14.10.2008 | 22:20
Álkerja tók ég trú...
Álkórinn hækkar nú raustina sem aldrei fyrr og í öllum ályktununum og fréttaflutningnum er aldrei minnst á hvaðan orkan á að koma og hvernig eigi að taka hana. 460 þúsund tonna álver í Straumsvík verður bara byrjunin því að stækkunarkrafa mun líka koma frá Helguvík, samanber nýjustu stækkunarkröfuna á Bakka.
Það þarf ekki mikla samlagningarkúnst til að sjá að þetta muni kosta það að allur Reykjanesskaginn, Neðri-Þjórsá, Norðlingaölduveita, Bjallavirkjun og Langisjór/Skaftárveita verði tekin til virkjunar auk tilkalls til orku í Kerlingarfjöllum og á Torfajökulssvæðinu.
Í græðginni er svo mikil orka kreist út úr jarðvarmavirkjunarsvæðunum að orkan verður uppurin eftir nokkra áratugi og barnabörnum okkar látið eftir að taka afleiðingunum af því.
Engum virðist detta í hug að það geti verið skynsamlegt að geyma eitthvað handa orkuvinnslu fyrir bílaflotann og skipin.
Þetta virðast vera trúarbrögð. Eitt sinn var kveðin stakan: Álvera tók ég trú. / Traust hefur reynst mér sú...o. s. frv.
Nú gæti hún hljóðað svona, lítt breytt:
Álkerja tók ég trú.
Traust hefur reynst mér sú.
Fæ ég í fnyknum að standa
fyrir náð heilags anda. Amen.
![]() |
Vilja viðræður um stækkun Straumsvíkurálvers |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.10.2008 | 13:11
Vinátta-óvinátta. Tryggð-svik.
"Þau voru verri" segir Guðjón Friðriksson um samskipti Ólafs Ragnars Grímsssonar og Davíðs Oddssonar, sem komast í nýtt ljós í forsetabókinni, sem hefur verið afturkölluð. Fyrir þá sem hafa lesið í nýlegum bloggpistli mínum um stjórnmálin og Íslendingasögurnar lýsingu eins af frammámönnum þjóðarinnar 1988 á því hvernig hans pólitík væri, koma þessi orð ekki á óvart.
Sögurnar og stjórnmálin fjölluðu að hans dómi og hafa síðan fjallað um andstæðurnar vinátta-óvinátta, tryggð-ótryggð, fóstbræðralag-svik. Ótrúlega oft hefur verið hægt að sklja atburði, viðhorf og viðbrögð út frá þessu.
Í frægum umræðum á Alþingi sagði Davíð Oddsson að hann myndi aldrei sitja í skjóli Ólafs Ragnars, - aldrei! Erfiðustu stundir hans hljóta þá að hafa verið að hafa þurft að forminu til að þiggja viðurkenningu Ólafs á setu sinni í embætti sem og hrópið góða í þingsetningu: "Heill, forseta vorum..." o. s. frv.
Já, Íslendingasögurnar og vígaferli Sögualdar og Sturlungaaldar eru í fullu gildi í íslenskum stjórnmálum.
![]() |
Forsetabók afturkölluð úr prentsmiðju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.10.2008 | 11:12
Hvað um endurhæfingu æðstu manna?
"Fólk sem telur forréttindi sín mikilvægari en hugsjónirnar tapar hvoru tveggja." Í Fréttablaðinu í dag er minnt á þessi ummæli Dwight D. Eisenhowers, forseta Bandaríkjanna 1953-61. Nú eru stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar að fara í endurskipulagningu í samræmi við breytt ástand. En hvað um æðstu ráðamenn þjóðarinnar?
Fyrir fimm árum var einstakt forréttindafrumvarp í formi eftirlaunalaga alþingismanna og ráðherra keyrt í gegn á Alþingi á nokkrum dögum. Frumvarpið var tekið fram yfir mörg brýn verkefni þingsins. Þverpólitísk samstaða ríkti hjá flokksformönnunum, aldrei þessu vant.
Í öll þau fimm ár sem síðan hafa liðið hafa þessir menn átt kost á því að afnema þessi spillingarlög jafn hratt og þau voru sett, - og setja afnám þeirra í svipaðan forgang og setning þeirra fékk.
En það hafa þeir ekki gert. Þeir hafa talið forréttindi sín mikilvægari en hugsjónirnar. Fólkið í landinu kaus þá líka aftur 2007 og hefur látið nöldrið eitt duga, vanmegnugt gegn stjórnskipan kerfis flokkanna sem hafa lokað sig af í vígi girðingar atkvæðaþröskulds sem tryggir að þeir séu áfram óhultir fyrir fólkinu.
Þjóðin lætur sér þetta lynda og fær því þá ráðamenn sem hún á skilið, ráðamenn sem hafa pakkað hugsjónunum niður í fimm ár til að viðhalda forréttindum sem þeir fengu með sjálftöku.
Á sínum tíma skiptu stjórnmálaflokkar Austur-Þýskalands með sér atkvæðum og völdum og alltaf var Kommúnistaflokkurinn í stjórn, rétt eins og Sjálfstæðisflokkurinn hér. Að lokum fór svo að fólkið fór út á göturnar og tók af þeim forréttindin. Þá var ekkert eftir hjá þessum ráðamönnum því að þeir voru fyrir löngu búnir að tapa hugsjónunum.
Íhugum að hvaða leyti eitthvað af þessu á við í okkar landi og gæti gerst.
![]() |
Starfsemi SPRON endurskipulögð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)