NÝR KJALVEGUR? EKKI NÚNA.

Sú var tíðin að ég var spenntur fyrir nýjum Kjalvegi enda búið að leggja upphleyptan veg drjúgan hluta af leiðinni hvort eð var. Vegna nýrra upplýsinga hef ég skipt um skoðun, einkum vegna þess að styttingin sem stefnt er að er ekki nóg, kannski aðeins kortérs akstur.  

Ég set þessa skoðun mína fram að vandlega athuguðu máli, hef ekið Kjalveg oftar en tölu verður á komið í 40 ár á öllum árstímum og flogið yfir hann á öllum árstímum svo hundruðum flugferða skiptir. Einnig ekið þá leið upp með Hvítá austanverðri sem skynsamlegast er að fara og flogið eftir henni, meðal annars með einum af forsvarsmönnum Norðurvegar.

 Í hitteðfyrra settist ég yfir málið með áhugamönnum norðan heiða og fór yfir nokkra möguleika til styttingar leiðinnar milli Reykjavíkur og Akureyrar sem ég setti einnig fram í sjónvarpsfréttum. Helstu leiðirnar voru þessar:

 ----------------------------------------------------------------------------

Leið 1.

Fyrsta og að mínum dómi þá, varasamasta og versta hugmyndin, að fara með leiðina um Þingvelli, Kaldadal, Arnarvatnsheiði, Stórasand niður í Skagafjörð. Stytting ca 80 km.

Kostir:

Mikil stytting.

 

Ókostir:

Vond veður og snjóakista í mikilli hæð á Stórasandi.

Farið í gegnum vatnsverndarsvæði í jaðri þjóðgarðs sem er á heimsminjaskrá UNESCO.

Styttingin nýtist ekki eins vel á leiðinni Selfoss - Akureyri og með nýjum Kjalvegi.

Stærsta ósnortna víðernið á Vesturlandi skorið í sundur með hraðbraut.  

Kallar á gerð nýrra þjónustumiðstöðva.

Framkvæmd sem mjög erfitt verður fyrir framtíðarkynslóðir að snúa til baka.

Fé eytt í nýjan veg í stað þess að eyða því í endurbætur og bjarga mannslífum á hringveginum.

----------------------------------------------------------------------------  

Leið 2.

Frá Biskupsbeygju á Holtavörðuheiði nokkurn veginn stystu leið um heiðarsporða Húnavatnssýslna þvert fyrir norðan Blöndulón og niður í Skagafjörð. Stytting: ca 55-60 km.

Kostir.

130 kílómetrar hringvegarins frá Reykjavík upp á Holtavörðuheiði nýtast áfram.

Ekki eins mikil röskun á stærsta ósnortna víðerni Vesturlands og með leið 1.

 

Ókostir: Samt talsverð röskun á víðerninu.

Stytting ekki eins mikil og á leið 1.

Styttir ekki leiðina milli Selfoss og Akureyrar ekkert framyfir styttinguna milli Reykjavíkur og Akureyrar.

Framkvæmd sem myndi verða erfið fyrir framtíðarkynslóðir að snúa til baka.

Fé eytt í nýjan veg í stað þess að eyða því í styttingu, endurbætur og björgun mannslífa á hringveginum.

-------------------------------------------------------------------------------------

Leið 3. Sú sem nú er lögð til.

Nýr Kjalvegur, frá Gullfossi upp Hrunamannaafrétt austan við Bláfell og um Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði niður í Skagafjörð. Stytting: 47 km.

Kostir:

Hlutar leiðarinnar hafa þegar verið byggðir upp.

Mikil stytting milli Selfoss og Akureyrar.

Opnar möguleika á skíðamiðstöð í Kerlingarfjöllum fyrir sunnanmenn jafnt sem norðanmenn.

 

Ókostir:

Of lítil stytting miðað við leið 5, aðeins 17 - 22 km þegar möguleg stytting hringvegarins (leið 5) er dregin frá.

Mikill hávaði frá hraðri þungaumferð stórskemmir þögla öræfastemningu Kjalar, sem eru mikil verðmæti í sjálfu sér fyrir Sunnlendinga og alla landsmenn.

Kallar á endurbætur á leiðinni Selfoss-Gullfoss, - stefnir stórum vöruflutningabílum á  þessa fjölförnustu ferðamennaleið landsin og eykur slíka umferð á leiðinni Reykjavík-Selfoss.

Kallar á gerð nýrra þjónustumiðstöðva.

Framkvæmd sem erfitt yrði fyrir kynslóðir framtíðarinnar að snúa til baka.  

Fé eytt í nýjan veg í stað þess að eyða því í styttingu, björgun mannslífa og endurbætur á hringveginum.

---------------------------------------------------------------------------

Leið 4. Sama og leið 3 en farið frá Geithálsi um Nesjavelli austur yfir Sog við Steingrímsstöð og þaðan austur um Lyngdalsheiði.

Kostir.

Meiri stytting en á leið 3.

Mikil stytting á leiðinni Reykjavík-Laugarvatn-Geysir og beinir vegtengingu milli Þingvalla og Laugarvatns í nýjan og farsælan farveg sem leysir erfitt deilumál.  

 

Ókostir:

Sömu ókostir og á leið 3

Plús:

Farið um viðkvæmt vatnsverndarsvæði við sunnanvert Þingvallavatn.

------------------------------------------------------------------------------------

Leið 5. Styttingar og endurbætur á hringveginum. 3 - 10 km í Vestur-Húnavatnssýslu, 15 km við Blönduós og ca 7 km í Skagafirði, alls 25 - 32ja km stytting.

Kostir:

Umtalsverð stytting miðað við tiltölulega stutta nýja vegi.

Fjármagnið sem annars færi í Kjalveg og endurbætur á leiðinni Selfoss-Gullfoss fer beint í að auka umferðaröryggi, fækka slysum og bæta afköst aðal-leiðarinnar.

Hálendið og ónsnortin öræfi látin í friði. 

 

Ókostir:

Minni stytting en á leiðum 1-4, einkum á leiðinni Selfoss-Akureyri.

-----------------------------------------------------------------------------------

Niðurstaða mín: Gerum þetta ekki núna og helst aldrei. Þetta er of lítil stytting fyrir meginumferðina til þess að vera réttlætanleg. Björgum mannslífum á hringveginum og gerum hann skilvirkari og nýtum þau verðmæti sem Kjölur með þögn sinni og tign hins ósnortna býr yfir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hefur einhver meira vit á þessum málum en Ómar Ragnarsson?

