LEIKUR AÐ SKRÝTNUM TÖLUM.

Í grein í Morgunblaðinu í dag heldur Einar Eiríksson því fram að Reykjavíkurflugvallarsvæðið sé 140 hektarar innan girðingar og að 160 hektarar í viðbót séu "óbyggilegir" vegna flugvallarins. Alls fari 300 hektarar af landi undir flugvöllinn. Það er lítið hægt að komast áfram af viti í þessu máli nema réttar tölur séu notaðar. Nú er unnið að því endanlega og óafturkræft að NA-SV brautin sé lögð niður og að innan flugvallargirðingar verða þá 108 hektarar en ekki 140. Uppbygging á þessum 32 hekturum sem eru að losna er í startholunum.

Til eru möguleikar á að breyta flugvellinum með því að lengja A-V brautina, leggja núverandi N-S braut niður og hafa í staðinn stutta N-S braut þar sem olíustöð Skeljungs er í Skerjafirði. Með slíkri tilhögun mætti minnka flugvallarsvæðið niður í 70 - 80 hektara og afnema að mestu flug yfir kvosina og alveg yfir Kársnesið.

En þetta fæst ekki skoðað vegna þess að menn eru komnir í skotgrafir þar sem málið snýst um allt eða ekkert.  

Þegar rætt er um "óbyggilegt svæði" er væntanlega verið að tala um Fossvogskirkjugarð og útivistarsvæði í Öskjuhlíð.

Á þá að líta á kirkjugarðinn við Suðurgötu og Elliðaárdal sem vandamál vegna þess að þessi svæði séu "óbyggileg"? 

Engu máli hefði skipt á sínum tíma hvað varðar kirkjugarðana hvort flugvöllur var eða var ekki í Vatnsmýri og á Skildinganesmelum. (30 prósent flugbrautanna eru í Vatnsmýri, 70 prósent sunnan Vatnsmýrar). Kirkjugarðar Reykvíkinga á 20. öld hefðu hvort eð er verið settir niður vestan Elliðaáa.

Þessir tveir kirkjugarðar, Suðurgötugarðurinn og Fossvogsgarðurinn eru verndaðir með grafarhelgi í 75 ár hið minnsta og fráleitt að kenna flugvellinum um tilvist þeirra.

Meðal "óbyggilegu" svæðanna er útivistarsvæðið í Nauthólsvík og stórt svæði umhverfis Perluna sem vel væri hægt að nýta til bygginga. Hins vegar kjósa menn fremur að nýta það öðruvísi.

Það er merkileg hugsun að samgöngumannvirki og útivistarsvæði séu óæskileg vegna þess að þau séu "óbyggileg".  

Þeir sem vilja samgöngumannvirki í burtu til þess að þétta byggð sem allra mest gleyma því að borgir verða til vegna samgangna en ekki öfugt. Borg án samgangna er eins og líkami án æða- og taugakerfis. 

Allar helstu borgir liggja á krossgötum eða vegamótum samgangna á landi, sjó og í lofti.

Fyrir stríð komu menn sjóleiðis úr vestri til Reykjavíkur og fóru landleiðis austur. Leiðirnar mættust í kvosinni.

Nú er þetta breytt. Krossgötunar eru við Elliðaár og þangað leita frjáls verslun, þjónusta og byggð.  

Skoðum aðeins betur töluna 108 hektarar. Þetta eru 1,08 ferkílómetrar. Seltjarnarnes vestan við Elliðaár er um 16 ferkílómetrar. Flugvöllurinn tekur því tæplega 7% af þessu landi. Það eru nú öll ósköpin.

Hægt væri að minnka flugvallarsvæðið niður í 0,8 km2 eða í 5% af flatarmáli Seltjarnarness vestan Elliðaáa.  

Til samanburðar má geta þess að Miklabrautin ein tekur 50 hektara og Sundahöfn enn meira. Þessi tvö samgöngumannvirki taka meira rými en flugvöllurinn og ætti þá ekki alveg eins og byggja íbúðahverfi á þeim og beina umferð á landi og sjó annað?

Nýlega kom fram að götur og bílastæði á þessu svæði tækju sjö sinnum meira pláss en flugvöllurinn.  

Því hefur verið haldið fram að flugvöllurinn hafi valdið því að byggð á Reykjavíkursvæðinu hafi þanist út.

Ég á erfitt með að sjá hvernig svæði sem er 7 prósent af Seltjarnarnesi vestan Elliðaáa hafi skipt sköpum um það að Breiðholt, Árbær og Grafarvogur hafi byggst upp auk bæjarfélaganna sem mynda keðju frá Mofellsbæ til Hafnarfjarðar. Á höfuðborgarsvæðinu austan Elliðaáa búa meira en 100 þúsund manns á svæði sem er 50 sinnum stærra að flatarmáli en flugvallarsvæðið.

Það er merkilegt hvernig einn ferkílómetri undir flugvöll geti kollvarpað öllu á svæði sem er 60 - 70 ferkílómetrar. 

Sömuleiðis hefur því verið varpað upp að tilvist flugvallarins valdi því að umferðarslys  í Reykjavík séu 40 prósent fleiri en ella væri. Mér er hulin ráðgáta hvernig hægt er að finna slíkt út.

Ég tek hins vegar undir gagnrýni Einars Eiríkssonar á það að skýjahæðar- og skyggnisathuganir skuli ekki ennþá vera hafnar á Hólmsheiði. Eftir meira en 40 ára flug um það svæði grunar mig að vísu að veðurskilyrði þar séu mun lakari en á núverandi flugvallarstæði. En það er ekki nóg að gruna eitthvað. Við verðum að fá tölurnar á borðið svo að hægt sé að byggja á réttum upplýsingum.  

Þess má geta að byggingasvæðið sem liggur inn að Hólmsheiði úr vestri er álíka langt frá krossgötum Reykjavíkursvæðisins og Vatnsmýrin. 

Einnig er rétt að hafa í huga að það er styttra að fara úr Vatnsmýrinni í Kringluna til að versla en að fara úr Vatnsmýrinni niður á Laugaveg.  

Að lokum langar mig til að benda á eitt: Ef Löngusker er draumalandið (þarf samþykki fimm sveitarfélaga) verða gerningarnir þrír. 1. Byggður flugvöllur á Lönguskerjum. 2. Reykjavíkurflugvöllur rifinn. 3. Reist íbúðabyggð í staðinn.

Hins vegar fækkar gerningunum úr þremur í einn ef: 1. Reist er íbúðabyggð á Lönguskerjum.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki er vitað til þess að Danir ræði það sín á milli að leggja niður Aðaljárnbrautarstöðina í hjarta Kaupmannahafnar......

En auðvitað tekur helv stöðin mikið pláss og teinarnir skera borgina....

Loki Laufeyjarson (IP-tala skráð) 15.1.2008 kl. 01:17

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Þetta er athyglisvert: að bera saman landið sem fer undir Miklubrautina og flugvöllinn, dálítið skemmtilegur samanburður.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 15.1.2008 kl. 07:51

3 Smámynd: Upprétti Apinn

Ómar, er ekki best að athuga staðreyndirnar áður en farið er að saka aðra um fleipur?  Samkvæmt opinberum tölum er Flugvallasvæðið 150 Hektarar.  Ef þú ert með aðrar upplýsingar þá ættirðu að vísa á þær.

http://www.flugnet.com/frettir.php?subaction=showfull&id=1126274102&archive=&start_from=&ucat=2&

http://www.borg.hi.is/borgaral.pdf

http://www.vatnsmyri.is/efni/c01_vatnsmyri_brief_is.pdf

Eins og þú segir sjálfur "Það er lítið hægt að komast áfram af viti í þessu máli nema réttar tölur séu notaðar."

Upprétti Apinn, 15.1.2008 kl. 09:36

4 identicon

Í skýrslu Stefáns http://www.borg.hi.is/borgaral.pdf þar kemur eftirfarandi fram:

"Svæðið allt er um 140-150 hektarar og þar af er flugvallarsvæðið sjálft um 133ha."

Ég sé því ekki betur en að réttar tölur séu notaðar.

Þetta er þörf grein og ætti að vera birt á sama vettvangi og grein Einars.

Ágúst

Ágúst (IP-tala skráð) 15.1.2008 kl. 10:47

5 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ólíku er saman að jafna, flugvöllur eða kirkjugaðrur.

Umhverfis flugvelli eru svæði, sem eru ,,helgunarsvæði" flugvalla og setja hæð bygginga og þéttleika byggðar skýr takmörk.

Þetta þekkjum við í Rvík og við skoðun deiliskipulags hverfana í kringum Vatnsmýrarvöllinn, eru verulegar takmarkanir á hæð húsa í nágrenni vallarins.

Hinnsvegar má auðvitað byggja giska hátt umhverfis  Kirkjugarða, líkt og gert er víða erlendis.

Svo er það hljóðvistin maður minn.  ÞAð er gaman fyrir okkur áhugamenn um flug, að horfa á flugvél í bröttu afflugi, hangandi á mótor, rétt við slol hraða.  Það er líka fjör að horfa á vélar með stjörnumótora tekna til kostana rétt eftir flugtak en hávaðinn er mikill og flestir íbúar kunna þí afar illa, þannig að hljóðvist setur flugvallarstarfsemi skorður eða ÆTTU að setja henni skorður.  SVo virðist ekki með Vatnsmýrarvöllinn, þar sem menn hjá Flugstoðum svara með skætingi einum, þegar kvartað er yfir flughreyfingum þotna hvenær sem er nætur.

Nei völlurinn fer og best væri að koma honum á Pattersonvöllinn suðurfrá.  Þar er allt flugtæknilegt vitað og ekkert þarf að mæla allar tölur liggja fyrir.

Það er alger óþarfi, að hafa völl við snúrurstaurana hjá íbúum Rvíkur.

Með flugdellukveðjum

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 15.1.2008 kl. 11:01

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Talan 140 hektarar er sú tala sem hefur verið viðurkennd eins og flugvöllurinn hefur verið, það er með þremur brautum. Ég endurtek þá staðreynd að endanlega hefur verið ákveðið að NA-SV-brautin hverfi og samkvæmt nýju skipulagi sem byrjað er að hrinda í framkvæmd er svæðið sem eftir er 108 hektarar.

Ég fór inn á skrifstofu hjá Flugstoðum og skoðaði kort af þessari breytingu og sá á því svæðið sem nú verður gefið eftir þar sem norðausturendi NA-SV brautarinnar var.

Eða halda menn að nýr byggingarreitur, sem losnar fyrir vestan og sunnan Valssvæðið með byggingum, sem hafa verið umdeildar, taki ekkert pláss?

Hvað snertir hávaða af flugumferð hef ég áratugum saman tuðað um það að auðvelt er að minnka hann.

Loksins, allt of seint, var fráflugi á suðurbrautinni beint til vesturs framhjá Kársnesi og sett hæðartakmörk á aðflug yfir nesið.

Þegar ég flýg inn á suðurbrautina reyni ég að koma hátt og fljúga í S-beygju þannig að flugferillinn er yfir vestanverðum Hljómskálagarðinum og kemur ekki nálægt húsum í Þingholtunum.

Að sjálfsögðu er hægt að setja hávaðatakmörk og til dæmis mætti banna flugtök á fullu afli á Cessna 185 sem er ótrúlega hávaðasöm lítil flugvél en þarf ekki á því að halda á löngum brautum að vera keyrð upp í 2850 snúninga á mínútu því að vélaraflið er langt umfram þarfir.  

Ef flugvellinum yrði breytt þannig að austur-vesturbrautin verður aðalbraut vallarins og allur sá hluti vallarins sem er í Vatnsmýrinni fjarlægður myndi aðeins verða flogið inn á norður-suðurbraut í miklum vindi ca 10-20 sinnum sjaldnar en nú er gert.

Aðflug á slíka braut yrði mjög bratt og fráflug vestan við Kársnes.

Með því að fara með innanlandsflugið á nýjan flugvöll við Njarðvíkur, sem kostar peninga, lengist ferðaleið þess sem fer fram og til baka milli Reykjavíkur og Akureyrar um 140 kílómetra alls.

Það eru sérkennilegar framfarir.

Þegar menn taka Osló sem dæmi háttar svo til þar að mest af innanlandsfluginu er í sömu átt og ekið er frá Osló norður á Gardermoen. Heildar ferðaleiðin lengist ekki. 

Hér á landi myndu ALLAR flugleiðir innanlands lengjast við flutning vallar suður á Suðurnes.

Ómar Ragnarsson, 15.1.2008 kl. 11:27

7 Smámynd: Karl Ólafsson

Ég sé fá sem engin rök mæla með flutningi flugvallarins suður í Keflavík.

Ég fæ heldur ekki séð að núverandi (og hvað þá breyttur í þá veru sem Ómar lýsir hér) flugvöllur sé í raun neitt fyrir eða til trafala á nokkurn hátt. Persónulega myndi ég sakna flugvallarins og þætti ímynd borgarinnar skaðast verulega ef í staðinn kæmu húskumbaldar, hvað þá ef þar yrðu aðeins blokkir og stórhýsi (vil gjarnan minna hér á frábæra umfjöllun um skipulag borga hjá Sigmundi D. Gunnlaugssyni í Silfrinu um helgina).

Ég tel að eina ástæða þess að menn séu að ræða af alvöru um að leggja niður flugvöllin sé GRÆÐGI. Ekkert annað! Þó hef ég fulla samúð með þeim sem búa næst flugvellinum og aðflugs og fráflugsleiðum hans vegna hugsanlegrar röskunar á nætursvefni. En ég vil bara benda á að fjárfestar og stjórnmálamenn eru EKKI að hugsa um þeirra hagsmuni í pælingum sínum um að nýta þetta landsvæði á annan hátt en nú er gert. Sjá það ekki allir annars?

Karl Ólafsson, 15.1.2008 kl. 12:38

8 identicon

Á borgarvefsjá er hægt að mæla flatarmáls flugvallasvæðisins og ef maður mælir eftir girðingunum nokkurn veginn, þá fær maður út um 130 hektara.

Sjá nánar:  http://www.borgarvefsja.is/bvs.html

Ef byggt væri jafn þétt og í miðbæ Amsterdam, þá ætti að vera hægt að koma um 100 þús. manna íbúðabyggð á flugvallasvæðinu, en miðað við hugmyndir starfsmanna borgarskipulags ættu 15 - 20 þús. manns að komast fyrir á svæðinu. 

Við erum alltaf að tala um að þétta byggðina, og þá erum við því miður bara að tala um miðbæ Reykjavíkur.  Því nýrri sem hverfin eru, því færri íbúar á hektara.  Þetta er fyrst og frest ástæða þess að borgin er stöðugt að þenjast út. 

Ég vil líka benda á að uppfyllingar eftir strönd Reykjavíkur frá Nauthólsvík inn að Gullinbrú eru að flatarmáli töluvert stærri en Reykjavíkurflugvöllur.  Því ætti ekki að vera hægt að stækka byggjanlegt land enn frekar með uppfyllingum. 

Björn Kristinsson, fyrrum prófessor, hafði þó þá rótækustu hugmynd sem ég hef heyrt. Hugmynd Bjðrns vað að fara að dæmi Hollendinga og reisa stíflu milli Gróttu og Álftaness og þurka upp allan Skerjafjörðinn.  Þá myndi skapast mjög mikið landrými, en kannski er þetta ekki mjög umhverfisvæn hugmynd. 

Kannski væri hægt að setja stíflu frá enda Suðurgötu og yfir á Álftanesið og hafa ofna á henni hraðbraut fyrir Hafnfirðinga og Garðbæinga inn í miðbæ Reykjavíkur og sleppa þá Öskjuhlíðargögnum.   Þurka svo upp svæðið fyrir innan og koma þar upp útivistasvæði t.d. golfvöllum og leggja þá niður aðra golfvelli sem taka gífurlega mikið og verðmætt landsvæði.    Ég reikna samt með að þessi hugmynd yrði ekki vinsæl með margra, en set hana fram hér til gamans.

Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 15.1.2008 kl. 13:27

9 identicon

Ég skil ekki þessa umræðu um að gera frekar bara íbúabyggð á Lönguskerjum fyrst hægt sé að gera flugvöll þar líka. R.vk.flugvöllur sker byggðina í tvennt og það er mun búsældarlegra og huggulegra að mínu mati að hafa samfelldari byggð. Það er ídeal lausn finnst mér að gera völlinn á Lönguskerjum og leggja niður núverandi flugvöll í pörtum, N-S fyrst, svo NA-SV og seinast A-V.

Ari (IP-tala skráð) 15.1.2008 kl. 15:36

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Flugvöllurinn á að fara í Löngusker ef það er flugtæknilega mögulegt. Ein aðal rök þeirra sem vilja flugvöllinn burt, fyrir utan verðmæti landsins sem hann tekur, er hættan t.d. í miðborginni ef flugslys verða. Sú hætta minnkar verulega með flugvöllinn í Lönguskerjum.

Að fara með innanlandsflugið til Keflavíkur er algörlega ótækt og myndi gera útaf við innanlandsflugið. Það vita þeir sem nota flugið en hinir greinilega ekki.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.1.2008 kl. 17:55

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég á eftir að sjá að fimm sveitarfélög komi sér saman um flugvöll á Lönguskerjum. Þar að auki er Skerjafjörður að komast á skrá yfir 14 svæði á landinu sem verði friðuð.

Samanburður við landþröngar og gamlar stórborgir erlendis eru út í hött. Í skýrslu sem stungið var niður í skúffu hjá borgarskipulagi Reykjavíkur fyrir áratug kemur í ljós að Reykjavík er ekkert dreifðari byggð en tíu borgir á Norðurlöndum sem eru af svipaðri stærð og Reykjavík.

Meðal þessara borga eru Álaborg, Árósar, Óðinsvé, Stavangur, Þrándheimur, Oulu og Tampere.

Ég ætlaði á sínum tíma að fjalla um þetta í kvikmynd með því að fara til allra þessara borga á eigin vegum og tókst að  komast til borganna í Danmörku, Noregi og Svíþjóð auk Tromsö, Lulea, Skelleftea og Sundsvall.  

Kaupmannahöfn, Málmey, Gautaborg, Osló, Björgvin, Stokkhólmur og Helsinki eru hins vegar þéttbýlli enda allar miklu stærri borgir og eldri.

Mér tókst að heimsækja allar þessar borgir en síðan gafst ekki tími til að fylgja þessu eftir.  

Með þessu er ég ekki að segja að þétting byggðar sé ekki æskileg heldur hitt að það eru takmörk fyrir því hve mikið er hægt að þvinga fólk til að flytja í þétta byggð.

Sex borgir eru þéttbýlli, Kaupmannahöfn, Osló, , Björgvin og Helsinki, allt miklu stærri og eldri borgir en hinar

Ómar Ragnarsson, 15.1.2008 kl. 20:20

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Biðst afsökunar á að hafa óvart tvítekið upptalningu á stóru og gömlu borgunum.

Skýrslan, sem ég vitna í, var unnin á vegum samtaka norrænna borga og tók fyrir 16 borgir á Norðurlöndum og bar þær saman.

Ómar Ragnarsson, 15.1.2008 kl. 23:44

13 Smámynd: Upprétti Apinn

Reykjavík er líka þéttbýlli en Vaðlaheiði.

Upprétti Apinn, 17.1.2008 kl. 14:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband