"AUKNING Á VÖRN ÍSLENSKUNNAR."

Ég heyrði í gær íþróttafréttamann hjá sjálfu ríkisútvarpinu beygja orðið dóttir vitlaust tvisvar sinnum á sömu mínútunni. Hann talaði um íþróttamann sem hefði "sigrað margar keppnir". Talsmenn lögreglu tönnluðust á að svo og svo margir "aðilar" hefðu verið handteknir hér og þar. Skammt er sennilega þar til 315 þúsund "aðilar" eiga heima á Íslandi.

Þetta eru dæmi um sömu ambögurnar sem vaða uppi ár eftir ár. Þær virðast ódrepandi, - "ég vill" og "mér langar" lifa góðu lífi. 

Einn linmæltur og hraðmæltur íþróttafréttamaður skautar svo yfir orðin sem hann mælir af munni fram að erfitt er að skilja hann. Dæmi: "Estelgvenna" = Efsta deild kvenna. "Misirnum..." = Með sigrinum... "Lini úrsdildini" = Liðin í úrvalsdeildinni. 

Hjá nágrannaþjóðunum líðst ekki svona meðferð á móðurmálinu í fjölmiðlum enda er það lágmarkskrafa að þeir sem hafa atvinnu af því að tala í útvarpi og sjónvarpi séu sæmilega skiljanlegir.

Slappleikinn er smitandi. Umsjónarmaður þáttarins "Orð skulu standa lauk þættinum nýlega með orðunum: "Við erum að renna út á tíma", sem er bein þýðing úr ensku: "We´re running out of time."

Hingað til hefur verið sagt á íslensku: "Við erum að falla á tíma", en líklega er skammt þess að bíða að skákmenn falli ekki á tíma heldur renni út á honum, - þá væntanlega á rassgatinu.

Nafnháttarsýkin heltekur okkur öll meira og minna. "Þeir voru ekki að spila vel og voru ekki að láta boltann ganga, - voru ekki að standa sig..."  Þetta eru setningar sem stundum koma í löngum bunum í frásögnum og lýsingum.

Það er skondið að ýmis svona tískufyrirbæri stytta ekki málið og einfalda heldur lengja það og flækja. Einfaldara er að segja: "Þeir spiluðu ekki vel, - létu boltann ekki ganga og stóðu sig ekki."

Orðin "koma til með að" eru í tísku og bæði lengja og flækja það sem segja á, auk þess sem þetta er mjög óíslenskulegt orðalag. Dæmi hjá veðurfréttamönnum: "Það kemur til með að myndast lægð á Grænlandshafi og hún mun koma til með að fara yfir landið."  

Miklu einfaldara væri að segja: "Það myndast lægð á Grænlandshafi sem fer yfir landið."

Í stað orðanna "kemur til með að" má oftast segja: "mun", - "það mun myndast lægð..."o. s. frv.

Undarlegt er að öllum finnst sjálfsagt að reyna að tala og rita rétta ensku þótt sömu villurnar virðist fá að vaða uppi óáreittar í íslensku.

Sífellt eru notuð orðin "á meðan" þegar gerður er samanburður. "Hitinn komst yfir tíu stig í Reykjavík á meðan hann komst ekki nema í tvö stig á Akureyri.

Orðið aukning smeygir sér alls staðar inn. "Mikil aukning hefur verið á fjölda nemenda" er sagt í stað þess að segja einfaldlega: "nemendum hefur fjölgað", og orða hugsunina þannig skýrar með helmingi færri orðum. Þess vegna hef ég þennan pistil á orðum manns sem hefði getað sagt að íslenskan færi halloka en sagði í staðinn:  "Það er aukning á vörn íslenskunnar."

Vestfirskur þingmaður sagði eitt sinn: "Það hefur orðið neikvæð fólksfjöldaþróun á Vestfjörðum." Það sem hann meinti var: Fólki hefur fækkað á Vestfjðrðum.   

Enskan er mun flóknara mál að tala og skrifa en mörg önnur, t.d. þýska. Samt finnst fólki það sjálfsagt að vanda sig við að tala og skrifa ensku.

Snobbið fyrir enskunni er barnalegt. Útilokað virðist að nokkur kvikmynd sé sýnd í kvikmyndahúsum nema að nafnið sé enskt. Í gamla daga var talað um Steina og Olla og Abbott og Costello. Nú er það Chuck and Larry. 

Þegar Simpsonfjölskyldan fer úr sjónvarpi í kvikmyndahús verður hún að The Simpsons.  

Fleiri tungumál líða fyrir þetta en íslenskan. Enn sér maður skrifað Turin í staðinn fyrir Torino og Cologne í staðinn fyrir Köln.

Fólk er hætt að fara suður þegar það er erlendis, - það fer niður. Menn fara niður til Eþíópíu þótt landið sé fjallaland. 

Ég hef af því fregnir að á leikskólum hafi orðið að ráð erlent fólk til starfa. Ef það færist í vöxt er lagður grunnur að því að börnin verði ekki mælandi á neina tungu.

Íslenska er ekkert ómerkilegra mál en enska þótt færra fólk tali hana. Ef virðing tungumála eða "gæði" fara eftir því hve margir tala þau væri mest snobbað fyrir kínversku því nær þrefalt fleiri tala hana en ensku. 

Pétur Pétursson heitinn þulur hringdi stundum í mig og fleiri sjónvarpsmenn og skammaði okkur fyrir málvillur. Hann og Emil Björnsson höfðu óbrigðula málkennd.

Nú nýtur þeirra ekki lengur við og er þar skarð fyrir skildi. 

Þótt þeirra jafnokar finnist kannski ekki lengur megum við ekki láta hugfallast. Okkur er hollt að aga okkur í sameiningu í merðferð móðurmálsins og rökrænni og skýrri framsetningu hugsana okkar og skoðana.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Orð í tíma töluð. Vel skrifaður pistill.

Margri ambögunni má bæta við. Fólk er sagt fara erlendis. Rétt er að fólk fer til útlanda eða utan. Það fer hvorki erlendis né kemur hérlendis. Veitingamenn eru kallaðir staðarhaldarar, en staðarhaldari er umsjónarmaður klaustur- eða kirkjujarðar. Í misskilinni góðmennsku hafa sumir snúið hugtakinu tvítyngi á haus og nota það yfir innflytjendur sem eru læra íslensku. Tvítyngd er sú manneskja sem hugsar jafnt á tveimur tungumálum, þ.e.a.s er jafnvíg á bæði málin.

Þú segir: "Íslenska er ekkert ómerkilegra mál en enska þótt færra fólk tali hana." Vissulega ekki. En Íslendingar ættu að gera sér grein fyrir því að fyrir þá sem þjóð er íslenska merkilegra mál en enska, vegna þess að íslenskan er móðurmál þeirra en enskan er það ekki. Á íslensku eru til heiti yfir alla þætti í menningu þeirra, sögu, íslensk örnefni, íslenskt veðurfar en þessi orð eru ekki öll til á ensku.

Helga (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 09:29

2 identicon

Þakka góðan og þarfan pistil, les oftast ekki þetta blessaða moggablogg af þeirri einföldu ástæðu að málfar og stafsetning er svo fyrir neðan allar hellur að mér hreinlega blöskrar.

Ég er 34 ára gamall Íslendingur sem er stoltur af tungumálinu mínu og legg metnað í að fara sæmilega með það. Þegar svo er komið að fjölmiðlamenn valda því ekki sæmilega þá er kannski ekki furða að almúginn lepji upp vitleysuna og endurtaki. Það þarf tvímælalaust að taka í taumana.

Kristján Már (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 09:33

3 Smámynd: Sævar Helgason

Þú kemur víða við í þínu ágæta "bloggi",Ómar. Takk fyrir það.

Ég er nú þeirrar skoðunar að þessar "blogg" færslur sístækkandi hóps séu hið besta mál og ágætlega til þess fallnar að stuðla mjög að góðri notkun á íslensku máli. Við lesum færslur annarra fáum tilfinningu fyrir vel fram settu málfari , bæði varðandi innihald og stíl.

Mest læt ég pirra mig þegar "bloggarar" sletta fram enskuslangri ...svei mér ef ekki er skárra að sjá smáhnökra á íslenskri stafsetningu . Og svo er það hann Púki, hann er ávallt hjálplegur

Þetta er svona það sem mér finnst. 

Sævar Helgason, 24.9.2007 kl. 11:19

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég gleymdi þremur tískuorðum, að mæta, yfirgefa og versla. Menn eru hættir að koma eða fara heldur mæta þeir hér og þar eða yfirgefa lönd, eyjar og héruð. 

Síðan eru menn hættir að kaupa nokkurn skapaðan hlut heldur hamast þeir við að versla vörur eða versla sér vörur.  

Ómar Ragnarsson, 24.9.2007 kl. 13:11

5 identicon

 Sæll,

umræða um íslenskt mál er alltaf áhugaverð og til þess fallin að vekja fólk til umhugsunar um móðurmálið, sem er af hinu góða.

Vil samt benda þér á að nafnháttarsýkin eins og þú kallar hana einfaldar málið. Rannsóknir sýna að breytingar á tungumálum séu nánast alltaf í átt til einföldunar. Þegar sagt er; ,,þeir voru ekki að láta boltann ganga", þá felst einföldunin í því að ekki þarf að beygja sögnina að láta, sem mörgum finnst erfitt að beygja. Það sama á við um margar aðrar sagnir, þ.e. sumir þurfa að hugsa sig um áður en þeir geta beygt þær sagnir og því er einfaldara að gera það ekki.

Þetta á sérstaklega við um sagnir sem eru lítið notaðar en einnig aðrar sagnir. Með því að nota hjálparsagnir kemst maður hjá því að beygja sagnir sem eru erfiðar viðfangs. Þetta á einmitt við um sögnina að láta,  sem er með hljóðbreytingu í beygingunni, láta-lét-látið...

Annað sem við ættum að hafa í huga er að nálægt 50% þjóðarinnar segir ,,mér langar". Notkun þgf með sögninni að langa er ævaforn og eru til dæmi um slíka notkun í rituðu máli sem eru meira en 100 ára gömul. Spurning hvort ekki sé kominn tími til að sætta sig við það.

Öðru er ég þér sammála um.

Að lokum,

við verðum að vara okkur á því að dæma ekki fólk út frá því hvernig það talar málfræðilega heldur reyna frekar að hlusta á hvað það hefur að segja.

Lára (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 13:28

6 identicon

Ég reyndi að hlusta eftir því HVAÐ fréttamenn höfðu að segja varðandi smyglmálið hér að Fáskrúðsfirði.  Einn þeirra þrástagaðist á "óeinkennisklæddum lögreglubílum".  Annar tók það margoft fram að það hafi verið "kafað niður að skútunni"  Villurnar eru því ekki eingöngu málfræðilegar.

Gunnar Geirsson (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 13:46

7 Smámynd: Ásta Björk Solis

Eg tok mikid eftir malvillunum thegar eg var a Islandi fyrir 3,arum serstaklega i sjonvarpinu.Eg reyni ad gera mitt besta med ad halda henni vid her uti.

Ásta Björk Solis, 24.9.2007 kl. 14:04

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ágætur pistill en málið er jú í stöðugri þróun og ekki þarf allt að vera slæmt.

"Að renna út á tíma" finnst mér alls ekki nein ambaga þó setningin sé úr ensku. Fornmenn hefðu sjálfsagt kváð við að heyra einhvern segja "að falla á tíma". Þetta er jú komið úr skákinni og þó eitthvert afbrigði skákar hafi e.t.v. verið til á landnámsöld, þá voru örugglega ekki til skákklukkur.

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.9.2007 kl. 14:09

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nafnháttarsýkin einfaldar stundum og stundum ekki. "Þeir eru að spila vel" krefst umhugsunar um "eru" og notuð eru fjögur orð. "Þeir spila vel", - notuð eru þrjú orð. 

Ómar Ragnarsson, 24.9.2007 kl. 14:12

10 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Orð í tíma töluð, Ómar. Það var oft gaman og einnig mjög ganglegt að hlýða á Pétur Pétursson okkar gamla ástkæra útvarpsþul taka fyrir ýmsar ambögur í málinu. Oft má líta mjög slæmar málvillur á síðum dagblaðanna í dag. Einhvern veginn finnst mér hafa orðið afturför hvað þetta varðar. Það er nauðsynlegt að hafa slíka málfarsráðunauta sem leiðrétta þær villur sem eru að slæðast inn í málið. Góð umfjöllun, Ómar.

Sigurlaug B. Gröndal, 24.9.2007 kl. 14:29

11 Smámynd: Sverrir Páll Erlendsson

Þakka þér góðan pistil, Ómar og það er ekki síst ánægjulegt að þú, úr hópi fréttamanna, skulir ganga fram og segja málfari fréttamiðlanna til syndanna. Oft og iðulega hafa fréttamenn brugðist fremur illa við "þessari andskotans afskiptasemi" þegar reynt hefur verið að segja þeim til. Um hríð leitaðist Ríkisútvarpið við að halda í hefðir málsins og kom sér upp málfarsráðgjöfum, en nú skilst mér að flest starfsfólk vilji helst ekkert við svoleiðis menn tala.

Nú er það svo að ef íslenska er lifandi mál þá á hún að geta breyst, en breytingar á máli verða jafnan á löngum tíma. Þess vegna er ekki óliklegt að honum langar og ég vill verði smátt og smátt viðtekið, að minnsta kosti til jafns við hitt. En margt af því sem þú nefnir er annars eðlis, ekki síst þessi miklu útlensku áhrif. Um það mætti hafa langt mál.

Þér verður tíðrætt um nafnháttarsýkina, sem líka má kalla samsetta nútíð. Samsett nútíð er ekki ný í íslensku, en hún hefur hingað til verið annarrar merkingar en núna. Ég er að tala við þig, ég er að lesa bókina, ég er að steikja læri o.s.frv. hefur verið sagt, en þá eingöngu um eitthvað sem stendur yfir, er að gerast. Að nota þetta sem þátíð eða sem óskilgreinda nútíð (þeir voru ekki að spila vel, þeir eru bara ekki að spila vel) er nýjungin. Og menntamálaráðherra er eitt skýrasta dæmi um notanda samsettrar nútíðar. Mér þykir það svolítið sérkennilegt. Hvernig væri ef íslenskukennari kynni ekki undistöðuatriði í stafsetningu - eða færi ekki eftir þeim?

Mig langar til að vísa á þennan skemmtilega og efnismikla pistil þinn á vefnum mínum, þar sem ég hef skrifa örpistla um hliðstæð efni, og leyft mér að kalla þá Mannamál, sjá http://svp.is/ eða nánar á http://www.svp.is/articles/mannamal/

En spurningin er: Hvernig er hægt að koma því við að fjölmiðlarnir vandi sig. Áhrif fjölmiðla eru svo geigvænlega sterk. Það sem er síendurtekið í útvarpi smýgur á ógnarhrða inn í málið. Og því áhrifameiri eru miðlarnir sem markhópurinn, hlustendurnir, eru ungir. Það er ekki nóg að vanda málið á Rás 1 sem enginn hlustar á undir fertugu (!).

Sverrir Páll Erlendsson, 24.9.2007 kl. 15:16

12 identicon

Sammála flestu, ef ekki öllu bara.

Svo tek ég undir með Sverri og spyr: Hvernig er hægt að koma því við að fjölmiðlar vandi sig? Og ekki er nóg að vanda málfar á Rás 1 þar sem sú rás er ekki "inni" meðal flestra ungra einstaklinga. Finnst það ætti bara að skylda alla útvarpsmenn til að passa upp á málfar sitt. T.d. mætti byrja á að laga málfar sumra á FM957 :) Hef ekki heyrt um að þar sé í gangi einhver sérleg málfarsstefna.

Tómas Árni (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 16:49

13 identicon

Sæll gamli vin,

Þakka þér pistilinn og mæl þú manna heilastur. Ég hef verið að blogga um  svipað efni á Moggabloggi,"Skrifað og skrafað", en það sjá  mjög fáir, því það  gerir aldrei  nema  2-3 mínútna stans á  forsíðu bloggsins. Skýrining  gæti verið  , að  ég geri  mjög  oft  athugasemdir við á málfarið á  mbl.is,sem oft er  með ólíkindum.Bögubósar og ambögusmiðir  vaða þar uppi.

Í áratugi hefur  verið  talað um aggnesiga, kebblíkiga og knasspydnu í íþróttafréttum  sjónvarps. Þetta er því miður ekkert nýtt og það virðist ekki mikill áhuga á umbótum.

Kv  

Eiður (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 17:16

14 identicon

Sæll vertu Ómar.

   Ég hefii aldrei farið inn skrifin þín, en það er mjög brýnt að við förum að taka á hvernig komið er fyrir Íslenskunni. Hvernig stendur á því að einstaklingar sem hafa atvinnu af því að lesa fyrir þjóðina, kunna ekki að lesa.  Þetta er nú ekki flóknara en það, ólæsir einstaklingar eiga að vera í annari vinnu en þeirri. Nóg af einstaklingum sem vilja þessi störf.  Ég á tvö tvítyngd barnabörn, og er að gera kröfur til þeirra, en þau bæði sjá og heyra annað en fyrir þeim er haft heima.  Einhversstaðar í fræðslunni er einhverju ábótavant, ég held að það hljóti að vera.

   Og hvaða nafnháttardella er í gangi og hvernig komst þetta eiginlega inn í hið talaða mál.  Gott að skólabróðir minn Eiður skrifar. Kv. sh.

Sólveig Hannesdóttir (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 19:22

15 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Þakka þér fyrir þennan pistil(og alla aðra um umhverfismálin)  einkum fyrir sjálfa mig á blogginu. Það er vandi að hugsa skýrt. Það sem fer einkum í taugarnar á mér í sjónvarpi allra landsmanna eru þeir einstaklingar sem tala ekki með réttri hrynjandi. Þar þyrfti að gera bragarbót á.

María Kristjánsdóttir, 24.9.2007 kl. 20:38

16 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Sæll Ómar.Ljómandi góður pistill og orð í tíma töluð,ég er dálítið íhaldsamur á íslenskuna og er ekki tilbúinn að viðurkenna t.d mér langar og ég vill,hvað sem segja má um þróun málsins,mér finnst þetta frekar vera eins og sveigja málið að því sem ég vil hafa það,en ekki þróun,og þegar svo er komið fer maður að gera fleiri svona breytingar sem ganga á svig við hefðbundnar venjur,og hættir að lokum að gera sér grein fyrir hvort þetta er einhver erlend þýðing eða rammíslenskt orð.

Ari Guðmar Hallgrímsson, 24.9.2007 kl. 22:17

17 identicon

Sæll Ómar og þakka þér fyrir frábæran pistil.

En hver er lausnin á þessum stóra vanda? Lestur og skrift eykst ár frá ári vegna þess að samskipti okkar hafa breyst. Við erum sífellt að skrifa msn, tölvupóst, blogg og annað en samt eykst vandamálið. Þetta er áhugavert, við þurfum að finna góða lausn, hvað getum við gert til þess að bæta okkur, laga vandamálið?

Eydís Eyjólfsdóttir (IP-tala skráð) 25.9.2007 kl. 00:02

18 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Öfugt við allt sem íslenskt er

eigra margir nú.

Vantar allan vilja og kjark,

von og nýja trú.

Trú á það sem kemur,

trú á það sem er,

tilganginn með tilverunni,

tiðurð okkar hér.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 25.9.2007 kl. 01:04

19 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta er góð umræða og tímabær. Mér finnst það skaði að hafa ekki séð pistla þeirra sem ræða um málvöndun hér á blogginu en fer nú að bæta úr því. Líklega erum við öll sek um einhverjar málfarslegar villur og gott að fá áminingar. Mín reynsla er að fáir séu þar alvísir. "Orð skulu standa." Í síðasta þætti kom einn þátttakandinn með botninn: "Ég versla mér úlpu á Visa-rað, vatteraða og hlýja." Auðvitað eru þessir botnar alvörulaust gaman og bágt á ég með að trúa því að kona með ættarnafnið Hafstað versli sér mikið í búðum; reyndar útiloka ég það.

En nú eru allir hættir að spila fótbolta. Í staðinn tóku menn upp fóbolta.

Og nú eru allir farnir að tala, segja, gera eitthvað "með þessum eða hinum hætti" þegar þeir vilja vera hátíðlegir. Þetta er orðið að plágu.

Hann Pétur þulur var beinínis STOFNUN í íslensku máli.

Árni Gunnarsson, 25.9.2007 kl. 09:19

20 Smámynd: Pétur Þorleifsson

"Eigðu góðan dag" heyrir maður oft núorðið.  Það er eins og "have a nice day".

Pétur Þorleifsson , 25.9.2007 kl. 10:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband