6.2.2007 | 14:58
NÝR KJALVEGUR? EKKI NÚNA.
Sú var tíðin að ég var spenntur fyrir nýjum Kjalvegi enda búið að leggja upphleyptan veg drjúgan hluta af leiðinni hvort eð var. Vegna nýrra upplýsinga hef ég skipt um skoðun, einkum vegna þess að styttingin sem stefnt er að er ekki nóg, kannski aðeins kortérs akstur.
Ég set þessa skoðun mína fram að vandlega athuguðu máli, hef ekið Kjalveg oftar en tölu verður á komið í 40 ár á öllum árstímum og flogið yfir hann á öllum árstímum svo hundruðum flugferða skiptir. Einnig ekið þá leið upp með Hvítá austanverðri sem skynsamlegast er að fara og flogið eftir henni, meðal annars með einum af forsvarsmönnum Norðurvegar.
Í hitteðfyrra settist ég yfir málið með áhugamönnum norðan heiða og fór yfir nokkra möguleika til styttingar leiðinnar milli Reykjavíkur og Akureyrar sem ég setti einnig fram í sjónvarpsfréttum. Helstu leiðirnar voru þessar:
----------------------------------------------------------------------------
Leið 1.
Fyrsta og að mínum dómi þá, varasamasta og versta hugmyndin, að fara með leiðina um Þingvelli, Kaldadal, Arnarvatnsheiði, Stórasand niður í Skagafjörð. Stytting ca 80 km.
Kostir:
Mikil stytting.
Ókostir:
Vond veður og snjóakista í mikilli hæð á Stórasandi.
Farið í gegnum vatnsverndarsvæði í jaðri þjóðgarðs sem er á heimsminjaskrá UNESCO.
Styttingin nýtist ekki eins vel á leiðinni Selfoss - Akureyri og með nýjum Kjalvegi.
Stærsta ósnortna víðernið á Vesturlandi skorið í sundur með hraðbraut.
Kallar á gerð nýrra þjónustumiðstöðva.
Framkvæmd sem mjög erfitt verður fyrir framtíðarkynslóðir að snúa til baka.
Fé eytt í nýjan veg í stað þess að eyða því í endurbætur og bjarga mannslífum á hringveginum.
----------------------------------------------------------------------------
Leið 2.
Frá Biskupsbeygju á Holtavörðuheiði nokkurn veginn stystu leið um heiðarsporða Húnavatnssýslna þvert fyrir norðan Blöndulón og niður í Skagafjörð. Stytting: ca 55-60 km.
Kostir.
130 kílómetrar hringvegarins frá Reykjavík upp á Holtavörðuheiði nýtast áfram.
Ekki eins mikil röskun á stærsta ósnortna víðerni Vesturlands og með leið 1.
Ókostir: Samt talsverð röskun á víðerninu.
Stytting ekki eins mikil og á leið 1.
Styttir ekki leiðina milli Selfoss og Akureyrar ekkert framyfir styttinguna milli Reykjavíkur og Akureyrar.
Framkvæmd sem myndi verða erfið fyrir framtíðarkynslóðir að snúa til baka.
Fé eytt í nýjan veg í stað þess að eyða því í styttingu, endurbætur og björgun mannslífa á hringveginum.
-------------------------------------------------------------------------------------
Leið 3. Sú sem nú er lögð til.
Nýr Kjalvegur, frá Gullfossi upp Hrunamannaafrétt austan við Bláfell og um Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði niður í Skagafjörð. Stytting: 47 km.
Kostir:
Hlutar leiðarinnar hafa þegar verið byggðir upp.
Mikil stytting milli Selfoss og Akureyrar.
Opnar möguleika á skíðamiðstöð í Kerlingarfjöllum fyrir sunnanmenn jafnt sem norðanmenn.
Ókostir:
Of lítil stytting miðað við leið 5, aðeins 17 - 22 km þegar möguleg stytting hringvegarins (leið 5) er dregin frá.
Mikill hávaði frá hraðri þungaumferð stórskemmir þögla öræfastemningu Kjalar, sem eru mikil verðmæti í sjálfu sér fyrir Sunnlendinga og alla landsmenn.
Kallar á endurbætur á leiðinni Selfoss-Gullfoss, - stefnir stórum vöruflutningabílum á þessa fjölförnustu ferðamennaleið landsin og eykur slíka umferð á leiðinni Reykjavík-Selfoss.
Kallar á gerð nýrra þjónustumiðstöðva.
Framkvæmd sem erfitt yrði fyrir kynslóðir framtíðarinnar að snúa til baka.
Fé eytt í nýjan veg í stað þess að eyða því í styttingu, björgun mannslífa og endurbætur á hringveginum.
---------------------------------------------------------------------------
Leið 4. Sama og leið 3 en farið frá Geithálsi um Nesjavelli austur yfir Sog við Steingrímsstöð og þaðan austur um Lyngdalsheiði.
Kostir.
Meiri stytting en á leið 3.
Mikil stytting á leiðinni Reykjavík-Laugarvatn-Geysir og beinir vegtengingu milli Þingvalla og Laugarvatns í nýjan og farsælan farveg sem leysir erfitt deilumál.
Ókostir:
Sömu ókostir og á leið 3
Plús:
Farið um viðkvæmt vatnsverndarsvæði við sunnanvert Þingvallavatn.
------------------------------------------------------------------------------------
Leið 5. Styttingar og endurbætur á hringveginum. 3 - 10 km í Vestur-Húnavatnssýslu, 15 km við Blönduós og ca 7 km í Skagafirði, alls 25 - 32ja km stytting.
Kostir:
Umtalsverð stytting miðað við tiltölulega stutta nýja vegi.
Fjármagnið sem annars færi í Kjalveg og endurbætur á leiðinni Selfoss-Gullfoss fer beint í að auka umferðaröryggi, fækka slysum og bæta afköst aðal-leiðarinnar.
Hálendið og ónsnortin öræfi látin í friði.
Ókostir:
Minni stytting en á leiðum 1-4, einkum á leiðinni Selfoss-Akureyri.
-----------------------------------------------------------------------------------
Niðurstaða mín: Gerum þetta ekki núna og helst aldrei. Þetta er of lítil stytting fyrir meginumferðina til þess að vera réttlætanleg. Björgum mannslífum á hringveginum og gerum hann skilvirkari og nýtum þau verðmæti sem Kjölur með þögn sinni og tign hins ósnortna býr yfir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (55)