Neyslufyllerí, lifað um efni fram.

Sá og heyrði athyglisverðar umræður í sjónvarpinu hér vestra um ástæður þess hvernig komið er fyrir Bandaríkjamönnum. Bent var á mismunandi gildismat þeirra að undanförnu og ýmissa annarra þjóða. Hér vestra hefur það orðið lenska að fá sem mest lánað til þess að geta lifað sem hæst.

Hér er til dæmis áberandi sama fyrirbærið og heima, sem gerir bandaríska og íslenska bílaumferð einstaka: Stórfelld fjölgun stórra lúxuspallbíla og lúxusjeppa. Þetta hefur verið áberandi á ferð okkar um sömu þjóðvegina í Klettafjallaríkjunum og fyrir fimm árum, - fjölgun lúxuströllanna blasir við.

Nákvæmlega eins og heima var ýtt undir ásókn í lán, - hér vestra með vaxtalækkunum sem varð til þess að lánafyrirgreiðslufyrirtæki spruttu upp og bólgnuðu. Milljónum var lánað þótt greiðslugetan væri léleg eða engin. Miðlararnir versluðu síðan með skuldbindingarnar sem breiddust hratt út um landið og undu upp á sig alla leið til Wall Street og út í hið alþjóðlega fjármálakerfi, því að hver miðlari og milliliður um sig þénaði vel og varðaði ekki um neitt annað.

Heima á Fróni gerðist þetta sama með hundraða milljarða austri í virkjanir, húsnæðislánasprengingu í kjölfar ábyrgðarlausra kosningaloforða og glannalegum fjárfestingu og lánum erlendis, sem - eftir á að hyggja, var auðvelt að sjá að gátu flestar hverjar ekki staðist og engin innistæða var fyrir.

Eins og að afloknu hverju fylleríi, sem ekki er hægt að halda áfram, eru timburmennirnir komnir. Ekki er hægt að halda lánafylleríinu erlendis áfram og það eina sem menn sjá er að halda stóriðjufylleríinu áfram og láta afkomendur okkar blæða fyrir það. 

Þetta brenglaða gildismat stingur í stúf við gildismat ýmissa annarra þjóða, sem setja öryggi fjölskyldu og afkomenda til langrar framtíðar efst og safna með sparnaði í stað þess að slá og slá lán án fyrirhyggju.

Einföld skilgreining en því miður sönn, held ég. McCain sagði í sjónvarpsviðtali að sér fyndist ekki sanngjarnt að kennarar og bændur borguðu fyrir bensínið á lúxusþyrlur fjármálajöfranna, sem hafa klúðrað öllu á kostnað almennings. En engu að síður verður svo að vera. Allir eru í sama báti og sjá að björgun Wall Street er í raun björgun Main Street.

Það er vafalaust rétt sem sumir þingmenn hafa sagt að meira máli skipti að greina leiðir út úr vandanum en að greina ástæður vandans, - engan tíma megi missa.

En ætli það sé ekki síður mikilvægt viðfangsefni að greina ástæður vandans og læra af því? Það hefði ég haldið. Annars gerist þetta aftur og áfram.  


mbl.is Hlutabréf og króna hríðfalla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Innspýting fjármagns í hagkerfið á íslandi vegna húsnæðislána var 7 sinnum meiri en vegna Kárahnjúka. Svo vilja menn kenna Kárahnjúkum um allt!

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.10.2008 kl. 10:37

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Ameríksa lánakreppan útskýrð á ofur-einfaldan hátt, skref fyrir skref.

http://www.businesspundit.com/sub-prime/

Kárahnúkavirkjun heldur landinu á floti núna.  Íslandi, þ.e.

Ásgrímur Hartmannsson, 3.10.2008 kl. 15:23

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er ekki að kenna Kárahnjúkum um allt. Hinu verður ekki neitað að með væntingunum einum byrjaði þenslan árið 2002 áður framkvæmdir hófust og þenslan var nær öll fengin á þann hátt að fólk sló lán með yfirdráttum á kreditkortum. Þetta var upphafið.

Ómar Ragnarsson, 5.10.2008 kl. 03:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband