2.9.2007 | 00:55
HVERS VEGNA AÐ "HARMA" AÐ HIÐ RÉTTA KOMI Í LJÓS?
Í tilkynningu Landsvirkjunar er harmað að beðið sé um opinbera rannsókn á útgáfu rannsóknarleyfis á Gjástykkissvæðinu án þess að kynna sér málavexti. Ég hef ekki fyrr reynt Landvernd að öðru en að kynna sér vel staðreyndir þeirra mála sem tekin hafa verið til athugunar þar á bæ. Raunar má spyrja á móti hvort Landsvirkjun hafi kynnt sér hvaða heimavinna hefur verið unnin hjá Landvernd varðandi þetta mál og hver þau gögn eru sem ég hef birt um nýjar framkvæmdir á þessu svæði.
Ég mun við fyrsta tækifæri birta fleiri myndir af framkvæmdum í Gjástykki en þá sem birt er í næsta bloggi á undan þessu, en þær sýna að full ástæða er að fylgjast með eðli þessara framkvæmd. Ég hef fengið þá skýringu að þarna sé verið að taka efni til að bera ofan í veginn sem liggur þvert yfir Gjástykkishraunið.
Myndirnar sýna vel óafturkræf áhrif þess að ryðja svæði með vinnuvélum alveg við gossprungu frá Kröflueldum 1975-84 og sú afsökun að annars staðar hafi ekki verið hægt að fá samlitt efni í veginn gengur ekki upp.
Áhrif þess að bera efni með öðrum lit ofan í veginn eru afturkræf, - það er hægt að fjarlægja þetta efni. Áhrif þess að skrapa með vinnuvélum svæði eru óafturkræf, svo einfalt er það.
Framkvæmdar geta verið af ýmsum toga og hafa mismunandi mikil óafturkræf áhrif.
Yfirboðsrannsóknir eiga að hafa engin óafturkræf áhrif og einnig er hægt að leggja veg með því að setja aðeins efni í veginn beint ofan á hraunið sem vegurinn liggur um.
Kjarnaboranir hafa miklu minni röskun í för með sér en rannsóknarborholur á borð við þá sem boruð var við Sogin hjá Trölladyngju með gersamlega óþörfum og miklum umhverfisáhrifum.
Það er full ástæða til að skoða betur á hvaða grundvelli svona röskun fer fram, því að leyfi og skilyrði til rannsókna og vegagerðar geta verið mismunandi eftir eðli rannsókna og vegagerðarinnar.
Það eitt hvernig framkvæmdirnar líta út nú, hvað þá síðar, er að mínu mati full ástæða til að biðja um frekari skýringar og hafi Landsvirkjun hreinan skjöld er vandséð af hverju hún "harmar" að hið rétta fái að koma fram.
![]() |
Rannsóknarleyfi gefið út á grundvelli laga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)