Fróðlegt að heyra útskýringar...

Fróðlegt verður að heyra útskýringar Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar á því að ganga ekki að tilboði Breta um flýtimeðferð við að koma Icesafe undir breska lögsögu. Þetta átti að kosta sem svaraði 40 milljörðum króna samkvæmt orðum Björgólfs Thors og að baki að liggja fimmfalt veð, það besta sem völ var á.

40 milljarðar eru miklir peningar en smápeningar miðað við það sem nú er verið að togast á um. 


Pattstaðan vegna ESB.

Svo virðist sem andstaðan við stöðu Davíðs Oddssonar sé meiri í Samfylkingunni en hjá Vinstri grænum. Það má einnig sjá það í skoðanakönnun Fréttablaðsins að þrátt fyrir fylgistap eru Sjallarnir og VG með meirihluta atkvæða. 

Staðan er því að því leyti óbreytt frá í kosningunum 2007 að Davíð (sem sagt er að hafi þá viljað samstarf með VG ) hefur það ennþá uppi í erminni að þessi tveir flokkar geta stöðvað áform um að tengjast ESB. 

Með þessu er Samfylkingin læst í faðmlagi Davíðs og Geirs, - hún getur ekki myndað stjórn með VG nema falla frá sívaxandi áherslu sinni á inngöngu í ESB, nú síðast í ályktun ASÍ. 

Meðan svona er málum háttað er varla annað að sjá en að eini möguleiki VG að komast í stjórn sé með Sjálfstæðisflokknum, svo mótsagnakennt sem það kann að sýnast. Ef halda á þeim möguleika opnum er nauðsynlegt fyrir VG að atast ekki of mikið í Davíð. Þeir kunna að þurfa á honum að halda. 

Kannski hef ég rangt fyrir mér en á taflborði stjórnmálanna þar sem menn sækjast eftir því að komast til áhrifa í ríkisstjórn og segja að það hafi aldrei verið brýnna en þegar viðfangsefnin eru mest krefjandi, - á slíku taflborði kann að vera óheppilegt að ryðja burtu mönnum af borðinu sem hafa sterk ítök í sínu liði.

Það verður ekki annað séð en að Davíð hafi Geir og forystu flokksins í vasanum, samanber eindregin ummæli Geirs í Kastljósinu.   


Ókostir fámennisins.

Það eru ýmsir kostir fólgnir í því að vera fámenn þjóð. Það getur oft eflt samkennd og samstöðu. En ókostirnir eru einnig stórir, svo sem öll þau hagsmunatengsl og klíkuskapur sem byggjast á því að flestir þekkja flesta. Ein helsta krafan nú hlýtur að vera að komast til botns í því hvað raunverulega gerðist og hvers vegna. Þá dugar ekki nein innlend "hvítbók" sem verði aðeins hvítþvottarbók.

Það er ástæða til að að halda þessari kröfu stíft fram og leyfa ekki undanbrögð. Mann grunar nefnilega að ætlunin geti verið að gera þetta á jafnónýtan hátt og gert var með stofnun Landsnefndarinnar svonefndu 1771 en í henni var aðeins einn útlendingur.

Ef þessu verður klúðrað verður það afdrifaríkt.  


mbl.is Óheppilegt að þingmenn stýri sjóðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var olía í slökkvifroðunni ?

Eitt stærsta viðfangsefni óvilhallra erlendra sérfræðinga sem óhjákvæmilega verður að fá til að skoða bankahrunið íslenska verður að athuga hvort aðgerðir og yfirlýsingar íslenskra og breskra yfirvalda 6. og 7. október hafi verið misráðnar. 

Neyðarlögin íslensku áttu að vera froða á elda bankakreppunnar en Björgólfur Guðmundsson færir að því rök að tímasetningin hafi verið kolröng og niðurstaðan orðið þveröfug við tilganginn, - þessi fordæmalausu lög hefðu virkað sem olía á eld sem læsti sig um alla íslensku bankana.

Á sama hátt eru breskir kunnáttumenn farnir að tala um að hryðjuverkalaganotkun Breta hafi verið vanhugsuð fljótfærnisaðgerð sem muni ekki ná þeim tilgangi sem að var stefnt heldur þvert á móti.


mbl.is Aðgerðir Breta sköðuðu alla bankana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband