13.6.2007 | 15:26
FYRSTI ALVÖRU UMHVERFISRÁÐHERRANN HIN SÍÐARI ÁR?
Þórunn Sveinbjarnardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Katrín Fjeldsted stimpluðu nöfn sín björtu letri í Íslandssögunar þegar þær risu gegn flokksræðinu og greiddu atkvæði gegn Kárahnjúkavirkjun. Vonandi boðar ráðherradómur Þórunnar betri tíð en þá að umhverfisráðuneytið sé afgreiðslustofnun fyrir óskir iðnaðarráðherra eins og það var að mestu leyti í tíð Sivjar, Jónínu, Sigríðar Önnu og Jóns Kristjánssonar. Þau samþykktu öll Kárahnúkavirkjun á þingi.
Auðvitað gerðu þessir ráðherrar marga góða hluti eins og til dæmis í þróun þjóðgarða og lögðu sig fram eins og þeim var mögulegt. Stjórnmál eru list hins mögulega. En frá Kárahnjúkavirkjun og Norðlingaölduveitu hlaupa þau ekki.
Ég nefni ekki fleiri umhverfisráðherra til samanburðar því að lög um mat á umhverfisáhrifum voru ekki til fyrr en fyrir forgöngu Eiðs Guðnasonar og ekki reyndi á þau í sambærilegu máli í hans tíð.
Og viðhorf öll voru einnig önnur í umhverfismálum fyrir 15 árum og sjálfsagt vorum við öll börn okkar tíma í þeim, meira að segja Hjörleifur Guttormsson í sinni viðskiparáðherratíð.
En það má hann eiga að verða einna fyrstur til að átta sig á breyttum viðhorfum og gerast pólitískur brautryðjandi í umhverfismálum.
Þórunn tekur í dag undir sjónarmið, sem ég og fleiri höfum komið fram með á undanförnum árum, sjá næsta blogg mitt á undan þessu. Nú er bara að sjá hvernig hún á eftir að standa sig þegar á reynir fyrir alvöru. Meðan það liggur ekki fyrir verður að setja spurningarmerki við frammistöðu hennar í framtíðinni.
![]() |
Framtíðarlandið: stóriðjuskattur á almenning rúmir 2 milljarðar árlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.6.2007 | 14:59
KÁRAHNJÚKAVIRKJUN - BAGGI EN EKKI BÚBÓT.
Rannsókn á vegum Framtíðarlandsins styður það sem ég sagði í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár" og reifaði í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti"að Kárahnjúkavirkjun verður ekki aðeins þungur siðferðilegur baggi á þjóðinni heldur einnig fjárhagslegur. Þorsteinn Siglaugsson, Þórólfur Matthíasson, Sveinn Aðalsteinsson, Hörður Arnarson í Marel og fleiri kunnáttumenn höfðu bent á það sama.
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra er nú á öndverðri skoðun við Siv Friðleifsdóttur sem hafnaði því í mati á umhverfisáhrifum að meta gildi virkjunarsvæðisins til svo mikils sem einnar krónu.
Dæmi um það hve fráleitt það er að meta t. d. Hjalladal, sem sekkur undir Hálslón, einskis:
200 fermetra íbúð efst á háhýsi við Sæbraut er talin ca 15 milljónum króna meira en sams konar íbúð væri í Túnunum aðeins vegna útsýnisins eins.
Þó beinist þetta útsýni að fjalli, Esjunni, sem er ekkert merkilegra en tugþúsundir fjalla um allan heim.
Í Hjalladal mátti finna fjölmarga staði með útsýni yfir einstæð náttúrufyrirbæri sem ekki var metið krónu virði. Þess utan eru hvergi nærri öll kurl komin til grafar hvað snertir kostnaðinn við Kárahnjúkavirkjun.
Með ítarlegri rannsókn á gildi virkjunarsvæðisins fyrir austan sem ósnortins svæðis á heimsminjaskrá með einstæðum möguleikum til ferðamennsku hefði verið hægt að nýta þá 130 milljarða króna sem eytt er í virkjunina með mun meiri ábata fyrir Austfirðinga og þjóðina alla en þessi endemis virkjun mun gefa.
Virkjunin verður í raun rekin með tapi miðað við þá möguleika sem voru fyrir hendi um ávöxtun þessara gríðarlegu fjármuna.
Að ekki sé talað um sæmd, heiður og viðskiptavild þjóðarinnar.
Ótal atriði eru ekki í hámæli um staðreyndir varðanda þessa virkjun, samanber bloggið hér fyrir neðan um botnrásina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)