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 15:57

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Minn kæri Guðlaugur. Núna er Kjalvegur fær hvaða fólksbíl sem er á sumrin eftir að síðasta vatnsfallið, Seyðisá, var brúuð. Ég hvet þig til að skoða þetta sjálfur næsta sumar.  

Ómar Ragnarsson, 6.2.2007 kl. 16:44

3 identicon

Það má ekki gleyma því að með leið 3 ef verið að fjölga fjallvegum á leiðinni til Akureyrar út þremur í fjóra. Í stað Holtavörðuheiðar koma Hellisheiði og Kjölur. Eru flutningabílstjórar hrifnir af því fyrir 17-22 km styttingu, eins og Ómar reiknar þetta ?

Ólafur Sigurðsson (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 17:09

4 identicon

Þetta tal um 17-22 km styttingu á láglendi er glórulaust og kæmi aldrei til framkvæmda, vegagerðin talar um mögulega 17-19 km styttingu í Skagafirði og Austur-Húnavatnssýslu, mestu skiptir Svínavatnsleiðin sunnan Blönduóss í þessu samhengi, sú vegagerð verður aldrei samþykkt af þeim fara með skipulagsvald þar.

Síðasti gallinn sem þú telur upp við alla hálendismöguleikana er líka vitleysa, fé sem tekið er að láni til þess að  ráðast í arðbæra einkaframkvæmd liggur ekki á lausu til þess að "gera eitthvað annað". Þetta væri líka risaskref hvað varðar umferðaröryggi að skipta umferðinni niður á fleiri leiðir og minnka álagið á löngu sprungnum þjóðvegi 1. Kjalvegur væri hannaður eftir nútímastöðlum og væri í allan stað mun öruggari vegur en dauðabrautin á láglendinu, mestu skipti þó að heildarfjöldi ekinna kílómetra minnkar og þar með fækkar slysum.

Uppbyggður Kjalvegur tortímir ekki miðhálendi Íslands, ekki láta svona. 

Bjarki S. (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 17:44

5 identicon

Guðlaugur, það er algjör óþarfi hjá þér að vera að drulla yfir samtök eins og Ferðafélagið 4x4 sem berst fyrir bættri umgengni um land okkar og náttúru og einnig á móti utanvegaaskstri. Þó þú þjáist auðsýnilega af biturleika og minnimáttarkennd þar sem þú átt greinilega ekki jeppa, þarftu ekki að haga þér svona í  garð þeirra sem eru að reyna að gera gott.

Hilmar Ingi Ómarsson (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 18:26

6 identicon

Já, mikið öfunda ég þá sem eiga jeppa. Ég græt mig í svefn yfir því á hverju kvöldi og hef tekið alla jeppaeigendur í guðatölu.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 18:55

7 identicon

Það er ekki verið að ræða um heimreiðina hjá þér, Gylfi, heldur landsvæði sem er í eigu okkar allra, og ég myndi ekki vilja leyfa þér að leggja veg í gegnum garðinn minn, enda þótt þú værir fljótari í vinnuna með því móti.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 20:52

8 identicon

Eiríkur, þarna kemuru einmitt inn á kjarna málsins.  Þetta er sameign þjóðarinnar.  Þar af leiðir þarf að koma í ljós hvort þjóðin vill láta leggja veg í "garðinum" sínum eða stytta leiðina á milli.  Ég er enn sem komið er hlyntari veginum en það verður að viðurkennast að ég hef ekki gert upp hug minn endanlega, getum sagt að þetta sé svona 70/30 staða hjá mér.  Hversu margir eru það sem njóta eða koma til með að njóta kyrðarinnar ef vegurinn verður ekki lagður og hversu margir koma til með að njóta þess að komast fyrr og öruggar á milli, þar sem þjóðvegur 1 er á köflum stórhættulegur eins og ástandið er núna.  Það verður náttúrulega að meta hvort verið er að fórna meiri hagsmunum fyrir minni, á hvorn veginn sem fer. 

Bjarki Hilmarsson (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 21:17

9 identicon

Þarna er vegur eins og er, reyndar mjög lélegur og seinfarinn bæði hvort sem er á jeppa eða fólksbíl ...en þetta er vegur með umferðarnið og reykjarstrókum á sumrin.  Ég segi að við eigum að gera hann betri, miklu betri og þannig aukum við aðgengi allra sameigninni okkar og bætum samgöngur milli landshluta mjög mikið.  Það þarf ekkert endilega að malbika hann eða gera þannig að það sé hægt að keyra þarna á sportbílum án þess að það komi rispa á krómfelgurnar en þarna gerum við mjög mikið fyrir Norðurland og Suðurland. Þetta snýst ekki bara um Reykjavík, besta byggðastefnan er að hafa góðar samgöngur sem víðast, ekki bara beina og breiða vegi til Reykjavíkur.  

Guðjón Egilsson (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 21:45

10 identicon

Mér líst mun betur á að hringvegurinn á milli Selfoss og Akureyrar verði tvöfaldaður sem allra fyrst og ríkið styrki strandsiglingar til að minnka stórlega vöruflutninga á hringveginum sem hafa stórskemmt hann.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 22:28

11 identicon

Ég er mótfallin vegi fyrir Kjöl á þeim forsendum sem nú er lagt upp með.  Málið þarf að skoða miklu betur með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi, en ekki aðeins hagsmuni þeirra sem eiga beinna viðskiptalegra sjónarmiða að gæta.   Ætlum við að leggja allt landið í hendur auðmönnum Íslands.  STOPP!

Vöruflutningar eiga að fara fram sjóleiðina en ekki á vegum landsins.  Hvers vegna nýtum við ekki betur þann möguleika sem felst í hafinu kringum landið?  Það er ekki eins og við búum í mið-Evrópu og eigum ekki annarra kosta völ en að flytja allt eftir hraðbrautum. 

Loks hljótum við að þurfa að fara að horfa til umhverfissjónarmiða og þess að reyna að draga úr útblæstri af völdum ökutækja.  Fækka blessuðum jeppunum, komast af með færri bíla, innleiða almenningssamgöngur eins og siðaðri þjóð sæmir.  Og viti menn við myndum standa eftir með meiri peninga í vasanum, gætum unnið minna og haft meiri tíma fyrir börnin okkar og okkur sjálf, því við værum ekki í jafnmikillli ánauð lánadrottna og við erum í dag. 

 P.S:  Hef oft farið á kjöl á mínum fólksbíl og það án nokkurra vandkvæða!  Þetta er yndisleg leið eins og menn hafa verið að benda á.  Við megum ekki færa þessa fórn án þess að vera búin að skoða málið svo miklu, miklu betur.

Erla (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 22:57

12 identicon

Mér finnst það vera hugrakkar manneskjur sem skipta um skoðun. Og á meðan að nánast allar vöruflutningar fara fram á vegum þjóðarinnar finnst mér það ógerlegt að hleypa umferðinni svo mikið upp á þessa náttúru sem við eigum enn ósnerta. tíminn er ekki það mikilvægur.

Gerum bara vegakerfið okkar betra og meira áreiðanlegt. Aukum kennslu í undirbúning fyrir bílpróf. Þá held ég að slysum fækki svo um muni

Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 23:27

13 identicon

Auðvitað á fyrst að stytta veginn um 30 km sem eins og Ómar nefnir.  En það er ein stytting í viðbót sem er notuð um gjörvalla Evrópu fyrir utan Ísland og Noreg.  Það er að hafa aðskildar aksturstefnur 2 + 2 með hærri hámarkshraða.  Það tæki innan við 3 klukkustundir að aka á slíkum vegi norður á Akureyri, slíkur vegur myndi taka vegin um kjöl í nefið hvað tíma varðar.   Hámarkshraði í Danmörku 130km (breytilegur eftir ástandi, ljósaskilti).  Vissulega myndi slík vegagerð kosta sitt og taka tíma að klára.  En til að fækka slysum og stytta aksturstíma er þetta eina raunhæfa leiðin.  Heimskulegir 90 km vegur út um öll fjöll er bæði hættuleg vegagerð og gamaldags.  Í raun álíka gáfulegt eins og að leggja einbreiðabrú í dag.   Með þessu móti myndu ALLAR byggðir hagnast: vesturland, vestfirðir, norðurland og austurland.  Þegar búið verður að klára tvöföldun á milli Borgarnes, Suðurnes, Selfoss til Reykjavíkur á að halda áfram með verkefnið norður til Akureyrar.   Öruggustu vegir Evrópu eru allt hraðbrautir með miklum hraða 2+2, hættulegustu vegir Evrópu eru vegir með 80km til 90km hraða, 1+1 vegir sem fara í gegnum lítil þorp.   kv, Óskar

Óskar Ásgeirsson (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 23:34

14 identicon

Er fyllilega sammála Ómari um að fara ekki í þessa vegagerð. Rök Ómars um mikilvægi þagnarinnar eru nógu sterk ein og sér í þessu samhengi.
Árið 1889 skrifaði John Muir eftirfarandi:

Thousands of tired, nerve-shaken, over-civilized people are
beginning to find out that going to the mountains is going home;
that wildness is a necessity ; and that mountain parks and
reservations are useful not only as fountains of timber and
irrigating rivers, but as fountains of life.

Við erum að byrja að skilja þetta hér á Íslandi á 21. öldinni.

M.kv.

Þröstur Sverrisson

Þröstur Sverrisson (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 01:10

15 identicon

Ég er sammála Ómari: "Gerum þetta ekki núna og helst aldrei." Styttum heldur hringveginn eins og hægt er, og tvöföldum hann þar sem brýnust þörfin er. T.d. upp í Borgarnes og austur á Selfoss. Eyðum einbreiðum brúm og breikkum veginn þar sem hann er mjórri en eðlilegt ætti að vera, svo okkur líði vel að mæta bílum. Og bætum samgöngur á Vestfjörðum og höldum með því jafnvægi í byggð landsins. Það er öllum fyrir bestu.

 Leyfum hálendinu og náttúruperlum þess þess að vera í friði fyrir gróðafíkn peningamanna. Leyfum þögninni að ríkja sem lengst á Kili því hún er gulls ígildi, og á því græða allir mest. Munum að óspillt land, er fegurst allra landa.

Janus Hafsteinn Engilbertsson (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 01:22

16 Smámynd: Adda bloggar

Sammála um að gera þetta ekki núna og helst aldrei.

Adda bloggar, 7.2.2007 kl. 01:30

17 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er hægt að fara "Bolabásleiðina" við að bæta aðgengi að Kili. Við Bolabás norðan við Þingvelli var lagt malbik ofan á krókóttan vegarslóðann. Rykmökkurinn hvarf. Nútíma rútur eru með fjöðrun sem þolir ekki holur og þvottabretti. Með því að leggja nett malbik ofan á núverandi Kjalveg opnast leiðin fyrir ferðamennsku með minnstu mögulegu umhverfisröskun.

Malbikið geta kynslóðir framtíðar fjarlægt ef þær vilja. Umferðarhraðinn skiptir miklu máli, því hávaðinn er margfalt meiri á 90 km hraða en 50 km hraða. Malbikuðu vegirnir fyrir norðan Þingvallavatn með 50 km hámarkshraða eru dæmi um milliveg sem hægt er að fara í vegagerð.

Ómar Ragnarsson, 7.2.2007 kl. 01:38

18 identicon

Ég skil ekki þessa umræðu um styttingu vegarins milli Reykjavík og Akureyris. Liggur fólki orðið svona svakalega á? Hvílíkur ferðamáti að spítta þessa leið á 130 á hraðbrautum, í stað þess að njóta þess að keyra í gegnum sveitir landsins og njóta náttúrunnar, á 90 km/klst getur maður notið útsýnisins vel.

Einhver var að tala um þvottabrettin á hálendisvegunum. Þau eru ekki vandamál ef ekki er keyrt á ofsahraða. Ég lít á þau sem hraðahindranir og læt þau minna mig á að keyra hægar til að geta notið útsýnisins betur.

Það er orðið allt of mikið stress í þjóðfélaginu á Íslandi. Fólki liggur orðið allt of mikið á. Í ferðalögum spíttar það á milli staða og má varla vera að því að vera í ferðalagi.

Ég er algerlega á móti malbikuðum vegum á hálendinu. Þetta er orðið eini staðurinn á landinu þar sem maður getur slappað af og notið náttúrunnar án þess að menn séu að spítta framúrmanni á tvöföldum hámarkshraða svo maður þarf að hafa sig allan við til að lifa af (gott dæmi er Hellisheiðin).

