar hernaðarmáttur er annars vegar og dugði vel í kalda stríðinu. Þegar menn önduðu léttara við fall Sovétríkjana og veiklingu Rússlands vildi hinn mikli kjarnorkuhernaðarmáttur landsins gleymast, en hann gefur landinu sérstöðu miðað við önnur öflug ríki eins og Japan og Kína.

Gallinn við stefnu í varnarmálum öflugra ríkja er sú kenning sem menn treysta sér ekki til að hafna, að einhliða varnarviðbúnaður nægi ekki nema til staðar sé líka geta til sóknar.

Líklega er besta dæmi hernaðarsögunnar um þetta einhliða varnarviðbúnaður Frakka og Breta við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar. Engin áætlun var til hjá þeim um sókn inn í Þýskaland og vesturveldin höfðu ekki þorað að framleiða stórar sprengjuflugvélar vegna þess að þær yrðu taldar sóknarógnun.

Fyrir bragðið gátu Þjóðverjar ósköp rólegir sent nær helming herafla síns í innrásina í Pólland og lungann úr brynsveitum sínum (panzer), skriðdrekasveitum. Þeir luku leiðangrinum á methraða og voru síðan komnir til baka með heraflann til vesturlandamæranna á methraða eftir nýlögðum hraðbrautum.

Ráðamenn í austustu ríkjum NATÓ telja líklega ekki nægja að hafa þar hreinan varnarbúnað til að tryggja sig gegn huganlegri ásælni Rússa heldur þrýsta á sóknarbúnað í formi eldflauga.

Rússar telja sig á sama hátt ekki getað látið sem ekkert sé og aðeins treyst á varnarbúnað sinn heldur grípa þeir að sjálfsögðu til kjarnorkumáttar síns, eflingu sóknareldflauga og hefðbundins herafla í Evrópu.

Afleiðingin getur varla orðið nema ein: Vígbúnaðarkapphlaup, enn eina ferðina.

Það var dásamlegt að mannkynið slapp við gereyðingarstríð þegar kalda stríðið stóð sem hæst. Gallinn við það er bara sá að úr því að mannkynið slapp í það sinn fara menn að treysta því sem gefnum hlut að vígbúnaðarkapphlaup geti ekki endað í slíku stríði.

En lögmál Murphys lætur ekki að sér hæða. Ef eitthvað getur farið úrskeiðis mun það fyrr eða síðar gerast. Þess vegna var sú viðleitni sem hófst hér í Reykjavík á frægum fundi leiðtoga risaveldanna til að eyða gerðeyðingarvopnunum svo nauðsynleg.

Menn líta oft einhliða á Reagan sem haukinn sem vildi vígbúast svo heiftarlega að Sovétríkin yrðu undir í vopnakapphlaupinu. 

Þá vill það gleymast í frægri ræðu sinni um geimvarnaráætlunina eða stjörnustríðsáætlunina setti hann fram þann vilja sinn að kjarorkuógninni yrði aflétt. Hann taldi ekki hægt að sætta sig við það að hún vofði yfir. 

Nú er Rússland á uppleið efnahagslega og ef það stefnir smám saman í stigvaxandi vopnakapphlaup austurs og vesturs með þeirri hugsun að Rússland verði beygt í duftið í annað sinn eins og þegar Sovétríkin hrundu, þá er það hættuleg hugsun.

Hún leiðir til nýrrar og vaxandi kjarnorkuógnar og í þetta sinn er ekki víst að Rússland hrynji innan frá eins og Sovétríkin gerðu því að þrátt fyrir takmarkað lýðræði í Rússlandi hefur hið misheppnaða skipulag kommúnismans verið lagt þar niður, ríkið sæmileg heild en ekki kraðak sambandsríkja og aðstæður því aðrar en var í kringum 1990.  

 

 

 

 


mbl.is Rússar segja upp afvopnunarsamningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. desember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband