20.10.2008 | 13:20
Illskásti kosturinn?
Ef samstarf við IMF er eina leiðin til að opna aðrar leiðir til björgunar eins og Vilhhjálmur Egilsson, sem unnið hefur hjá sjóðnum, telur, er þetta líklega skásti kosturinn í hrikalegri stöðu. Þegar fíklinum er kippt í meðferð kostar það mikið átak. Tjóar þá lítið að streitast við að halda áfram gömlu gjaldþrota "þetta reddast einhvern veginn"-stefnunni.
Vilhjálmur telur að hugsanlegt Rússalán og aðstoð annarra þjóða "smellpassi" við ramma IMF.
Þó er lítið hægt um það að segja um þetta fyrr en lánskjör og skilyrði liggja fyrir. Hitt er ljóst að töf á því að leita þessarar leiðar hefur valdið óhemju tjóni þegar milljarðatugir brenna upp á hverjum degi, en um slíkt þýðir víst ekki að fást að svo stöddu. Aðalatriðið er að lausnin sé viðráðanleg en ekki fólgin í því að binda svo þungar klyfjar á landsmenn að hér verði landflótti.
![]() |
Óska eftir 6 milljörðum dala |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
20.10.2008 | 11:36
Af hverju "áhugi Japana?"
Einhverns staðar sá í gær að undrast var hvers vegna Íslendingar létu sér fátt um finnast að Japanir gætu verið okkur vinveittir og veitt hjálp, ekkert síður en Rússar. Hið sanna er nú að byrja að koma í ljós, - stórfelld vanskil í Japan sem bæta enn einni, - og líkast til ekki síðustu þjóðinni inn á listann yfir þau lönd þar sem bréf, kennd við Ísland, valda usla.
Hver dagurinn sem leið í þögn um þetta var dagur í senn.
Nú er bara að vita hvort brugðið verður samuræjasverði verði brugðið á loft þar austur frá í ætt við beitingu hryðjuverkalaga í Bretlandi.
![]() |
Vanskil af samúræjabréfum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.10.2008 | 09:56
"Skömmin mun uppi um þúsundir ára."
Í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" sem rituð var snemma árs 2004 er fjallað um þann hluta græðgisfíknarinnar og ofbeldis gagnvart komandi kynslóðum sem snýr að virkjanaframkvæmdum og var upphafið á því fjárhagslega fíkniefnapartíi sem nú hefur endað með skelfingu.Ég tek nokkrar setningar á blaðsíðu 17 í kafla sem ber yfirskriftina "Skömmin mun uppi um þúsundir ára":
"Virkjanafíknin er óstöðvandi og auðséð að ekki er hægt að halda svona áfram endalaust. Og hvað tekur þá við? "Það verður viðfangsefni þeirrar kynslóðar sem þá lifir" er eina svar virkjanasinna. "Það lafir meðan ég lifi" sagði Frakkakonungur og hélt áfram á braut sem hlaut að enda með ósköpum. Það kom svo í hlut síðari kynslóða að fást við afleiðingar eigingirni hans. Nú er að hefjast eitt stærsta efnahagslega fíkniefnapartí í sögu þjóðarinnar. Strax í upphafi (áður en framkvæmdir hófust) varð þensla sem Seðlabankinn fann út að stafaði nær eingöngu af auknum viðskiptum á krítarkortum og á vordögum 2004 er eytt fjórfalt meira fé til uppkaupa á fyrirtækjum en til stóriðju. Það verður fjör og allir verða að vera með, - annars eru þeir ekki samkvæmishæfir."...
..."Og öllum líður svo vel í þensluvímunni, það er svo gaman."...
..."En það þykir henta að kalla þá sem andæfa svallveislunni öfgamenn. Og eins og oft vill verða í slíkum samkomum verður allt brotið og bramlað í húsnæðinu..."
Ef mig hefði aðeins grunað vorið 2004 þegar ég skrifaði þessi orð, hve stutt var í þessi endalok og að svallveislan yrði sú langstærsta í sögu þjóðarinnar og hlutfallslega einhver stærsta efnahagslega svallveisla heims með afleiðingum sem blasa við öllu mannkyni aðeins fjórum árum eftir að bókin var skrifuð.
![]() |
Stjórnvöld skilningslaus |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
20.10.2008 | 09:19
Raunveruleg hætta.
Ástæða er til að íhuga ummæli Úlfs Erlingssonar í Silfri Egils í gær þar sem hann spyr, hvort fjölmiðlamaður, sem berst fyrir því að halda starfi sínu í kreppu, eigi ekki takmarkaða möguleika á að velta við ýmsum steinum í þjóðlífinu, þar sem það geti komið sér illa fyrir eigendur fjölmiðilsins.
Afleiðing af slíku verður versta fyrirbærið í fjölmiðlun, óhæfileg sjálfsritskoðun. Það fyrirbæri þekki ég vel af eigin raun, einkum frá árunum 1999-2006, allt frá því að fram fór sérstök rannsókn á vegum útvarpsráðs á fréttaflutningi mínum vegna ásakana um hlutdrægni mína og misnotkun á aðstöðu minni. Meðal annars var því haldið fram að ég einokað fréttaflutning af virkjanaálum á fréttastofunni.
Þótt rannsóknin hreinsaði mig af þessum áburði varð þetta og sífelldur þrýstingur og ásakanir utan frá til þess að smám saman neyddist ég til að stunda æ harðari sjálfsritskoðun til þess að minnka líkurnar á þeim óþægindum sem þetta olli að sjálfsögðu fyrir fjölmiðilinn, sem ég vann fyrir. Dugði ekki til þótt efld fréttastofa á Egilsstöðum tæki smám saman að mestu yfir fréttaflutning af framkvæmdum eystra.
Sjálfsritskoðun mín birtist meðal annars í því að flytja helst ekki frétt af virkjanaframkvæmdum, sem hægt var að túlka sem neikvæða fyrir þær, nema að ég flytti að minnsta kosti aðra jákvæða frétt um svipað leyti.
En að lokum var svo komið að þetta dugði ekki, ekki einu sinni það að flytja tvær jákvæðar fréttir fyrir eina neikvæða. Fréttaflutningur minn af fyrirlestri Louis Crossley var endastöðin á þessu ferli. Hún flutti fyrirlestur um virkjun í Franklin-ánni á Tasmaníu, sem tókst að stöðva, og í viðtali við mig taldi hún Kárahnjúkavirkjun enn verri virkjun því að svæðið myndi nýtast betur á heimsminjaskrá UNESCO.
Ég átti að vísu uppi í erminni mjög jákvæða frétt frá Kárahnjúkum en þorði ekki að "skúbba" með viðtalinu við Crossley, heldur beið, og var svo heppinn að Mogginn birti viðtal við hana. Þar með hélt ég að ekki yrði hægt að ásaka mig fyrir að "grafa upp" umdeilanlegar hliðar virkjunarinnar.
Ég hagaði því svo til að bjóða fréttirnar tvær fram um helgi þegar slíkt var vel þegið og voru þær birtar með dags millibili. En það dugði ekki, fulltrúi Framsóknarflokksins í útvarpsráði kvartaði samt yfir Crossley-viðtalinu.
Þar með var þetta ástand, samvisku minnar vegna, orðið óbærilegt. Ég gat hvorki lagt það á samstarfsfólk mitt og fréttastofu að liggja undir stöðugu áreiti né heldur gat ég varið sjálfsritskoðun mína lengur fyrir sjálfum mér.
![]() |
Áhyggjur af fjölmiðlum hér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)