Vigdís (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 07:52

19 identicon

Hélt ég þér á hesti
í hörðum straumi,
og fann til fullnustu,
blómknapp þann gæti
ég borið og varið
öll yfir æviskeið.

Greiddi ég þér lokka
við Galtará
vel og vandlega;
brosa blómvarir,
blika sjónstjörnur,
roðnar heitur hlýr.

Getur KEA gert betur en þetta?

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 10:08

20 identicon

Vigdís, hvort villtu fórna miðhálendinu undir vegagerð vegna styttri aksturstíma eða nota núverandi vegstæði að mestu með 2+2 veg.  Lausnin er til og hún er notum um allan heim.  90 km 1+1 vegir þar sem tveir bílar lenda saman í áreksti er sambærilegt og árekstur 180 km,, það þyrfti að lækka hraðan í 65 km til þess að fá svipaða áhættu og í 2+2 vegur fyrir 130 km hámarkshraða.   Eigum virkilega að byggja 1+1 með þunguumferð yfir hálendið þar sem verður tíð hálka og miklar líkur á árekstri tveggja bíla.  Flestir sem aka hringveg 1 eru ekki að skoða landslag heldur eru að fara á milli stað a og b.  Það er algjört gáleysis að vera skoða landslag við akstur sem bílstjóri á hringveg 1.  Eftir að hafa ekið um gjörvalla Evrópu og mikið í Bandaríkjunum, líður mér betur að aka á 120 til 160 km hraða á hraðbrautum Evrópu heldur en á hringveg 1 á 90 km.  Það er miklu eðlilegra að hálendisvegirnir séu með 50 km hámarkshraða í hæð við landslagið sem henta vel til nátturuskoðunar.  Alls ekki vegi með 90 km hámarkshraða, það væri beinilínis bilun að blanda saman túristaumferð og þungaflutninga á hálendinu með 90 km 1+1 vegi.

Óskar Ásgeirsson (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 10:31

21 identicon

Vinnuvélar verða sífellt öflugri og menn eru ekki í vandræðum með að stórskemma landið á skömmum tíma, eins og gerðist fyrir ofan Hveragerði nýlega. Í norðurhéruðum Kanada leggja menn vegi á veturna með þeim hætti að þeir keyra jarðýturnar á snjónum beint af augum frá morgni til kvölds, svipað og kornræktendur í Texas keyra vinnuvélar sínar beint af augum frá morgni og snúa síðan við um miðjan daginn til að komast heim í kvöldmatinn á réttum tíma. Þegar verið var að leggja nýjan veg í Vaðlaheiðinni með stórvirkustu vélum sem þá voru til hérlendis fékk frændi minn einn í Eyjafirðinum vestur-íslenskan verktaka í heimsókn og benti honum hreykinn á jarðýturnar í Vaðlaheiðinni. Þá sagði Kanadamaðurinn, lítt snortinn: "Why on Earth do you use so small bulldozers?!"

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 12:11

22 identicon

Auvitað á að byggja fallegan veg yfir Kjöl og helst Sprengisand líka. Ég hef alveg sömu reynslu af þessum fjallvegum og Ragnar Thorarensen. Mig hafði lengi langað til að fara Kjöl og Sprengisand og lét verða af því fyrir 3-4 árum. Hvílik skelfing! Geri það ekki aftur. Og hversvegna ekki að dreifa umferðarálaginu. Þjóðvegur 1 ber nafn með rentu, hann er einn og öll umferð þar. Hvílík fyrra.

Gunnar Th. Gunnarsson (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 13:34

23 identicon

Nítján milljarðar fara í sauðfjárræktina á næstu árum. Bæjarstjórar Hveragerðis, Ölfuss og Árborgar hafa nú fengið svar við erindi sem þeir sendu Vegagerðinni fyrir skömmu, þar sem óskað var eftir skýringum á misvísandi tölum varðandi ætlaðan kostnað við tvöföldun vegarins á milli Selfoss og Reykjavíkur. Vegagerðin áætlar nú að framkvæmdin myndi kosta 13,5 milljarða, eða 5,5 milljörðum minna en fer í vegarollurnar á næstu árum.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 13:39

24 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Ómar

Þakka þér fyrir góða samantekt. Það kemur mér á óvart að möguleg stytting með Kjalvegi sé ekki nema 17-22 km, ef gerðar eru lagfæringar á hringveginum.  Miðað við 90 km hraða sparast aðeins 11-15 mínútur! 

Það væri einnig ófært að beina umferðinni milli Gullfoss og Geysis og þaðan um Biskupstungnabraut. Það yrði væntanlega að beina henni um Brúarhlöð og áfram um Flúðir, eða meðfram Hvítá vestanverðri í átt að Bræðratungu og þar yfir Tungufljót nærri Reykholti. Þetta kallar á töluverðar vegabætur á þessu svæði.

Svo má ekki gleyma því að Kjölur er fjallvegur. Vissulega hafa vetur verið óvenju snjóléttir síðustu ár, en það er ekki þar með sagt að þeir verði það áfram  á næstu árum eða áratugum.

Bestu kveðjur

Ágúst

Ágúst H Bjarnason, 7.2.2007 kl. 13:42

25 identicon

Og annað. Fólk ruglar í sífellu um að þetta verkefni taki frá einhverju öðru! Kynnið ykkur málið og sjáið villu ykkar vegar. Svipað og umræðan um Kárahnúka. Sú fjárfesting kemur hvergi nærri ríkiskassanum. (ekki nema Landsvirkjun fari á hausinn)

Gunnar Th. Gunnarsson (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 13:42

26 identicon

Sæll Ómar

Sem hópferðabílstjóri með erlenda ferðamenn sem ég fer með um allt Ísland á hverju summri sem ég hef gert síðustu 7 ár þá vil ég segja hug ferðamanna til fjallvega á Íslandi. Þeir elska að ferðast á slíkum vegum og margir hafa komið á máli við mig að við verðum að passa að leyfa þessu að vera svona um ókomna framtíð. Þetta er hluti  af ferðinni að aka þessa vegi þó það taki stundum á á köflum eins og til Landmannalauga, Þórsmörk,Öskju,Sprengisand, Kaldidalur og að sjálfsögðu veginn um Kjöl sem dæmi.Þetta er stór hluti af landkynningu okkar sem spillar með náttúrunni það eru þessir F-vegir okkar sem koma okkur til perlur hins fagra Íslands.

