"AUKNING Á VÖRN ÍSLENSKUNNAR."

Ég heyrði í gær íþróttafréttamann hjá sjálfu ríkisútvarpinu beygja orðið dóttir vitlaust tvisvar sinnum á sömu mínútunni. Hann talaði um íþróttamann sem hefði "sigrað margar keppnir". Talsmenn lögreglu tönnluðust á að svo og svo margir "aðilar" hefðu verið handteknir hér og þar. Skammt er sennilega þar til 315 þúsund "aðilar" eiga heima á Íslandi.

Þetta eru dæmi um sömu ambögurnar sem vaða uppi ár eftir ár. Þær virðast ódrepandi, - "ég vill" og "mér langar" lifa góðu lífi. 

Einn linmæltur og hraðmæltur íþróttafréttamaður skautar svo yfir orðin sem hann mælir af munni fram að erfitt er að skilja hann. Dæmi: "Estelgvenna" = Efsta deild kvenna. "Misirnum..." = Með sigrinum... "Lini úrsdildini" = Liðin í úrvalsdeildinni. 

Hjá nágrannaþjóðunum líðst ekki svona meðferð á móðurmálinu í fjölmiðlum enda er það lágmarkskrafa að þeir sem hafa atvinnu af því að tala í útvarpi og sjónvarpi séu sæmilega skiljanlegir.

Slappleikinn er smitandi. Umsjónarmaður þáttarins "Orð skulu standa lauk þættinum nýlega með orðunum: "Við erum að renna út á tíma", sem er bein þýðing úr ensku: "We´re running out of time."

Hingað til hefur verið sagt á íslensku: "Við erum að falla á tíma", en líklega er skammt þess að bíða að skákmenn falli ekki á tíma heldur renni út á honum, - þá væntanlega á rassgatinu.

Nafnháttarsýkin heltekur okkur öll meira og minna. "Þeir voru ekki að spila vel og voru ekki að láta boltann ganga, - voru ekki að standa sig..."  Þetta eru setningar sem stundum koma í löngum bunum í frásögnum og lýsingum.

Það er skondið að ýmis svona tískufyrirbæri stytta ekki málið og einfalda heldur lengja það og flækja. Einfaldara er að segja: "Þeir spiluðu ekki vel, - létu boltann ekki ganga og stóðu sig ekki."

Orðin "koma til með að" eru í tísku og bæði lengja og flækja það sem segja á, auk þess sem þetta er mjög óíslenskulegt orðalag. Dæmi hjá veðurfréttamönnum: "Það kemur til með að myndast lægð á Grænlandshafi og hún mun koma til með að fara yfir landið."  

Miklu einfaldara væri að segja: "Það myndast lægð á Grænlandshafi sem fer yfir landið."

Í stað orðanna "kemur til með að" má oftast segja: "mun", - "það mun myndast lægð..."o. s. frv.

Undarlegt er að öllum finnst sjálfsagt að reyna að tala og rita rétta ensku þótt sömu villurnar virðist fá að vaða uppi óáreittar í íslensku.

Sífellt eru notuð orðin "á meðan" þegar gerður er samanburður. "Hitinn komst yfir tíu stig í Reykjavík á meðan hann komst ekki nema í tvö stig á Akureyri.

Orðið aukning smeygir sér alls staðar inn. "Mikil aukning hefur verið á fjölda nemenda" er sagt í stað þess að segja einfaldlega: "nemendum hefur fjölgað", og orða hugsunina þannig skýrar með helmingi færri orðum. Þess vegna hef ég þennan pistil á orðum manns sem hefði getað sagt að íslenskan færi halloka en sagði í staðinn:  "Það er aukning á vörn íslenskunnar."

Vestfirskur þingmaður sagði eitt sinn: "Það hefur orðið neikvæð fólksfjöldaþróun á Vestfjörðum." Það sem hann meinti var: Fólki hefur fækkað á Vestfjðrðum.   

Enskan er mun flóknara mál að tala og skrifa en mörg önnur, t.d. þýska. Samt finnst fólki það sjálfsagt að vanda sig við að tala og skrifa ensku.

Snobbið fyrir enskunni er barnalegt. Útilokað virðist að nokkur kvikmynd sé sýnd í kvikmyndahúsum nema að nafnið sé enskt. Í gamla daga var talað um Steina og Olla og Abbott og Costello. Nú er það Chuck and Larry. 

Þegar Simpsonfjölskyldan fer úr sjónvarpi í kvikmyndahús verður hún að The Simpsons.  

Fleiri tungumál líða fyrir þetta en íslenskan. Enn sér maður skrifað Turin í staðinn fyrir Torino og Cologne í staðinn fyrir Köln.

Fólk er hætt að fara suður þegar það er erlendis, - það fer niður. Menn fara niður til Eþíópíu þótt landið sé fjallaland. 

Ég hef af því fregnir að á leikskólum hafi orðið að ráð erlent fólk til starfa. Ef það færist í vöxt er lagður grunnur að því að börnin verði ekki mælandi á neina tungu.

Íslenska er ekkert ómerkilegra mál en enska þótt færra fólk tali hana. Ef virðing tungumála eða "gæði" fara eftir því hve margir tala þau væri mest snobbað fyrir kínversku því nær þrefalt fleiri tala hana en ensku. 

Pétur Pétursson heitinn þulur hringdi stundum í mig og fleiri sjónvarpsmenn og skammaði okkur fyrir málvillur. Hann og Emil Björnsson höfðu óbrigðula málkennd.

Nú nýtur þeirra ekki lengur við og er þar skarð fyrir skildi. 

Þótt þeirra jafnokar finnist kannski ekki lengur megum við ekki láta hugfallast. Okkur er hollt að aga okkur í sameiningu í merðferð móðurmálsins og rökrænni og skýrri framsetningu hugsana okkar og skoðana.  


Bloggfærslur 24. september 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband