Hvað um endurhæfingu æðstu manna?

"Fólk sem telur forréttindi sín mikilvægari en hugsjónirnar tapar hvoru tveggja." Í Fréttablaðinu í dag er minnt á þessi ummæli Dwight D. Eisenhowers, forseta Bandaríkjanna 1953-61. Nú eru stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar að fara í endurskipulagningu í samræmi við breytt ástand. En hvað um æðstu ráðamenn þjóðarinnar?

Fyrir fimm árum var einstakt forréttindafrumvarp í formi eftirlaunalaga alþingismanna og ráðherra keyrt í gegn á Alþingi á nokkrum dögum. Frumvarpið var tekið fram yfir mörg brýn verkefni þingsins. Þverpólitísk samstaða ríkti hjá flokksformönnunum, aldrei þessu vant.

Í öll þau fimm ár sem síðan hafa liðið hafa þessir menn átt kost á því að afnema þessi spillingarlög jafn hratt og þau voru sett, - og setja afnám þeirra í svipaðan forgang og setning þeirra fékk.

En það hafa þeir ekki gert. Þeir hafa talið forréttindi sín mikilvægari en hugsjónirnar. Fólkið í landinu kaus þá líka aftur 2007 og hefur látið nöldrið eitt duga, vanmegnugt gegn stjórnskipan kerfis flokkanna sem hafa lokað sig af í vígi girðingar atkvæðaþröskulds sem tryggir að þeir séu áfram óhultir fyrir fólkinu.  

Þjóðin lætur sér þetta lynda og fær því þá ráðamenn sem hún á skilið, ráðamenn sem hafa pakkað  hugsjónunum niður í fimm ár til að viðhalda forréttindum sem þeir fengu með sjálftöku. 

Á sínum tíma skiptu stjórnmálaflokkar Austur-Þýskalands með sér atkvæðum og völdum og alltaf var Kommúnistaflokkurinn í stjórn, rétt eins og Sjálfstæðisflokkurinn hér. Að lokum fór svo að fólkið fór út á göturnar og tók af þeim forréttindin. Þá var ekkert eftir hjá þessum ráðamönnum því að þeir voru fyrir löngu búnir að tapa hugsjónunum.

Íhugum að hvaða leyti eitthvað af þessu á við í okkar landi og gæti gerst.  


mbl.is Starfsemi SPRON endurskipulögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þessi lög um lífeyrisréttindi æðstu embættismanna íslensku þjóðarinnar ætti að afnema og moma niður á sextugt dýpi hið snarasta.

Margt er hliðstætt með Kommúnistaflokkum Austur Evrópu og starfsaðferðum þegar Sjálfstæðisflokkurinn er í stjórn með Framsóknarflokknum. Þá er eins og slökkni gjörsamlega á skynseminni.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 14.10.2008 kl. 17:41

2 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Þjóðarsúpan

Íslenska þjóðin fær nú þau skilaboð að gjörvöll þjóðin sitji í súpunni, þjóðarskútan hefur steytt á skeri. Svart sé framundan og það verði að skerða lífskjör almennings. Laun munu lækka í verðbólgu, lífeyrisgreiðslur geta skroppið saman, margvísleg félagsleg þjónusta kannski skert, eftilvill dregið úr framlögum til mennta og menningar ofl. ófýsilegt.

Ef stjórnvöld og stjórnmálamenn ætlast til þess að íslenskur almenningur taki þá alvarlega og samþykki áframhaldandi starf og leiðsögn þeirra þá verða að koma til ýmsar breytingar. Í „súpuskálinni“ verður að ríkja sem mest jafnrétti, annars er ekki hægt að krefjast þjóðarsamstöðu. Það er nauðsynlegt að hreinsa andrúmsloftið og ræða málin í réttu samhengi. Til þess að svo geti orðið verður þjóðin að komast að samkomulagi um mörg mikilvæg mál.

Hér eru nokkur þeirra sem ég tel að skipti máli:

1 - Afnema skal strax eftirlaunafríðindin sem þingmenn samþykktu sér til handa. Það verður engin samstaða meðan að hópar sem til þess hafa aðstöðu skara eld að sinni köku. Þeir stjórnmálamenn sem vilja að almenningur hlusti á þeirra ráð og hugmyndir geta ekki neitað þessari kröfu.

