14.1.2008 | 20:48
LEIKUR AÐ SKRÝTNUM TÖLUM.
Í grein í Morgunblaðinu í dag heldur Einar Eiríksson því fram að Reykjavíkurflugvallarsvæðið sé 140 hektarar innan girðingar og að 160 hektarar í viðbót séu "óbyggilegir" vegna flugvallarins. Alls fari 300 hektarar af landi undir flugvöllinn. Það er lítið hægt að komast áfram af viti í þessu máli nema réttar tölur séu notaðar. Nú er unnið að því endanlega og óafturkræft að NA-SV brautin sé lögð niður og að innan flugvallargirðingar verða þá 108 hektarar en ekki 140. Uppbygging á þessum 32 hekturum sem eru að losna er í startholunum.
Til eru möguleikar á að breyta flugvellinum með því að lengja A-V brautina, leggja núverandi N-S braut niður og hafa í staðinn stutta N-S braut þar sem olíustöð Skeljungs er í Skerjafirði. Með slíkri tilhögun mætti minnka flugvallarsvæðið niður í 70 - 80 hektara og afnema að mestu flug yfir kvosina og alveg yfir Kársnesið.
En þetta fæst ekki skoðað vegna þess að menn eru komnir í skotgrafir þar sem málið snýst um allt eða ekkert.
Þegar rætt er um "óbyggilegt svæði" er væntanlega verið að tala um Fossvogskirkjugarð og útivistarsvæði í Öskjuhlíð.
Á þá að líta á kirkjugarðinn við Suðurgötu og Elliðaárdal sem vandamál vegna þess að þessi svæði séu "óbyggileg"?
Engu máli hefði skipt á sínum tíma hvað varðar kirkjugarðana hvort flugvöllur var eða var ekki í Vatnsmýri og á Skildinganesmelum. (30 prósent flugbrautanna eru í Vatnsmýri, 70 prósent sunnan Vatnsmýrar). Kirkjugarðar Reykvíkinga á 20. öld hefðu hvort eð er verið settir niður vestan Elliðaáa.
Þessir tveir kirkjugarðar, Suðurgötugarðurinn og Fossvogsgarðurinn eru verndaðir með grafarhelgi í 75 ár hið minnsta og fráleitt að kenna flugvellinum um tilvist þeirra.
Meðal "óbyggilegu" svæðanna er útivistarsvæðið í Nauthólsvík og stórt svæði umhverfis Perluna sem vel væri hægt að nýta til bygginga. Hins vegar kjósa menn fremur að nýta það öðruvísi.
Það er merkileg hugsun að samgöngumannvirki og útivistarsvæði séu óæskileg vegna þess að þau séu "óbyggileg".
Þeir sem vilja samgöngumannvirki í burtu til þess að þétta byggð sem allra mest gleyma því að borgir verða til vegna samgangna en ekki öfugt. Borg án samgangna er eins og líkami án æða- og taugakerfis.
Allar helstu borgir liggja á krossgötum eða vegamótum samgangna á landi, sjó og í lofti.
Fyrir stríð komu menn sjóleiðis úr vestri til Reykjavíkur og fóru landleiðis austur. Leiðirnar mættust í kvosinni.
Nú er þetta breytt. Krossgötunar eru við Elliðaár og þangað leita frjáls verslun, þjónusta og byggð.
Skoðum aðeins betur töluna 108 hektarar. Þetta eru 1,08 ferkílómetrar. Seltjarnarnes vestan við Elliðaár er um 16 ferkílómetrar. Flugvöllurinn tekur því tæplega 7% af þessu landi. Það eru nú öll ósköpin.
Hægt væri að minnka flugvallarsvæðið niður í 0,8 km2 eða í 5% af flatarmáli Seltjarnarness vestan Elliðaáa.
Til samanburðar má geta þess að Miklabrautin ein tekur 50 hektara og Sundahöfn enn meira. Þessi tvö samgöngumannvirki taka meira rými en flugvöllurinn og ætti þá ekki alveg eins og byggja íbúðahverfi á þeim og beina umferð á landi og sjó annað?
Nýlega kom fram að götur og bílastæði á þessu svæði tækju sjö sinnum meira pláss en flugvöllurinn.
Því hefur verið haldið fram að flugvöllurinn hafi valdið því að byggð á Reykjavíkursvæðinu hafi þanist út.
Ég á erfitt með að sjá hvernig svæði sem er 7 prósent af Seltjarnarnesi vestan Elliðaáa hafi skipt sköpum um það að Breiðholt, Árbær og Grafarvogur hafi byggst upp auk bæjarfélaganna sem mynda keðju frá Mofellsbæ til Hafnarfjarðar. Á höfuðborgarsvæðinu austan Elliðaáa búa meira en 100 þúsund manns á svæði sem er 50 sinnum stærra að flatarmáli en flugvallarsvæðið.
Það er merkilegt hvernig einn ferkílómetri undir flugvöll geti kollvarpað öllu á svæði sem er 60 - 70 ferkílómetrar.
Sömuleiðis hefur því verið varpað upp að tilvist flugvallarins valdi því að umferðarslys í Reykjavík séu 40 prósent fleiri en ella væri. Mér er hulin ráðgáta hvernig hægt er að finna slíkt út.
Ég tek hins vegar undir gagnrýni Einars Eiríkssonar á það að skýjahæðar- og skyggnisathuganir skuli ekki ennþá vera hafnar á Hólmsheiði. Eftir meira en 40 ára flug um það svæði grunar mig að vísu að veðurskilyrði þar séu mun lakari en á núverandi flugvallarstæði. En það er ekki nóg að gruna eitthvað. Við verðum að fá tölurnar á borðið svo að hægt sé að byggja á réttum upplýsingum.
Þess má geta að byggingasvæðið sem liggur inn að Hólmsheiði úr vestri er álíka langt frá krossgötum Reykjavíkursvæðisins og Vatnsmýrin.
Einnig er rétt að hafa í huga að það er styttra að fara úr Vatnsmýrinni í Kringluna til að versla en að fara úr Vatnsmýrinni niður á Laugaveg.
Að lokum langar mig til að benda á eitt: Ef Löngusker er draumalandið (þarf samþykki fimm sveitarfélaga) verða gerningarnir þrír. 1. Byggður flugvöllur á Lönguskerjum. 2. Reykjavíkurflugvöllur rifinn. 3. Reist íbúðabyggð í staðinn.
Hins vegar fækkar gerningunum úr þremur í einn ef: 1. Reist er íbúðabyggð á Lönguskerjum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
14.1.2008 | 07:57
LÉLEG RÉTTLÆTING HJÁ ÁRNA.
Nú er það orðin ein helsta réttlæting ráðningar Árna Mathiesens að ráðherrar hagi sér oft svona. Það er rétt hjá Árna að svona hafa ráðherrar haft það svo lengi sem ég man, og minnist ég til dæmis þess þegar lögð var vantrauststillaga á Alþingi 1953 eða 54 vegna skólastjóraráðningar Bjarna Benediktssonar sem þá var menntamálaráðherra. Framsóknarmenn sem þá voru í helmingaskiptastjórn með sjálfstæðismönnum vörðu Bjarna vel í útvarpsumræðum um málið enda nauðsynlegt fyrir þá sjálfa að geta fengið stuðning sjálfstæðismanna þegar þeir ættu í hlut síðar meir.
Í ensku máli orða menn þetta svona: "Ég klóra þér á bakinu og þá klórar þú mér."
Að eitthvað hneyksli sé réttlætanlegt vegna þess að hneyksli séu sífellt að gerast er ákaflega billeg afsökun.
Það sem gerir héraðsdómaramálið sérstakt er það að matslnefndin telur þrjá umsækjendur langhæfasta en setja Þorstein Davíðsson tveimur gæðaflokkum neðar.
Það er óvenjulegt að munurinn í matinu sé svona mikill og það gerir þetta mál sérstakt og verra en flest önnur.
Samanburður Árna við ákvörðun þorskkvótans er út í hött. Þar hefur oftast verið um frekar lítinn mun að ræða á úthlutun og tillögum Hafró en í héraðsdómaramálinu er munurinn himinhrópandi.
Síðasta ákvörðun Einars G. Guðfinnssonar var talin bera vott um hugrekki vegna þess að hann fór svo nálægt tillögum Hafró og lét þrýsting hagsmunaaðila ekki hafa áhrif á sig. Slíku hugrekki virðist ekki til að dreifa hjá Árna Mathiesen um þessar mundir.
![]() |
Oft gerst að ráðherrar fari ekki að áliti álitsgjafa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)