ELLIÐAÁRDALUR, HLÝJASTI STAÐUR LANDSINS Í JÚLÍ.

Ég minnist þess að hafa gert fréttapistil um Elliðaárdal fyrir mörgum árum. Í gær fór ég í hraðgöngu og skokk um dalinn og ætlaði varla að trúa mínum eigin augum hve þetta er orðið frábært útivistarsvæði. Ég óttaðist fyrirfram að of mikið hefði verið plantað af skógi því mjög stór hluti töfra svæðisins felst í því að niður dalinn rann hraun fyrir nokkur þúsund árum og gæti runnið þar hraun aftur.

En sem betur fer hafa nokkur hraunsvæðin verið látin ósnortin. Ég óttaðist einnig að hinn plantaði skógur væri of þéttur en í ljós kom að hann er mismunandi þéttur, sums staðar með dularmögn myrkviðisins sem minna á söguna af Bláskjá forðum, sem falinn var í slíku myrkviði, - en annars staðar hefur þess verið gætt að trén væru það dreifð að auðvelt væri að fara um skóginn.

Þó finnast mér trén sem eru fyrir suðvestan Rafveitufélagsheimilið taka of mikið af hinu fallega útsýni sem annars væri af veröndinni þar til austasta hluta Fossvogshverfisins þar sem það mætir Smáíbúðahverfinu.

Skemmtilegustu og bestu göngustígarnir eru þaktir kurli og því mjúkir og "lífrænir".

Samkvæmt gögnum veðurstofunnar er hlýjasta veðurstöð á Íslandi í júlí Elliðaárstöð, ótrúlegt en satt. Ef aðeins er tekið meðaltal mesta hita hvers júlídags kemst Hallormsstaður þó brot úr stigi yfir.

Þessi veðursæld Elliðaárdals skapst mest af því hve skjólsælt er þar með Esjuna sem ysta varnargarð fyrir norðanáttinni sem lækkar hitann meira á öðrum veðurstöðvum á sunnanverðu landinu.

Ef dregin er lína frá Hveragerði út á Seltjarnarnes og önnur lína frá Mosfellsbæ til Voga og Reykjanesbæjar mætast þær í krossgötum í Elliðaárdal.

Það er besta skýringin á því af hverju þungamiðja frjálsrar verslunar og þjónustu er að byggjast upp á svæðinu frá stóra nýja verslunarhúsinu við Vesturlandsveg um Ártúnshöfða, Mjódd og Smárasvæðið í Kópavogi.

Sem betur fór var ekki látið undan þeirri freistingu reiknimeistara sem geta reiknað út milljarða sparnað fyrir þjóðfélagið ef þétt íbúðabyggð væri í þessum fagra dal.

Elliðaárdalur á hliðstæðu í Central Park í New York, Regent Park og Hyde Park í London og fleiri slíkum görðum í miðju stórborga, að enda þótt þarna megi segja að séu verðmætustu lóðir sem hægt er að finna fyrir stórbyggingar eru takmörk fyrir því hve langt eigi að ganga í því að hrúga öllum byggingum í miðjur borga og útrýma auðum svæðum.

Manni sýnast svo sem ekki vera ýkja margir á ferli í görðunum í London og ekki voru margir á ferli í Elliðaárdalnum í gær, en tilvist þessa einstæða svæðis, sem á sér ekki líka í neinni höfuðborg, réttlætir að það sé látið ósnortið. Að hafa storkinn hraunstraum, laxveiðiá og gróðursælt útivistarsvæði við krossgötur höfuðborgar er nokkuð sem ekki er hægt að meta til fjár.

Við búum í köldu og vindasömu landi og hlýjasti og skjólsælasti staður sem veðurathuganir eru stundaðar á er þess vegna enn meira virði en ella.

Elliðaárdalur er gott dæmi um verðmæti náttúrunnar andspænis kaldri mannvirkjadýrkun.

Við getum án hvorugs verið og verðum að íhuga vel að enda ekki með því að öllum mestu verðmætum ósnortinnar náttúru á Íslandi verði fórnað fyrir virkjanir og mannvirki.


Bloggfærslur 16. ágúst 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband