2.10.2008 | 18:40
Aftur 1939?
1939 fór heimskreppan niður í nýjan botn á Íslandi, einu allra landa, vegna þess að borgarastyrjöldin á Spáni hafði lokað mikilvægum markaði fyrir saltfisk. Þá var Jónas Jónsson frá Hriflu utan stjórnar eins og Davíð nú, en það breytti ekki því að hann var aðalhvatamaðurinn að því bak við tjöldin að mynda svonefnda þjóðstjórn. Þrír þingmenn Sameiningarflokks alþýðu - Sósíalistaflokksins voru reyndar utan stjórnar en hún kallaði sig samt þessu nafni.
Þessi stjórn var mynduð til að fást við margfalt erfiðari vanda en nú er við að glíma því að Íslendingar voru á mörgu leyti vanþróuð þjóð þótt hún væri sæmilega menntuð. Landið var í raun vegalaust og engir flugvellir til, svo að dæmi séu tekin, - fiskiskipaflotinn að ganga úr sér og í raun átti Hambrosbanki í London landið.
Sagt er að Davíð hafi viljað frekar samstarf við VG en Samfylkinguna eftir síðustu kosningar. Með því að kippa VG og hinum flokkunum inn myndi hann að hluta til getað minnkað áhrif Ingibjargar Sólrúnar.
Af hverju orða ég þetta svona? Kannski ég bloggi síðar nánar um það.
![]() |
Seðlabankastjóri viðrar hugmynd um þjóðstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.10.2008 | 18:10
Neyslufyllerí, lifað um efni fram.
Sá og heyrði athyglisverðar umræður í sjónvarpinu hér vestra um ástæður þess hvernig komið er fyrir Bandaríkjamönnum. Bent var á mismunandi gildismat þeirra að undanförnu og ýmissa annarra þjóða. Hér vestra hefur það orðið lenska að fá sem mest lánað til þess að geta lifað sem hæst.
Hér er til dæmis áberandi sama fyrirbærið og heima, sem gerir bandaríska og íslenska bílaumferð einstaka: Stórfelld fjölgun stórra lúxuspallbíla og lúxusjeppa. Þetta hefur verið áberandi á ferð okkar um sömu þjóðvegina í Klettafjallaríkjunum og fyrir fimm árum, - fjölgun lúxuströllanna blasir við.
Nákvæmlega eins og heima var ýtt undir ásókn í lán, - hér vestra með vaxtalækkunum sem varð til þess að lánafyrirgreiðslufyrirtæki spruttu upp og bólgnuðu. Milljónum var lánað þótt greiðslugetan væri léleg eða engin. Miðlararnir versluðu síðan með skuldbindingarnar sem breiddust hratt út um landið og undu upp á sig alla leið til Wall Street og út í hið alþjóðlega fjármálakerfi, því að hver miðlari og milliliður um sig þénaði vel og varðaði ekki um neitt annað.
Heima á Fróni gerðist þetta sama með hundraða milljarða austri í virkjanir, húsnæðislánasprengingu í kjölfar ábyrgðarlausra kosningaloforða og glannalegum fjárfestingu og lánum erlendis, sem - eftir á að hyggja, var auðvelt að sjá að gátu flestar hverjar ekki staðist og engin innistæða var fyrir.
Eins og að afloknu hverju fylleríi, sem ekki er hægt að halda áfram, eru timburmennirnir komnir. Ekki er hægt að halda lánafylleríinu erlendis áfram og það eina sem menn sjá er að halda stóriðjufylleríinu áfram og láta afkomendur okkar blæða fyrir það.
Þetta brenglaða gildismat stingur í stúf við gildismat ýmissa annarra þjóða, sem setja öryggi fjölskyldu og afkomenda til langrar framtíðar efst og safna með sparnaði í stað þess að slá og slá lán án fyrirhyggju.
Einföld skilgreining en því miður sönn, held ég. McCain sagði í sjónvarpsviðtali að sér fyndist ekki sanngjarnt að kennarar og bændur borguðu fyrir bensínið á lúxusþyrlur fjármálajöfranna, sem hafa klúðrað öllu á kostnað almennings. En engu að síður verður svo að vera. Allir eru í sama báti og sjá að björgun Wall Street er í raun björgun Main Street.
Það er vafalaust rétt sem sumir þingmenn hafa sagt að meira máli skipti að greina leiðir út úr vandanum en að greina ástæður vandans, - engan tíma megi missa.
En ætli það sé ekki síður mikilvægt viðfangsefni að greina ástæður vandans og læra af því? Það hefði ég haldið. Annars gerist þetta aftur og áfram.
![]() |
Hlutabréf og króna hríðfalla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.10.2008 | 02:39
Farin að skyggja á þá stóru?
Svei mér þá ef kappræður Söru Palins og Jóe Bidins munu ekki fá meira áhorf og áhuga en kappræður Obama og McCaine. Um fátt er meira talað hér vestra í dag, jafnvel meira en um það sem er mál málanna þessa dagana, frumvarpið til að bjarga fjármálastofnunum á Wallt Street úr ógöngum sínum, sem öldungadeildin var að samþykkja með yfirgnæfandi meirihluta nú rétt í þessu.
Þeir sem standa fyrir samkomunni sem ég verð á annað kvöld, voru í öngum sínum í dag út af óheppilegri tímasetningu sem þeir sögðu að því miður hefði ekki verið hægt að breyta því að þeir hefðu orðið að ákveða hana fyrir meira en hálfu ári. Allir, sem vettlingi gætu valdið, myndu horfa á þessa fyrstu kappræðu varaforsetaefnanna.
Spennan felst ekki hvað síst í óvissunni og því hve þetta geti farið á mismunandi veg: Annars vegar að Palin muni afhjúpa vanhæfni sína á afgerandi hátt og skapa með því eftirminnilegan atburð. Hins vegar að hún muni, líkt og Ronald Reagan, brillera á persónutöfrum og hæfni til að skauta fram hjá skorti á þekkingu og reynslu og heilla kjósendur.
Maður heyrir rifjað upp hvernig Reagan gat með einni setningu á hárréttu augnabliki slegið mótherjann út af laginu, til dæmis þegar Carter hafði í flókinni og langri tölu ítrekað stefnu sína og Reagan sagði einfaldlega "There you go again!"
Það var ekki aðeins þessi eina setning, heldur tímasetningin, aðdragandinn og hvernig hún var sögð. Að ekki sé nú talað um hvað hún virtist koma "spontant". Sá, sem á horfði var neyddur til að hugsa: Djöfull er hann nú klár, segir akkúrat það sem ég var byrjaður að hugsa. Og allt sem Carter hafði sagt var fokið út um gluggann.
Sjónvarp og kappræður eru óvæginn vettvangur þar sem svo margt annað en færni til að gegna valdamesta embætti heims getur ráðið úrslitum um það hvor umsækjandinn um embættið fær stuðning kjósendanna.
Margir hér vestra segja að ekki sé hægt að líkja Palin við Reagan. Hún standi langt að baki honum og vanhæfni hennar sé meiri en svo að bandaríska þjóðin muni taka áhættuna af því að hún verði forseti ef eitthvað hendir ellibelginn McCain.
Og eitt er víst: McCain á mest undir því að Palin snúi þessu áliti við. Því að klikki hún alvarlega muni fólk hugsa: Hvernig gat McCain gert þau mistök að koma þessari konu í þá aðstöðu að geta orðið komist í valdamesta og vandasamasta embætti í heimi? Ekki minnkar þetta spennuna fyrir kappræðurnar annað kvöld.
![]() |
Kappræðna Palin og Bidens beðið með eftirvæntingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)