2 - Laun allra háttsettra embættismanna í hinu opinbera kerfi, jafnt hjá ríki og sveitarfélögum, einnig laun þingmanna og ráðherra, verði ekki hærri en kr. 450,000 á mánuði. Allar sporslur og aukagreiðslur afnumdar. Þessi ráðstöfun er í raun afleiðing þess að hið opinbera brást hlutverki sínu. Hún er einnig nauðsynleg til þess að hér skapist samstaða um þær ráðstafanir sem verður að framkvæma.

3 – Kjör ellilífeyrisþega og öryrkja verði ekki skert.

4 - Burt með vaxtaokrið.

5 - Fiskurinn í sjónum verði aftur þjóðareign. Kvótamálið er eitt stærsta jafnréttismál Íslandssögunnar. Þjóðarsátt verður að kveða á um breytingu kerfisins í anda þess jafnréttis (allir í súpunni) sem nú er boðað. Útgerðin er skuldug og það eru hinir nýju ríkisbankar sem hafa þar með eignast hluta skuldanna. Þessi staða verði nýtt til þess að færa þjóðinni réttmæta eign sína til baka í áföngum. Ýmsar aðferðir er hægt að ræða til að svo geti orðið. T.d. sú hugmynd að hver fjárráða Íslendingur fái bréf sem er ávísun á hans hlut í þjóðareigninni eftir að ákvörðun um aflamagn liggur fyrir. Hver og einn ráðstafar síðan sínum hlut skv. þeim boðum sem koma frá útgerðinni. Þannig geta menn í útgerðarbæjum stutt við sitt byggðarlag með því að leigja útgerð í heimabyggð sinn kvóta. Settar verði skýrar reglur um meðferð almenningskvótans til þess að fyrirbyggja brask og misferli.

6 - Framlög til menntunar og menningar verði ekki skert. Menntun og menning eru ólík efnislegum gæðum. Menningararfurinn er sameign þjóðarinnar en efnisleg gæði eru mjög ójöfn. Menntun er grunnur að framtíðinni. Það verður því að leggja áherslu á að þessar undirstöður þjóðlífsins. Þrátt fyrir áföll er þjóðin rík. Víða má spara, en þjóðin má ekki eyðileggja þessar undirstöður.

7 - Efling atvinnulífsins með stuðningi við nýsköpun og sprotafyrirtæki um land allt. Horfið verði frá stóriðjustefnunni sem skapar óeðlilega þenslu og leiðir til stórfelldrar eyðileggingar á náttúru landsins.

8 - Skipuð verður fjölmenn uppgjörsnefnd valinkunnra einstaklinga sem njóta trausts. Margskonar samtök skipi fólk í nefndina, m.a. stjórnmálaflokkar, verkalýðshreyfing, samtök atvinnurekenda, samtök náttúruverndarmanna, mannúðar- og friðarsamtök, samtök listamanna ofl. Nefndin fær það hlutverk að fara ofan í þróun mála, jafnt á sviði stjórnmála og efnahagsmála undanfarinna ára. Málin sem verða skoðuð er einkavæðing ríkisfyrirtækja, sala bankanna og stjórnun þeirra, peningamálastefnan, hlutur Seðlabankans, stóriðjustefnan og afleiðingar hennar. Sérstaklega skal þáttur stjórnmálamanna og flokka í ákvarðanatöku um þessi mál rannsakaður og þjóðhagslegar afleiðingar skilgreindar. Allir forsprakkar þeirra fyrirtækja sem stunduðu s.k. útrás, með þeim afleiðingum sem við stöndum frammi fyrir, verða að gera grein fyrir sínum störfum. Nefndin skal einnig fara ofan í saumana á umdeildum ákvörðunum s.s. stuðningi við innrásina í Írak. Starf nefndarinnar verði unnið fyrir opnum tjöldum og starfi sem n.k. þjóðarvettvangur.

Og lengra er ég ekki kominn.

Hjálmtýr V Heiðdal, 14.10.2008 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband