HVERS VEGNA AÐ "HARMA" AÐ HIÐ RÉTTA KOMI Í LJÓS?

Í tilkynningu Landsvirkjunar er harmað að beðið sé um opinbera rannsókn á útgáfu rannsóknarleyfis á Gjástykkissvæðinu án þess að kynna sér málavexti. Ég hef ekki fyrr reynt Landvernd að öðru en að kynna sér vel staðreyndir þeirra mála sem tekin hafa verið til athugunar þar á bæ. Raunar má spyrja á móti hvort Landsvirkjun hafi kynnt sér hvaða heimavinna hefur verið unnin hjá Landvernd varðandi þetta mál og hver þau gögn eru sem ég hef birt um nýjar framkvæmdir á þessu svæði.

Ég mun við fyrsta tækifæri birta fleiri myndir af framkvæmdum í Gjástykki en þá sem birt er í næsta bloggi á undan þessu, en þær sýna að full ástæða er að fylgjast með eðli þessara framkvæmd. Ég hef fengið þá skýringu að þarna sé verið að taka efni til að bera ofan í veginn sem liggur þvert yfir Gjástykkishraunið.

Myndirnar sýna vel óafturkræf áhrif þess að ryðja svæði með vinnuvélum alveg við gossprungu frá Kröflueldum 1975-84 og sú afsökun að annars staðar hafi ekki verið hægt að fá samlitt efni í veginn gengur ekki upp.

Áhrif þess að bera efni með öðrum lit ofan í veginn eru afturkræf, - það er hægt að fjarlægja þetta efni. Áhrif þess að skrapa með vinnuvélum svæði eru óafturkræf, svo einfalt er það.

Framkvæmdar geta verið af ýmsum toga og hafa mismunandi mikil óafturkræf áhrif.

Yfirboðsrannsóknir eiga að hafa engin óafturkræf áhrif og einnig er hægt að leggja veg með því að setja aðeins efni í veginn beint ofan á hraunið sem vegurinn liggur um.

Kjarnaboranir hafa miklu minni röskun í för með sér en rannsóknarborholur á borð við þá sem boruð var við Sogin hjá Trölladyngju með gersamlega óþörfum og miklum umhverfisáhrifum.

Það er full ástæða til að skoða betur á hvaða grundvelli svona röskun fer fram, því að leyfi og skilyrði til rannsókna og vegagerðar geta verið mismunandi eftir eðli rannsókna og vegagerðarinnar.

Það eitt hvernig framkvæmdirnar líta út nú, hvað þá síðar, er að mínu mati full ástæða til að biðja um frekari skýringar og hafi Landsvirkjun hreinan skjöld er vandséð af hverju hún "harmar" að hið rétta fái að koma fram.


mbl.is Rannsóknarleyfi gefið út á grundvelli laga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Það er eins og LV viti ekki að við höfum gögnin. Það veit iðnaðarráðuneytið er ósammála um túlkun þeirra. Og svo vitum við að þetta er gefið út í stressi í vor þegar áhyggjur vöknuðu af því að Bjarnarflag, Þeistareykir og Krafla (óstækkað svæði) gæfi alls ekki næga orku. Meiri bjartsýni er víst hjá þeim núna um.

Og nú er Orkuveita Húsavíkur farin að tala um fyrri hluta álvers 2012 - rétt eins og stjórnarformaður Alcoa gerði um leið og samkomulagið var undirritað í fyrr.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2.9.2007 kl. 09:41

2 identicon

Hér má nálgast frétt á heimasíðu Landverndar þar sem fullyrðingar Landsvirkjunar um að Landvernd og SUNN hafi ekki kynnt sér gögn málsins eru hraktar. Þar er einnig gerð grein fyrir því hver munurinn á umsókninni 2004 og þeirri nýju 2007 er. Umsagnaraðilar tjáðu sig um umsóknina frá 2004 en þar var ekki gert ráð fyrir neinum jarðborunum heldur einungis yfirborðsrannsóknum. Í nýju umsókninni, sem Landsvirkjun kýs að kalla ítrekun, er hinsvegar óskað eftir leyfi til jarðborna. Á þessu er grundvallar munur þar sem umtalsvert jarðrask getur fylgt jarðborunun, það á hinsvegar ekki við um yfirborðsrannsóknirnar sem sótt var um 2004. Hinir lögboðnu umsangaraðilar hafa ekki fengið færi á að tjá sig um umsóknina þar sem sótt var um jarðboranir, maí 2007. Þar af leiðandi leikur vafi á lögmæti útgáfunnar og Landvernd og SUNN hafa því óskað eftir rannsókn á henni.

www.landvernd.is/frettirpage.asp?ID=2185 

Góðar kveðjur,
Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar.

Bergur Sigurðsson (IP-tala skráð) 2.9.2007 kl. 14:46

3 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Kröflueldum frá 1975 til 1984 eru gerð góð skil í bókinni Náttúra Mývatns sem Hið íslenska náttúrufræðifélag gaf út 1991.  Þar eru greinarnar Jarðfræði Kröflukerfisins eftir Kristján Sæmundsson og Umbrotin við Kröflu 1975-89 eftir Pál Einarsson.

Pétur Þorleifsson , 2.9.2007 kl. 16:11

4 Smámynd: Stefán Stefánsson

Það er mjög gott að hafa aðhald á hlutunum þannig að kappkostað sé að rask sé ekki meira en nauðsynlegt er. Persónulega finnst mér eftirliti of oft ábótavant.
En það er oft betra að leggja vegi um svæði sem þarf að fara um heldur en að böðlast sé í einhverjum ófærum sem oft valda mun meira raski.
Sjálfum kjarnaborunum fylgir mjög lítið rask ef aðgengi er sómasamlegt. 

Þetta með samlitan veg er ég alveg sammála þér Ómar og það er hlutur sem hægt er að laga (það er hægt að sáldra svartri möl yfir rauða), nema þar sem svæði eru græn vegna þess að það finnst engin græn möl því miður.

Ég fagna því að fá veg á þetta svæði þannig að möguleiki sé á að fara að skoða það með góðu móti.
 

Stefán Stefánsson, 2.9.2007 kl. 19:41

5 identicon

Sæll Ómar!

Þessu ótengt. Ég vildi bara þakka þér fyrir fína grein í Mogga í dag. Ég fellst heilshugar á þá réttmætu athugasemd þína að of í lagt er að gefa í skyn að þú hafir einhvern tíma ætlað að Jöklu bæri að meta lítils. Má líta á sem útúrsnúing. Ég hef mér reyndar til varnar að svo mætti túlka þegar talað er um dollaramerki í augum bænda eystra. Tilgangur minn með skrifunum var enda ekki síst til að benda á að svo undarlega vill til að í þessu tiltekna máli fara hagsmunir þeirra sem eiga land í einkaeign sem liggur að Jöklu og umhverfisverndarsinna algerlega saman: Vilji menn endilega setja verðmiða á land og orku er eins gott að heil brú sé í þeim tölum svo menn vaði ekki í slíkar framkvæmdir á skítugum skónum.

Hitt er að vafasamt er að tala á þeim nótum að allir landeigendur í einkaeigu eystra tali og hafi talað einni röddu í þessu máli. Mér er kunnugt um að margir í þeim hópi studdu þessar framkvæmdir heils hugar eins og þú bendir á. En svo er alls ekki með alla. Rétt er að grátbroslegur má heita þeirra kjánalegi stuðningur nú þegar ljóst er að Landsvirkjun ætlar að hafa þá sem sá þetta í hyllingum að ginningarfíflum. En rétt er að halda því til haga að stuðningur þess hóps við framkvæmdirnar skiptir í raun litlu máli því þeir voru á engum stigum aðilar að ákvarðanatökunni.

Kær kveðja,

Jakob

Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 3.9.2007 kl. 10:04

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þakka þér fyrir drengilegt blogg, Jakob Bjarnar. Ég gætti þess í grein minni að segja aðeins "margir" um þá landeigendur sem studdu framkvæmdina í upphafi. Ég talaði líka á þeim tíma við landeigendur sem voru henni andsnúnir og þá varð til þessi vísa:

Bjóðast nú fúlgur fjárins

svo fylgi við spjöllin tryggist.

Fagran dal fylla skal auri.

Fjallkonan tárast og hryggist.

En þið, sem að því standið

og umturna landi hyggist, -

gerningur ykkar mun uppi

á meðan land byggist.

Ómar Ragnarsson, 3.9.2007 kl. 13:57

7 identicon

Sæll Ómar

Takk fyrir að vekja athygli mína á framkvæmdum í Gjástykki. Veist þú nokkuð hvort framkvæmdir þarna halda áfram á meðan verið er að rannsaka þessar hæpnu forsendur leyfisveitinga til Landsvirkjunar?

Kveðja
Tryggvi Már

Tryggvi Már (IP-tala skráð) 7.9.2007 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband