VISSI CLINTON UM BJÖRN INGA?

Þessi spurning er að sjálfsögðu sett fram í hálfkæringi en þetta er í annað sinn á nokkrum mánuðum sem við Íslendingar sjáum stjórnmálamenn vikna og vekja með því umræðu og spurningar um það hvað sé viðeigendi. Er hægt að treysta því að stjórnmálamaður sem þarf að standast ágjöf, vera sem klettur í öldurótinu og haggast hvergi muni halda haus á erfiðum tímum ef á hann til að bogna og bresta í grát?

Ég er ekki sálfræðingur en mig minnir að sálfræðingar mæli með því að fólk byrgi ekki um of hið innra með sér djúpar tilfinningar til lengdar heldur leyfi þeim að fá útrás en að sjálfsögðu á hófstilltan og yfirvegaðan hátt. Við það létti það af sér óþægilegu fargi og sé jafnvel betur fært um að taka vel yfirvegaðar og góðar ákvarðanir en ef það eyðir sálarkröftum í innri baráttu og bælingu.

Auðvitað skipir máli hvenær svona gerist og á hvaða stigi baráttunnar. Þess er krafist af stjórnmálamönnum að þeir ráði yfir öflugri sjálfstjórn því ella geti þeir ekki gert kröfu til að stjórna málefnum annarra. Á hinn bóginn er það nauðsynlegt fyrir stjórnmálamenn að þeir komi eins hreinskilnislega fram og unnt er en séu ekki sífellt í einhverjum þykjustuleik.

Hér á kannski við að hóflega felld tár létti á mannsins hjarta svo tekin sé líking af orðtaki um annan vökva sem einnig þarf að umgangast í hófi eða jafnvel að bægja alveg frá vörum sumra.


mbl.is Gáfu tárin Clinton byr?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TRUMAN-DEWEY AFTUR ?

Frægasti ekki-sigur skoðanakannana gæti verið í hættu eftir úrslitin í New Hampshire ef svipað gerist aftur í forsetakosningunum sjálfum. Í forsetakosningunum 1948 var Dewey svo öruggur sigurvegari í skoðanakönnunum við upphaf kjördags að sigur hans var settur í frægar risafyrirsagnir í blöðum sem Harry S. Truman veifaði síðan sigurreifur þegar hin raunverulegu úrslit voru kunn. Þetta ætti að sýna nauðsyn þess að kjósendur láti skoðanakannanir ekki ráða för í kjörklefum, en sú oft orðið raunin. Því miður eru þessi úrslit í New Hampshire undantekning.

Reynslan sýnir að úrslitin í New Hampshire eru gríðarlega mikilvæg vegna þess hve oft þau fara saman við hin endanlegu úrslit. Að því leyti til eru þau skoðanamyndandi og sérstaklega mikilvæg fyrir Hillary Clinton.

Í sumum löndum eru skoðanakannanir bannaðar í ákveðinn tíma fyrir kjördag til að koma í veg fyrir að skoðanamyndanid úrslit þeirra skekki hinn raunverulega vilja kjósenda.

Hræðsluáróður um "ónýt" atkvæði reyndist Íslandshreyfingunni dýrkeyptur í síðustu kosningum og í því efni unnu skoðanakannanir og allt of hár þröskuldur í kosningalögum saman að því að ræna hreyfinguna ekki aðéins tveimur þingmönnum, sem eðlileg kosningalög í svipuðum dúr og í nágrannalöndunum hefðu fært henni, heldur vart minna en þremur þingmönnumm þegar tillit er tekið til þess hve margir hræddust að "ónýta" atkvæði sín með því að krossa við I-listann.


mbl.is Clinton vann í New Hampshire
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÞORGERÐUR KATRÍN, BJARGAÐU AFTUR!

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir bjargaði nýlega Hótel Akureyri. Torfusamtökin björguðu Bernhöftstorfunni á sínum tíma. Um hana var sagt að þetta væru hundakofar, kofaræksni, ónýtt drasl, að hún stæði í vegi fyrir eðlilegri nýsköpun og uppbyggingu miðborgarinnar. Nú stæði þar steypuglerkassi ef torfan hefði ekki verið endurnýjuð og komið í það form að hún er borgarprýði.

Á forsíðu Morgunblaðsins má sjá hvernig húsin neðst við Laugaveg gætu litið út ef farið yrði svipuð leið og farin var við Bernhöftstorfuna. Þegar má sjá bæði á Akureyri og í Reykjavík vel heppnaða endurbyggingu einstakra húsa og húsaþyrpinga sem eru til sóma.

Laugavegurinn á enga hliðstæðu í Reykjavík hvað snertir lengd, hlutverk og sögulega þróun. Þegar gengið er upp götuna er mikilsvert að hægt sé að sjá þróun hans og þá er dýrmætt að hafa upphafið á þeirri gönguferð ljóslifandi í vestustu húsunum með lægstu húsnúmerin.

Víða í Evrópu harma menn að hafa eyðilagt sögulegan sjarma og hlýleika miðborga með því að ryðja öllu gömlu burtu miskunnarlaust og reisa í staðinn kuldalega einsleita steinkumbalda. Prag í Tékklandi gerir út á það í ferðaþjónustu að hafa sloppið svo vel við loftárásir í stríðinu að eftir stríðið var miðborginni ekki umturnað með steinkössum og glerhöllum eins og víða var gert annars staðar.

Þeir sem ekki vilja húsaröð á borð við þá sem sýnd er á forsíðu Morgunblaðsins myndu að sjálfsögðu vilja láta ryðja Bernhöftstorfunni burtu og fá þar stein-glerhöll eins og til stóð að reisa á sínum tíma.

Það eru peningar fólgnir í því að ryðja ekki sögunni og sjarma hennar algerlega í burtu ef menn vilja meta allt í beinhörðum peningum. Þeir peningar eru fólgnir í því að ferðamenn laðast að hlýlegu og aðlaðandi umhverfi sem hægt er að "selja" sem menningarumhverfi með sögu á bak við sig.

Afsökunin fyrir því að gereyða menningarverðmætum í formi gamalla húsa er venjulega sú að búið sé að fara svo illa með þau hvort eð er.

Þessi afsökun er notuð á fleiri sviðum. Nú er það notað sem afsökun fyrir því að ryðjast eftir endilöngum stærsta birkiskógi á Vestfjörðum með trukkaveg að það sé ekki rétt að hann sé að mestu ósnortinn heldur hafi verið beitt í hann fyrr á tíð.

Úr því að menn hafi ekki farið vel með hann fyrrum sé í lagi að fara enn verr með hann nú.

Þorgerður Katrín stóð sig vel í síðasta "húsræksnis"-málinu á Akureyri.

Vonandi stendur hún sig jafn vel nú svo að fáum í framtíðinni að upplifa Laugaveginn sem eftirsóknarverða gönguleið með sögu og sjarma.


mbl.is Ráðherra friði Laugavegshús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. janúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband