ALLTAF SKREFI Á EFTIR.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór á kostum í Silfri Egils nú rétt áðan við að varpa skýru ljósi á það hvernig við Íslendingar erum að endurtaka mistök annarra þjóða í byggingar- og skipulagsmálum með því að halda að kaldranalegar gler- og steypukassabyggingar hleypi mestu lífi í borgir. Ég hef lengi haldið því fram að vegna þess að krossgötur byggðar á Reykjavíkursvæðinu liggja á svæðinu Elliðavogur-Höfði-Mjódd-Smárinn hlyti miðja frjálsrar verslunar og þjónustu að leita þangað.

Þess vegna væri vonlaust að hin gamla miðborg Reykjavíkur sem liggur 3-5 km frá þessari miðju gæti keppt á forsendum þungamiðju byggðarinnar sem liggur austast í Fossvogsdal.

Hinir köldu stein- og glerkassar þessarar miðju ættu hins vegar enga möguleika á að keppa við aðlaðandi, afslappandi og menningarsögulegt umhverfi gömlu miðborgarinnar með Laugaveginn sem helstu götuna með sérverslunum og litlum fyrirtækjum og stofnunum sem veita sérhæfða þjónustu. 

Þangað myndi ferðafólk leita til upplifunar á sérstöðu íslensks samfélags en ekki til steinkassanna og glerhallanna sem gætu verið í hvaða erlendri borg sem væri.

Sigmundur Davíð sýndi fram á að stefnan sem hér er fylgt hefur beðið skipbrot erlendis og að nú er víða reynt að snúa til baka, jafnvel þótt það kosti að brjóta niður steinkassana frá síðustu öld.

Nú er að baki 20. öldin þar sem margt hefur verið reynt í húsagerðarlist og niðurstaðan var raunar fyrirsjáanleg: Manninum líður yfirleitt best í umhverfi sem er sem líkast því sem kynslóðirnar næstu árþúsund á undan lifðu við.

Þegar loks er búið er að prófa allt, er það sem mönnum datt síðast í hug ekki endilega alltaf það besta. Sigmundur Davíð sýndi dæmi erlendis frá sem væru hliðstæða þess að nú væri verið að brjóta gömlu Morgunblaðshöllina niður og reisa í staðinn hús í elstu húsaröð borgarinnar sem væru í samhljómi við húsin sitt hvorum megin við þau.

Hugsanlega væri verið að opna Austurstræti til vesturs með mjóum stíg upp í Grjótaþorpið.

Sigmundur Davíð er að vinna mjög þarft verk en um það gildir svipað og um flest í umhverfisbaráttuna hér að hún er alltaf skrefi á eftir, hvort sem er í andófi gegn þeirri sovésku austantjaldstefnu sem dýrkar stóriðju, steypu- og glerkassa, risaverksmiðjur og ríkisstyrktar risaframkvæmdir á borð við Kárahnjúkavirkjun  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Af öllum þeim borgum, sem ég sigldi til á 8. áratugnum fannst mér Múrmansk alltaf minna mig mest á Reykjavík. Það var einkennileg blanda af hryllingi og heimþrá, sem kom yfir mann við komuna þangað.

Það skal tekið fram að ég bjó í Fellsmúlanum.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.1.2008 kl. 16:32

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það má samt segja, Ómar, að á sinn hátt hefur Morgunblaðshöllin í Aðalstræti verndað Grjótaþorpið. En það væri tilvalið í brjóta húsið niður og setja Fjalarköttinn þar niður í staðinn.  Pældu bara í því hvað munaði litlu að Fótegahúsið fylgdi Fjalarkettinum.

Marinó G. Njálsson, 13.1.2008 kl. 16:59

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Tek undir athugasemdina um Murmansk. Þegar ég kom þangað 1978 var flest með svipuðum blæ og í Reykjavík 1948. Verkakallar voru fluttir í og úr vinnu á öllum vörubíla sem voru með svipuðu útliti og vörubílarnir í Reykjavík 1948, göturnar voru ófrágengnar og biðraðir við búðir sem skorti varning til sölu.

Byggingarnar voru illa frágengnar blokkir og allur borgarbragurinn þannig að maður fékk mikla fortíðartilfinningu frá skömmtunar- og vöruskortstímanum á Íslandi frá 1948-61.

Eitt höfðu þeir þó fram yfir okkur. Söfnin þeirra voru miklu betri en okkar söfn, til dæmis náttúrugripasafnið. Minningin um það vekur manni depurð þegar hugsað er til þess hvernig komið er fyrir hinu íslenska á því herrans ári 2008.

Ómar Ragnarsson, 13.1.2008 kl. 18:46

4 Smámynd: Ísleifur Egill Hjaltason

Frábær maður hann Sigmundur Davíð. Við í UVG fengum hann á fund sem við skipulögðum í gær um skipulagsmál og hann sýndi svart á hvítu hversu heimskulegt það er að vaða bara áfram blint í þessum málum. SUS-arar ættu kannski að kynna sér hann áður en þeir koma með jafn þröngsýna yfirlýsingu og Þórlindur greyið var með núna fyrir skömmu.

Ísleifur Egill Hjaltason, 13.1.2008 kl. 19:42

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sigmundur sýndi máli sínu til stuðnings dæmi um hvernig götumyndir væru eyðilagðar með því að blanda saman gömlu og nýju. Sú röksemd er út í hött þegar við erum að tala um Laugaveg 4-6. Þær fallegu bygginar sem sýndar voru í þeim dæmum eiga ekkert skylt við þessi Laugavegshús. Hann notaði verulega afleit dæmi. Það er alger óþarfi að vera með svona málflutning til þess að sanna sitt mál. Að öðru leyti fannst mér það sem fram kom í viðtalinu mjög athyglisvert og ég held að flestir hljóti að taka undir mörg sjónarmið sem þar komu fram. T.a.m. sá punktur að gömlu húsin eru lítils virði ef heildarmyndin í umhverfi þeirra er þegar orðin skemmd.

Miðborg Reykjavíkur verður ekki færð úr kvosinni þó landfræði og búsetuleg miðja hennar sé annarsstaðar. Bernhöftstorfan er gott dæmi um hlægilega (en þó fallega) húsaröð sem ekki á heima í Lækjargötunni. Hún væri hins vegar flott í Hljómskálagarðinum og útlendingar væru lítið að spá í staðsetninguna, en það virðist einn aðal drifkraftur  al-friðunarsinna, að sleikja sig upp við þá. "How do you like Iceland" syndrómið.

Hvernig er það annars Ómar, á ekkert að samþykkja mig sem blogvin? Eða velurðu úr jábræður í þann hóp?

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.1.2008 kl. 21:31

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Minn kæri Gunnar, ég hélt svo sannarlega að þú værir bloggvinur minn fyrir löngu en ég lenti í vandræðum í haust með tölvuna mína og þess vegna gæti þetta verið eins og þú segir.

Miðað við heimsóknir þínar ertu fyrir löngu einn af helstu bloggvinum mínum. Ég bið þá sem vilja nú gerast formlega gerast bloggvinir mínir að senda inn umsókn um það.

Allir eru velkomnir í þann hóp og skipta skoðanir þar engu máli. Mismunandi sjónarmið, skoðanir og viðhorf eiga að vera ær og kýr fjölmiðlamanna eins og mín.

Ómar Ragnarsson, 13.1.2008 kl. 22:41

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er fylgjandi því að húsin númer 4 og 6 við Laugaveg verði gerð upp í upprunalegu formi vegna þess að þau mynda heild, að vísu ekki stóra, með Laugavegi 2 sem var hugsað eins og eimreið fyrir framan húsin fyrir aftan þau, sem þá líktust vögnunum sem eimreiðin drægi.

Ef farið verður að núverandi tillögum um hótelið gnæfir Laugavegur 4 yfir Laugaveg 2, sem verður eins og einmanalegur lítill aðskotahlutur á horninu í stað þess að standa þar fremst í eimreiðarröð húsanna þriggja númer 2, 4 og 6.

Ómar Ragnarsson, 13.1.2008 kl. 22:46

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ein myndlíkingin var að Laugavegshúsin væru perlur í festi, önnur að þau væru eins og tennur í fallegu brosi.  Tennur í fallegu brosi!! Frekar eins og brunarústir í skemmdum og ónýtum tanngarði, fólk flaggar ekki slíkum kjafti. Þrautalendingin eru nýjar mublur en þær eru oft til vandræða og hafa tilhneigingu til að skrölta með tímanum.

Ómar, ég sótti um að vera bloggvinur þinn fyrir nokkrum dögum og ef þú ferð í "bloggvinir" í stjórnborðinu hjá þér, þá ættirðu að sjá efst hverjir eru að sækja um hjá þér. Svo er bara að samþykkja. Ég hef mjög gaman að því að kíkja á bloggið þitt og það er ákveðin hagræðing í því að hafa þig sem bloggvin, því þá sé ég í stjórnborðinu hjá mér þegar þú hefur sett inn nýja færslu. Og þá mæti ég auðvitað til þess að koma andstæðum sjónarmiðum á framfæri og þú hefur oft tekið slaginn og þannig birtist bloggið mér í sinni jákvæðustu mynd. Takk fyrir það Ómar!

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.1.2008 kl. 23:32

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það mætti e.t.v. takmarka enn frekar hæð hótelsins á reitnum og hafa það í byggingartíl sem þið getið sætt ykkur við. En það þarf nú samt ekki að vera lægra eða jafnhátt hornhúsinu til þess að hafa einhvern eimreiðarstíl á því. Hér hafa aldrei verið eimreiðar, nema eitthvert sýnishorn af kolavagnaeimreið niður við höfn. Og jú, ...það var járnbrautarlest í Kárahnjúkagöngum, sú lang-lengsta á landinu hingað til. Verðugt að halda til haga minjum um það?

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.1.2008 kl. 23:43

10 Smámynd: Calvín

Þegar velja þarf á milli miðbæjarrómantíkur og kaldra peningaraka fjárfesta þá er valið einfalt fyrir flesta. Hins vegar kostar það fjármuni að velja rómantíkina og þá fjármuni eiga ekki nema fjársterkir fjárfestar eða opinberir aðilar. Þarna liggur efinn.

Hins vegar hljótum við að gera þá kröfu til fulltrúa okkar í sveitarstjórnum sem fara með skipulagsmál að þeir passi upp að það allra heilagasta sem við viljum varðveita. Þar er miðbæjarrómantíkin ofarlega á blaði. Það er grátlegt að horfa upp á hvernig þessir fulltrúar okkar í Reykjavík meðhöndla þetta mál. Ég er sammála Ómari að umfjöllun Sigmundar Davíðs vakti mig til umhugsunar um hvað hægt er að gera ef viljinn er fyrir hendi og stefnan er skýr. Því er ekki fyrir að fara í borgarstjórn Reykjavíkur því miður.

Calvín, 13.1.2008 kl. 23:48

11 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Já Sigmundur hefur vonandi vakið einhvern af Þyrnirósasvefni. Mér finnst gott ef einhver vill endurgera þessi hús en get vel hugsað mér nýtt þarna sem tónar við umhverfið

Hólmdís Hjartardóttir, 14.1.2008 kl. 00:20

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það cerður erfitt að ætla sér að halda algerlega í svokallaða upprunalega mynd húsa, því sum voru bara alls ekkert beysin í upphafi.  Til að fá fallegan, notalegan og aðlaðandi svið á gamla miðbæinn, mætti gefa frjálsræði með að endurbyggja í sárin með fallegum og frambærilegum húsum í anda þess gamla.  Bæði við Austurstræti /Lækjargötu og Bankastræti /Laugavegur vestri, þá má hafa þennan hjýlega front eins og einskonar leikmynd með fullkomlega fúnksjónal verslunarhúsnæði og íbúðarhúsnæði að baki.  Þetta yrði í anda þess sem gert var á horni Aðalstrætis /Garðastrætis, allt úr endingargóðum, nútímalegum efnum.

Ég sé fyrir mér ð hægt er að ganga inn af göttunni í vinarlega aldamótastemmningu kaffihúsa og smáverslana en innar eru göngutorg með verslanir á báðar hendur en yfir þessu fjöldi hæða með skrifstofu þjónustu og íbúðum.

Í þessum skilningi mætti þessvegna rífa niður allan laugaveginn og endurbyggja götumyndina í aldamótastíl, svo maður kemur nánast inn í Dickens umhverfi, en að baki eru erilsamar verslunarmiðstöðvar, með íbúðum og skrifstofum hátt upp í loft.

Taka þetta heilstætt og laga þessa hörmung í eitt skipti fyrir öll. Þarna er fullt af ónýttu rúmi og ekkert sem segir að ekki megi byggja svo að það þjóni nútímavæntingum og kröfum.  Bara að hafa tvöfalda mannhæð af leikmynd, sem höfðar meira til manna.  Ég er að meina þetta. Slíkt hreint og vinalegt umhverfi mun líka breita viðmóti manna til hvers annars og hver veit nema þetta hafi áhrif á hefðun og umgengni líka til hins betra.

Ómar, þú hugsar stórt. Nú ættu þið Snorri Freyr formaður Torfusamtakana að galdra fram svona sáttarlendingu í málinu. Þetta þarf nefnilega ekki að vera annað hvort eða, heldur getum við leyft okkur hvort tveggja og held ég að það muni hafa augljósa kosti umfram annað.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.1.2008 kl. 05:24

13 identicon

Ómar - eitt varðandi glerhýsi.  Þetta nýja stóra sem verið er að klára í Kópavogi við Smáralind virkar eins og stórhættulegur spegill við endurvarp sólarljóss í augu bílstjóra sem leið eiga um Reykjanesbrautina. Ég hef hálfblindast og rétt sloppið við slys.  Hér hafa skipulagsyfirvöld, arkitekt ofl. brugðist og munu að sjálfsögðu enga ábyrgð bera þegar slysin verða vegna þessa.

Borgari (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 12:46

14 identicon

Hér má sjá viðtalið við hann Sigmund:

http://www.youtube.com/watch?v=Z2bA9Fp6trQ

http://www.youtube.com/watch?v=qgzAELhTNqI

Keli (IP-tala skráð) 15.1.2008 kl. 17:54

15 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég get alveg fallist á það að setja járnbrautarlestina í Kárahnjúkagöngunum sem safngrip. Ég hef áður sagt að verkfræðilega er þessi stærsta framkvæmd Íslandssögunnar stórvirki sem halda á til haga. Gildir þá einu hvort ég var eða er með eða á móti framkvæmdinni.

Þegar um minjar er að ræða verðum við að geta risið upp úr gömlum eða nýjum skotgröfum. Öll stríðsárin og lungann úr síðustu öld tókst Eimskipafélaginu að halda í gamla Þórshamarsmerki sitt. Síðan komu einhverjir ímyndarfræðingar og tókst að fæla Eimskip frá því að halda í þetta merki.

Ég var viðstaddur þegar Gerlach-Benzinn var settur inn hjá bílaumboðinu og ágætur maður kom með nasistaflagg sem hann setti á viðeigandi stöng á bílnum. Flaggið var í minum augum helmingurinn af gildi bílsins. Þegar ég kom þangað í gær var flaggið horfið og komið í vörslu.

Stríðsminjar á Íslandi, svo sem rústir ratsjárstöðvarinnar á Straumnesfjalli, líða fyrir það að öll stríðstól voru umdeild í kalda stríðinu.

Dýrmætasti gripurinn á mínu heimili er stór öskubakki sem faðir minn fékk í afmælisgjöf frá besta heimilisvin okkar; Baldri heitnum Ásgeirssyni. Baldur var fágætur ljúflingur, bakkinn er listasmíð og á honum er stórt merki SS-sveitanna, hauskúpa með krosslögðum leggjum.

Baldur var annar tveggja manna sem valinn var af Heinrich Himmler til að dvelja í Dachau og nema allar kúnstir mótasmíði og leirkerasmíði og styttugerðar. Himmler var sérstakur áhugamaður um þau mál og sá fyrir sér notagildi þessarar listar til að upphefja aríska list. Himmler var einhver viðbjóðslegasti nasistanna og er þá mikið sagt.

Maður sá fyrir sér að Baldur og félagi hans hefðu verið öðru megin við vegg í Dachau við að vinna úr grjóti sem gyðingarnir hinum megin við vegginn væru látnir þræla í til dauðs.

Nasisminn var hroðalegasta afurð mannsins sem hægt var að hugsa sér og seinni heimsstyrjöldin var því ekki háð til einskis þótt hræðileg væri.

Við rannsóknir mínar á djöfullegri færni stríðsvélar nasista í tengslum við heimildarmynd sem ég er að gera hef ég rekist á hverri hernaðarlega snilldina á fætur annarri sem þar spratt fram, einkum í upphafi stríðsins.

Þessi snilld verður enn skelfilegri við það að íhuga hinn hroðalega málstað sem hún þjónaði. En við verðum að geta hafið okkur upp fyrir samtíma okkar þegar við ákveðum varðveislu hluta og staðreynda.

Ómar Ragnarsson, 16.1.2008 kl. 10:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband