13.1.2008 | 15:28
ALLTAF SKREFI Á EFTIR.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór á kostum í Silfri Egils nú rétt áðan við að varpa skýru ljósi á það hvernig við Íslendingar erum að endurtaka mistök annarra þjóða í byggingar- og skipulagsmálum með því að halda að kaldranalegar gler- og steypukassabyggingar hleypi mestu lífi í borgir. Ég hef lengi haldið því fram að vegna þess að krossgötur byggðar á Reykjavíkursvæðinu liggja á svæðinu Elliðavogur-Höfði-Mjódd-Smárinn hlyti miðja frjálsrar verslunar og þjónustu að leita þangað.
Þess vegna væri vonlaust að hin gamla miðborg Reykjavíkur sem liggur 3-5 km frá þessari miðju gæti keppt á forsendum þungamiðju byggðarinnar sem liggur austast í Fossvogsdal.
Hinir köldu stein- og glerkassar þessarar miðju ættu hins vegar enga möguleika á að keppa við aðlaðandi, afslappandi og menningarsögulegt umhverfi gömlu miðborgarinnar með Laugaveginn sem helstu götuna með sérverslunum og litlum fyrirtækjum og stofnunum sem veita sérhæfða þjónustu.
Þangað myndi ferðafólk leita til upplifunar á sérstöðu íslensks samfélags en ekki til steinkassanna og glerhallanna sem gætu verið í hvaða erlendri borg sem væri.
Sigmundur Davíð sýndi fram á að stefnan sem hér er fylgt hefur beðið skipbrot erlendis og að nú er víða reynt að snúa til baka, jafnvel þótt það kosti að brjóta niður steinkassana frá síðustu öld.
Nú er að baki 20. öldin þar sem margt hefur verið reynt í húsagerðarlist og niðurstaðan var raunar fyrirsjáanleg: Manninum líður yfirleitt best í umhverfi sem er sem líkast því sem kynslóðirnar næstu árþúsund á undan lifðu við.
Þegar loks er búið er að prófa allt, er það sem mönnum datt síðast í hug ekki endilega alltaf það besta. Sigmundur Davíð sýndi dæmi erlendis frá sem væru hliðstæða þess að nú væri verið að brjóta gömlu Morgunblaðshöllina niður og reisa í staðinn hús í elstu húsaröð borgarinnar sem væru í samhljómi við húsin sitt hvorum megin við þau.
Hugsanlega væri verið að opna Austurstræti til vesturs með mjóum stíg upp í Grjótaþorpið.
Sigmundur Davíð er að vinna mjög þarft verk en um það gildir svipað og um flest í umhverfisbaráttuna hér að hún er alltaf skrefi á eftir, hvort sem er í andófi gegn þeirri sovésku austantjaldstefnu sem dýrkar stóriðju, steypu- og glerkassa, risaverksmiðjur og ríkisstyrktar risaframkvæmdir á borð við Kárahnjúkavirkjun
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
13.1.2008 | 08:17
AÐ FORÐAST ÞAÐ ÓHJÁKVÆMILEGA.
Það þarf ekki annað en að líta á kort af Seltjarnarnesinu öllu, þ. e. byggðinni vestan Elliðaáa, til að sjá að það hlýtur að koma að því að svæðið fyrir utan Reykjavík á nesinu verði fullbyggt. Þetta svæði Seltjarnarnesbæjar er svo lítið miðað við annað hugsanlegt byggingarland á höfuðborgarsvæðinu að þetta er ekki spurningin um hvort, heldur hvenær. Í þjóðfélagi þar sem óendanlegur vöxtur og hagvöxtur eru orðin trúarsetning er þetta skiljanlega nokkuð sem bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi virðast ekki geta sætt sig við.
Ég hef áður sagt frá íslenskum ráðamanni sem sagði við mig fyrir áratug: Reynslan sýnir að ef ekki er haldið áfram viðstöðulaust að virkja kemur kreppa og atvinnuleysi. Og þegar ég spurði hann á móti hvað ætti að gera þegar allt virkjanlegt hefði verið virkjað svaraði hann: Það verður verkefni þeirrar kynslóðar sem þá verður í landinu.
Og þá vaknaði ný spurning: Úr því að óhjákvæmilega kemur að þessu, hvers vegna eigum við að velta þessu viðfangsefni yfir á afkomendur okkar? Myndu þeir ekki verða okkur þakklát ef við fyndum sjálf lausnina á afleiðingum gerða okkar? Og er það ekki réttlátar en að velta því yfir á næstu kynslóðir?
Það getur ekki verið langt í það að endimörkum byggðarvaxtar í Seltjarnarnesbæ verði náð. Hvernig væri nú að Seltirningar gerðu afkomendum okkar allra þann greiða að finna lausn á því ástandi sem skapast þegar ekki verður lengur hægt að feta sömu braut og farin hefur verið?
Hvernnig væri að fundin væri leið til nauðsynlegrar endurnýjunar og kynslóðaskipta í þessu bæjarfélagi sem byggist ekki aðeins á því að reisa ný og ný hús?
Það er augljóslega stutt í það hvort eð er að byggingarland bæjarfélagsins verði fullnýtt. Nema að menn ætli sér að umbreyta bænum úr friðsælu og umhverfisvænu byggðarlagi í byggð sem smám saman missir þann svip og það aðdráttarafl, sem svona byggð hefur, - breyta henni í byggð hárra skýjakljúfa í stíl við það sem er við Skúlagötu í Reykjavík.
En jafnvel þótt stefnt verði inn á þá braut verður endapunkturinn augljóslega hinn sami vegna takmarkaðs byggingarlands og þá munu orð ráðamannsins rætast: "Það verður verkefni þeirrar kynslóðar sem þá verður uppi að leysa úr vandamálinu. Vandanum velt yfir á afkomendurna í stað þess að leysa hann strax.
![]() |
Óttast umhverfisslys við Nesstofu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.1.2008 | 00:31
EKKERT GEYSISGRÍN.
Sú niðurstaða lögspekinga að ekki megi setja lög sem hindra að Hitaveita Suðurnesja í að selja orkulindir sínar sýnir vel hve erfitt úrlausnarefni bíður við að koma í veg fyrir þjóðin missi frá sér eignarhaldið yfir orkulindum landsins. Geysir green energie kom til skjalanna rétt fyrir síðustu kosningar og þá strax tók Íslandshreyfingin þetta mál ákveðið fyrir og varaði sterklega við því að rasa um ráð fram í þessu efni.
Atburðarás síðasta árs með REI-klúðrið sem hápunkt leiddi í ljós hve þessar aðvaranir áttu mikinn rétt á sér og að fyrir hefði þurft að liggja vönduð löggjöf á þessu sviði sem tryggði farsælan feril hinnar nýju starfsemi á nýjum vettvangi.
Í viðskiptaheiminum er nauðsynlegt að vera fljótur að framkvæma og hinir stórkostlegu möguleikar til útrásar orkugeirans og vísinda- og verkþekkingar og reynslu Íslendinga leiddu til hraðrar atburðarásar sem fór úr böndunum.
Nú verður að vanda sig við að búa tryggilega um hnúta á þeirri leið sem nauðsynlegt er að feta á leið okkar til þeirra framfara og útrásar sem þrátt fyrir ekki má ekki fara út um þúfur. Ef við verðum að flýta okkur verðum við samt að flýta okkur hægt.
Hér er verið að glíma við ný viðfangsefni þar sem bæði skortir reynslu og árangur af langri rökræðu eins og gildir um mörg önnur svið þjóðlífsins þar sem menn hafa haft áratugi til að feta sig áfram á braut samþættingar opinbers rekstrar og einkarekstra.
Nú er komið í ljós að Geysir green var ekkert grín heldur alvörumál. Vonandi verður samt hægt að vinna úr því máli á þann hátt að full sátt náist og sá árangur sem allir vildu þrátt fyrir allt stefna að.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)