Baldvin Nielsen (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 14:03

27 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Ég held að þeir sem eru að taka þátt í þessari umræðu séu líka að gleyma því að aðal ástæða fyrir þessum hugmyndum eru flutnigar milli Suður og Norðurlands. Þannig að þeir sem eru bara alveg á því að þarna megi bara byggja upp veg upp á 8,5 metara á breidd og svo 3 metra upp ættu að hafa það í huga. Þetta verður ekki lengur leið þar sem þú stoppar hvar sem er og skoðar í kring um þig með börnunum þínum. Ef þú stoppar verður þú með lífið í lúkunum um að barnið sé of nálægt veginum þar sem fara um flutningabílar með tengivagan á 90 til 110 km. hraða. Kjöl má jú virkilega laga en þar á ekki að hleypa á þungaflutningum. Síðan bendi ég að á síðu Norðurvegar segir að það eigi að taka efni í vegin úr námum við veginn. Ef hann á að verða svona upphækkaður þá er ögurlegt magn af efni sem þarf í hann. Svona eins og eitt fjall.

Magnús Helgi Björgvinsson, 7.2.2007 kl. 14:19

28 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Ps ögurlegt átti að vera ógurlegt.

Magnús Helgi Björgvinsson, 7.2.2007 kl. 14:20

29 identicon

Ég á hálendið, Kárahnjúkavirkjun, raflínurnar, Landsvirkjun, þjóðvegina og ríkiskassann, Gunnar. Ríkið, það er ég. Norðurvegur hefur boðist til að leggja nýjan veg yfir Kjöl, landsvæði sem ég á, taka gjald fyrir umferðina og eiga veginn svo lengi sem land byggist. Ég afþakka. Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Spalar, segir að nýr Kjalvegur myndi litlu breyta fyrir Hvalfjarðargöngin. Gylfi bendir á að forsvarsmenn Norðurvegar hafi kynnt að gert sé ráð fyrir 500 bíla umferð á sólarhring um Kjalveg árið 2010. Umferð um Hvalfjarðargöngin sé hins vegar nú þegar orðin tífalt meiri, eða yfir fimm þúsund bílar á sólarhring, og vaxi hratt. Þannig að þörfin fyrir nýjan Kjalveg virðist nú ekki vera mikil.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 14:44

30 identicon

Það er furðu algengur misskilningur, að þeir sem eiga breytta jeppa ætlist til þess að geta setið einir að hálendinu. Eins og áður hefur komið fram hérna þá er staðreyndin sú að Kjölur er fær öllum bílum á sumrin. Stóru jepparnir eru ekki ætlaðir til sumarferða, þó þeir henti mjög vel í það. Þeir eru ætlaðir til vetrarferða númer 1, 2 og 3 og það er eitthvað sem fólk sem er að agnúast út í okkur jeppaeigendur verður að fara að skilja. Ég er ekki á móti þessari vegaframkvæmd vegna þess að ég á jeppa, heldur á ég jeppa vegna þess að ég vil njóta þess sem Ísland hefur upp á að bjóða bæði að sumri sem og vetri til. Og það er ekki hægt að njóta þess á 90 km hraða.

Kristinn Magnússon (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 16:42

31 identicon

Mér finnst í góðu lagi að menn eigi breyttan jeppa, gott sjónvarp og góða konu og skil vel að ekki sé hægt að njóta þess á 90 kílómetra hraða.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 17:41

32 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Mér finnst bara allt í lagi að leggja þennan veg yfir Kjöl. Talandi um að við séum að eyðileggja þessa kyrrð óbyggðanna finnast mér ekki nóg rök. Við erum fólk sem byggir þetta land og fólki fylgir umferð og vöruflutningar og allskyns óþægindi. Væri lagður vegur þvert yfir landið væri hægt að leggja einhverja slóða 3 - 4 km út frá aðalveginum sem væru svona rétt rúmlega færir fólksbílum og væri fólk komið það langt frá hávaðamenguninni sem fylgir þessum vegi til að geta notið ósnortinnar náttúrunnar eins og þú segir að þú viljir hafa þetta með núverandi Kjalveg. Auðvitað tek ég undir það sem einhver skrifaði hér ofar að flutningarnir þyrftu í miklum mæli að fara aftur út á sjó og eru nú kannski vonir til að það verði með aðkomu Atlantsskipa á þann markað. En þetta er nú ekki alveg svona einfalt. Það eru komnir einhverjir áratugir síðan verslunin (fólkið) úti á landi hætti að sætta sig við að fá 3 - 4 vörusendingar á mánuði og krafan er fá vörurnar nánast eftir hendinni og í flestum tilfellum alla virka daga sem er grundvöllur þess að geta boðið sama vöruverð t.d. á Siglufirði og í Reykjavík. En svona í framhjáhlaupi er eins og mig minni að þú Ómar hafir fyrir einhverjum árum, svolítið mörgum kannski, hafir viðrað þá hugmynd hvort ekki væri snjallt og örugglega vel gerlegt að leggja veg norður Kjöl. Sé þetta rangminni hjá mér þá leiðréttir þú það bara.

Annars er ég mjög ánægður með þína framgöngu í umhverfismálum þó ég sé ekki endilega sammála í einu og öllu. Varðandi Kárahnjúka hefðirðu bara þurft að koma ,,út úr skápnum miklu fyrr".

Gísli Sigurðsson, 7.2.2007 kl. 20:57

33 identicon

Bónus er með sama verð í verslunum sínum alls staðar á landinu og flestar vörur ætti að vera hægt að senda með strandskipi einu sinni í viku. Atlantsskip hefja á þessu ári strandflutninga norður og austur um land allt til Húsavíkur að því gefnu að flutningarnir fái nægilegar góðar undirtektir á svæðinu. Gunnar Bachmann, framkvæmdastjóri Atlantsskipa, sagði að um yrði að ræða átta til níu viðkomustaði á Vestfjörðum og Norðurlandi, allt austur til Húsavíkur eftir flutningsþörfinni frá hverjum stað. Austfirðir væru ekki inn í myndinni, enda væru Samskip og Eimskip með siglingar á Reyðarfjörð og þeir vildu frekar einbeita sér að því að veita betri þjónustu á Vestfjörðum og Norðurlandi. Siglt yrði einu sinni í viku. Gunnar sagðist sannfærður um að góður rekstrargrundvöllur væri fyrir strandflutningum. Það sæist best á þeim miklu þungaflutningum sem færu fram um þjóðvegina á þessu svæði. "Hafi fyrirtæki á annað borð áhuga á að nýta sér strandflutninga er þetta mjög auðvelt og hægt að gera á ódýrari hátt en fyrirtækin eru að kaupa þjónustuna á í dag," sagði Gunnar. Hann sagði að til viðbótar kæmi þjóðhagslegur sparnaður, sem fælist í minna sliti á vegum, færri slysum og fleiru, en þeir væru auðvitað eingöngu að skoða þetta út frá eigin rekstrarforsendum.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 22:07

34 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Athyglisverð umræða.

Fráleitt að afhenda einkafyrirtæki rétt til að skattleggja um  aldur og ævi alla þá  sem  vilja fara hina  fornu þjóðleið yfir Kjöl.

Skynsamlegast sýnist  að leggja    bundið  slitlag á þann veg  sem fyrir  er og laga verstu snjóastaði.Gera veginn  góðan, en ekki  nógu góðan fyrir   trukkana. Þessi stytting  skiptir þá  engu mál.

Þjónustumiðstöðvar  eiga  að vera á jöðrum hálendisins. Aðeins í undantekningartilvikum inni á hálendinu.

Þjóðleiðir um  landið þvert eiga  að vera þjóðareign

Eiður Svanberg Guðnason, 8.2.2007 kl. 09:12

35 identicon

Ég hef ferðast um Kjöl á fólksbíl, jeppa og breyttum jeppa og alltaf jafn gaman. Við fjölskyldan gerum þetta til að komast í snertingu við náttúruna og það gerir maður ekki á 90+ km.

Maður vill fá að stoppa hvar sem er á leiðinni til að njóta útsýnis og friðsældar á fjöllum.

En þessi fyrirhugaða aðgerð Norðurvegar hlýtur að vekja upp ýmsar áleitnar spurningar. Ein af þeim er sú að þeir telja sig geta lagt þennan veg fyrir c.a. 4.2 milljarða króna. Um er að ræða, eins og fram hefur komið, uppbyggður vegur með einni akrein í hvora átt. Vegagerðin telur að tvöfalda Suðurlandsveg (aðgerð sem gengur út á að búa til veg með tveimur akreinum) kosti aftur á móti 6-12 milljarða króna. Kannski er sá vegur eitthvað flóknari. Ef áætlun Vegagerðarinnar yrði yfirfærð á gerð vegar yfir Kjöl er kostnaðurinn eitthvað nær 18-24 milljörðum, þar sem vegurinn yfir Kjöl er talsvert mikið lengri en leiðin Reykjavík-Selfoss.

Svo gleymist það að til að geta notast við þennan veg yfir Kjöl þarf að laga vegi sem liggja upp að Gullfossi og sömu leiðis vegi sem tengast hringveginum norðan frá líka. Það væri eitthvað sem Norðurvegur ætlar eflaust ekki að gera og sú framkvæmd yrði tekin úr vösum okkar skattgreiðanda í stað þess að bæta umferðaröryggi á þjóðvegi 1.

Fram hefur komið að Norðurvegur ætlar að taka efni úr námum á Kili til að búa til veginn (þó er misræmi í þessum upplýsingum frá Norðurvegi ehf). Ég hef farið þarna upp eftir ansi oft og ekki orðið var við námur á Kili. Lauslega reiknað þá eru það um 3697 rúmmetrar af efni sem þarf í þennan gjörning. Þetta er semsagt 3697 kubbar sem eru einn metri á kant raðað upp hlið við hlið. Hringvegurinn er eitthvað um 1300 km. Efnið sem þarf í að byggja upp 8,5 metra breiðan og þriggja metra háan veg næði því tæplega 3 hringi eftir hringveginum.

Svo vekur það líka athygli hverjir standa að þessu fyrirtæki.

Jóhann Kolbeins (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 10:36

36 identicon

Leiðréttar magntölur

Magntölur Jóhanns eru ekki alveg réttar. Þetta er snökktum meira. Gera verður fyrir vegagerð frá Selfoss norður í Langadal, þ.e. ca 200 km.  Um 20 m3 þarf í hvern lengdarmetra af 1,5 m háum vegi í byggð og um 60 m3 þarf í hvern lengdarmetra af 3 m háum vegi á fjalli. Stærðargráðan er þá 200.000 m * 40 m3/m = 8.000.000 m3 sem er svipað og Kárahnjúkastífla. Til þess þarf námu sem er 1 km á kant og úr henni tekið 8 m þykkt lag.

Ólafur Sig.

Ólafur Sigurðsson (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 14:56

37 identicon

Það er ódýrara að byggja upp 1+1 veg yfir hálendið en að breiðka hringveginn. Dreifum umferðarálaginu á nokkra vegi. Hvaða vit er í því að menn séu að nota sama veg hvortsem þeir eru að koma frá Klaustri eða Egilsstöðum?

Guðlaugur Hermannsson (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 17:25

38 identicon

Það er ódýrara að byggja upp 1+1 veg yfir hálendið en að breiðka hringveginn. Dreifum umferðarálaginu á nokkra vegi. Hvaða vit er í því að menn séu að nota sama veg hvortsem þeir eru að koma frá Klaustri eða Egilsstöðum?

Guðlaugur Hermannsson (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 17:26

39 identicon

Umferðarálaginu verður dreift hvort eð er, því hringvegurinn verður tvöfaldaður á milli Selfoss og Akureyrar, Hvalfjarðargöngin verða tvöfölduð og auk þess verða gerð göng í gegnum Vaðlaheiðina á vegum KEA. Þar að auki verða Atlantsskip trúlega með strandsiglingar allt frá Reykjavík til Húsavíkur og án þess að reikna með þeim telur Norðurvegur að umferðin um nýjan Kjalveg yrði einungis 500 bílar á sólarhring, eða 250 bílar í hvora átt.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 19:09

40 identicon

sælir félagar hef lesið megnið af commentunum ykkar og er mikið talað um umferðaröryggi,og að þjóðvegur 1 sé stórhættulegur (satt og ekki satt).Mestu umferðaröryggisbætur sem hægt er að framkvæma eru ókepis sona ef þið vissuð það ekki. Fólk upp til hópa þ.e.a.s 'Islendingar þurfa að læra að keyra og taka upp alveg nýja siði í ummferðini það væri mesta bótin.Með von um að allir hugsi sig um áður en þeir brjálast öskra blóta eða bara gjörsamlega missa sig í einhvern óþarfa frammúrakstur útaf (fýflinu) á undan.Lifið heil       OZ

oz (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 20:01

41 identicon

Já, margir keyra alltof hratt miðað við aðstæður og lögreglan þyrfti að sjálfsögðu að vera með eftirlit á hinum nýja Kjalvegi en hún á nú þegar meira en nóg með eftirlit á þeim vegum sem fyrir eru.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 23:15

42 identicon

Ferðaklúbburinn 4x4 mótmælir harðlega öllum áformum um uppbyggingu Kjalvegar í einkaframkvæmd. Þegar hugmyndir Norðurvegar ehf. komu fyrst fram, fór fram skoðanakönnun á vefsíðu Ferðaklúbbsins 4x4. Þar var spurt eftirfarandi: Ert þú sáttur/sátt við uppbyggða hálendisvegi með veggjöldum? 86% aðspurðra svöruðu spurningunni neitandi.

Klúbburinn vill einnig vekja athygli á röksemdafærslu þeirra aðila sem standa að Norðurvegi ehf. „Ein röksemdin er bætt aðgengi að hálendinu fyrir allan almenning. Því viljum við svara og benda á að á Íslandi eru í dag hátt í fjörutíu þúsund jeppar, auk þess sem Kjalvegur er fær öllum fólksbílum að sumarlagi.

Má því halda fram að núverandi Kjalvegur hefti ekki för neins til þess að njóta Kjalarsvæðisins. Einnig viljum við benda á að styttingu vegarins milli Norðurlands og þéttbýlisins á sunnanverðu landinu má að mestu fá með lagfæringum á þjóðvegi 1.

Vetrarferðamenn hafa einnig margir bent á að uppbyggður og malbikaður Kjalvegur getur verið mjög varasamur vegna þeirra veðurfarsaðstæðna sem þarna ríkja, en líklegt er að hálka, samfara verulega miklum vindi verði mun algengari á þessum vegi en öðrum samgönguæðum landsins.

Má benda á reynslu af Kvíslaveituvegi og syðsta hluta Sprengisandsvegar, sem jeppamenn þekkja vel í vetraraðstæðum og svipar verulega til aðstæðna á Kjalvegi. Algeng er flughálka á malbikaða hlutanum frá Búrfelli norður að Vatnsfelli og svipaðar aðstæður skapast oft á malarvegskaflanum norður með Kvíslarveitum. Þar sem vindstrengir liggja milli jökla líkt og er bæði á Sprengisandssvæðinu og á Kili, magnast vindhæðin og stormur og rok verður meira ríkjandi en annars staðar. Því getur Kjalvegur sem samgönguleið verið mjög varasamur að vetrarlagi.

Ferðaklúbburinn 4x4 mótmælir einnig þeirri sjónmengun og hávaðamengun sem þessar framkvæmdir hafa í för með sér. Vegur af þeirri gerð sem hér er rætt um sviptir hálendið sérkennum sínum og þeirri öræfastemningu sem ferðamenn sækjast eftir. Hálendi landsins hefur mikið gildi fyrir þjóðina og með því að leggja uppbyggða samgönguæð í gegnum eitt helsta hálendissvæðið er verið að spilla verulega þeirri upplifun sem menn sækjast eftir á Kili. Kjölur verður aldrei samur eftir að slík framkvæmd hefur verið heimiluð."

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 10:55

43 identicon

Rétt að koma með smá komment á þessa umæðu um uppbyggðan Kjalveg.

Ég tek það fram að ég er mótfallin þessum áformum eins og þau líta út í dag, þ.e.a.s uppbyggðan,gjaldskyldan Kjalveg í einkaeigu.

En hinsvegar mætti alveg laga veginn á köflum sbr. Veginn yfir Þorskafjarðarheiði en það finnst mér mjög gott dæmi um hvernig vel hefur tekist til að gera hálendisveg færan öllum bílum. Nema yfir háveturinn náttúrulega vegna snjóalaga og válynds veðurs.

Veðrið á hálendinu er einmitt kjarni málsins í þessu, ég er ansi hræddur um að menn sem eru fylgjandi þessu geri sér ekki grein fyrir því hvernig veðurfarið þarna getur orðið þegar þeir halda því fram að það væri nú gott að stytta sér leið um 20-50 km.

Ég hef t.a.m verið allt uppí 2 sólahringa að komast frá Hveravöllum niðrí Geysi og hefði það ekki neinu máli skipt þó að allar björgunarsveitir landsins og Caterpillar DC12 með ripper hefðu verið með í för við hefðum ekki komist neitt hraðar nema síður sé.

Svo ég minnist nú ekki á allar ferðirnar sem hafa tekið 12-24 klst þennan spöl.

Tek það fram að það hefði heldur engu máli skipt þó að vegurinn hefði verið uppbyggður.

Halldór Sveinsson (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 12:49

44 identicon

Gott að fá athugasemdir í umræðuna um hálendisvegi frá þessum reynslumiklu mönnum um veðurfar á fjöllum.  Álit þeirra undirrstrikar hversu hættulegt getur verið að opna fyrir almenna vetrarumferð þvert yfir hálendi Íslands með tilliti til umferðaröryggis og fleiri þátta.

 

Þá finnst mér ekki síður mikilvægt að koma því inn í umræðuna að betri vegir virðast ekki koma í veg fyrir alvarleg umferðraslys.  Þetta á ekki síður við vegi á láglendi við bestu aðstæður.

 

Satt að segja hef ég fengið mig fullsaddan af umræðum og fréttum varðandi  slys og umferðaröryggi þar sem sífellt er klifað á að slysin séu veginum að kenna.  Það þurfi að tvöfalda brýr, og tvöfalda vegi, fá mislæg gatnamót o.fl. o.fl.

 

Auðvitað á að halda áfram að fækka slysagildrum og bæta vegi en alltaf er jafn skrýtið, með tilliti til þess að vegir stórbatna með hverju árinu, að alvarlegum slysum fjölgar og því gjarnan kennt um að ekki var búið að tvöfalda eða eitthvað þótt vegurinn beri vel þá umferð sem er til staðar.   Ég bara spyr.  Er ekki eittvað að hjá okkur bílstjórunum?  Ég er ekki að tala um einstaka glanna, heldur almennt aksturslag á íslenskum vegum þar sem ekki er tekið tillit til aðstæðna.

 

Víða erlendis eru til svokallaðar hraðbrautir, en utan bæja og borga eru aðrir vegir kallaðir sveitavegir, vegir sem eru ekki óáþekkir okkar þjóðvegum.   Þar er hámarkshraði almennt lægri en hér er leyfður, en við högum okkur oftast eins og við séum alltaf á hraðbrautum eða í svigi á skíðasvæði sérstaklega ef bundið slitlag er komið á veginn.

 

Stundum er sauðfé kennt um slys, stundum hrossum og nú nýlega hreindýrum.  Ég held að þessum dýrategundum hafi ekkert farið fram í umferðareglum og við getum tæplega vænst þess af þeim blessuðum.  Aðvitað getur ýmislegt komið á óvart í umferðinni og slys orðið, en ég held við ættum fyrst og fremst að líta í eigin barm.          

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 14:20

45 Smámynd: Stefán Stefánsson

Lausnin á þessu er auðvitað bara sú að leggja nýjan uppbyggðan Kjalveg með bundnu slitlagi og þá geta þeir sem vilja ekið hann.
Gamli vegurinn heldur sér bara líka og þá geta þeir sem vilja aka í rykmekki, á þvottabrettum, í S-beygjum og öðrum krókum og í drullupollum ekið þann gamla. Er það ekki.............

En svo maður tali nú í alvöru þá er ég nú ansi hræddur um að vöruflutningarnir fari aldrei aftur út á sjó og ég er frekar svartsýnn á að Atlansskip fari að sigla norður í land að nokkru gagni. Eimskip og Samskip eiga þennan markað orðið og eru búnir að kaupa upp flesta sjálfstæða flutningsaðila.

Aðalmálið í þessu er að bæta hringveginn og stytta hann þar sem það er raunhæft kostnaðarlega og að öðru leiti. Við eigum svo langt í land og skulum bara gleyma þessari hálendisvegahugmyndum í bili. 

Stefán Stefánsson, 9.2.2007 kl. 17:42

46 identicon

Ég bara verð að svara Snorra hérna, varðandi eitt komment sem svosem kemur kjalvegi ekki við.  Hann segir:

"Þá finnst mér ekki síður mikilvægt að koma því inn í umræðuna að betri vegir virðast ekki koma í veg fyrir alvarleg umferðraslys.  Þetta á ekki síður við vegi á láglendi við bestu aðstæður."

Nú spyr ég, Hversu mörg banaslys hafa orðið á þeim kafla Reykjanesbrautar sem var tvöfaldaður eftir að þeirri framkvæmd lauk?  Og ef maður miðar við hvernig þetta var fyrir tvöföldun þá sér maður að þessi maður veit ekkert hvað hann er að tala um! 

Bjarki Hilmarsson (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 18:26

47 identicon

Sæll vertu Bjarki.Það mætti ætla að þú haldir að ég sé mótfallinn því að byggja upp betra vegakerfi á landinu og að ég geri mér ekki grein fyrir því að margt má bæta til að koma í veg fyrir slys.  Ég er fullkomlega sammála þér um það að tvöföldun Reykjanesbrautar og fyrirhuguð tvöföldun Suður- og Vesurlandsvegar mun draga úr slysahættu, en við megum ekki gleyma því að það erum við sem sitjum við stýrið og við verðum að haga akstri eftir aðstæðum.   Þetta svona flaut með vegna þess sem sagt hefur verið um ágæti heilsársvegar um Kjöl sem ég er mjög mótfallinn og hef áður gangnrýnt á þessari bloggsíðu, m.a. með tilliti til umferðaröryggis. Í umræðunni finnst mér oft að raunverulegar þarfir í vegagerð og fleiru sem stuðla að betri byggðaþróun gleymist í öllum þessum æðibunugangi. Því miður stjórnast margt af græðgi og tillitsleysi sem ríkir manna á meðal, líka í umferðinni.  Gleymum því ekki að víða er gott að búa, veðursæld mikil og gott mannlíf, en hluti þjóðarinnar býr við það ástand að vera ekki í almennilegu sambandi við þjóðvegakerfi landsins og getur ekki sótt nauðsynlega þjónustu til næsta byggðarlags.  Í mínum huga er það lítilsvirðing við þessa samborgara okkar að plana vafasama uppbyggingu hálendisvega á meðan þetta ástand varir og ætti ekki að vera á dagskrá. Byggðaþróun má aldrei stjórnast af græðgi né því að eyðileggja land að nauðsynjalausu.  Áform um heilsársveg um Kjöl er gott dæmi um slíkt.

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 13:27

48 identicon

Sæll vertu Bjarki.

Það mætti ætla að þú haldir að ég sé mótfallinn því að byggja upp betra vegakerfi á landinu og að ég geri mér ekki grein fyrir því að margt má bæta til að koma í veg fyrir slys.  Ég er fullkomlega sammála þér um það að tvöföldun Reykjanesbrautar og fyrirhuguð tvöföldun Suður- og Vesurlandsvegar mun draga úr slysahættu, en við megum ekki gleyma því að það erum við sem sitjum við stýrið og við verðum að haga akstri eftir aðstæðum.   Þetta svona flaut með vegna þess sem sagt hefur verið um ágæti heilsársvegar um Kjöl sem ég er mjög mótfallinn og hef áður gangnrýnt á þessari bloggsíðu, m.a. með tilliti til umferðaröryggis.

 

Í umræðunni finnst mér oft að raunverulegar þarfir í vegagerð og fleiru sem stuðla að betri byggðaþróun gleymist í öllum þessum æðibunugangi. Því miður stjórnast margt af græðgi og tillitsleysi sem ríkir manna á meðal, líka í umferðinni.

 

Gleymum því ekki að víða er gott að búa, veðursæld mikil og gott mannlíf, en hluti þjóðarinnar býr við það ástand að vera ekki í almennilegu sambandi við þjóðvegakerfi landsins og getur ekki sótt nauðsynlega þjónustu til næsta byggðarlags.  Í mínum huga er það lítilsvirðing við þessa samborgara okkar að plana vafasama uppbyggingu hálendisvega á meðan þetta ástand varir og ætti ekki að vera ádagskrá.

 

Byggðaþróun má aldrei stjórnast af græðgi né því að eyðileggja land að nauðsynjalausu.  Áform um heilsársveg um Kjöl er gott dæmi um slíkt.  

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 13:41

49 Smámynd: Stefán Stefánsson

Sammála þér Snorri.

Stefán Stefánsson, 12.2.2007 kl. 20:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband