FRAMTÍÐARLANDIÐ LIFIR, FRAMBOÐ ÁFRAM Á DAGSKRÁ

Fundur Framtíðarlandsins í kvöld fjallaði að mínu mati ekki um það hvort, heldur hvernig hægt væri að standa að nýju og fersku framboði umhverfisverndarfólks í kosningunum í vor. Líkurnar á slíku framboði hafa ekki minnkað heldur jafnvel vaxið.

Mér fannst óþarfi að sundra Framtíðarlandinu vegna málsins þegar hægt er að ná árangri á annan hátt, með algerlega óháðu og frjálsu framboði sem gæti meðal annars nýtt sér þá frábæru vinnu sem hópur fólks í Framtíðarlandinu hefur unnið vegna hugsanlegs framboðs og laðað til sín krafta fólks sem stendur utan Framtíðarlandsins en hefur sömu hugsjónir.

Nú liggur þetta fyrir og baráttuhugur þeirra sem vilja reyna að breikka fylkingu grænna frambjóðenda er mikill. Það verður vandaverk hvernig að því verður staðið því aðalatriðið í mínum huga er að þegar talið verði upp úr kjörkössunum í vor fjölgi grænum þingmönnum en fækki ekki.

Fundurinn var öllum til sóma og til fyrirmyndar hvernig að þessu var staðið. Ef einhverjir hafa afskrifað grænt framboð rétt hægra megin við miðjuna vegna fundarins þá held ég að það sé mikill misskilningur. Áfram grænir, hvar sem þið eruð í pólitíska litrófinu!  


Bloggfærslur 8. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband