28.10.2008 | 20:35
Gerðum við eitthvað fyrir þá í den ?
Nú kemur í ljós hvar við Íslendingar eigum hauka í horn og vini í raun. En þegar þessir næstu nágrannar okkar og skyldmenni sýna þetta vinarþel reikar hugurinn aftur til þeirra tíma þegar þeir voru í okkar sporum og misstu sem svarar 40 þúsund manns úr landi, miðað við stærð okkar þjóðar.
Ekki rekur mig minni til að við höfum sýnt þeim á þeim tíma slíkan rausnarskap þegar þeir þurftu á slíku að halda en ef þetta er misminni hjá mér væri gott að fá ábendingu um það.
Hvað um það, - Færeyingar eru vinir í raun og hvergi finnst mér jafn gott að koma utan landsteinana og til Færeyja.
![]() |
Siðferðileg skylda að hjálpa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
28.10.2008 | 13:13
Akkerið upp og niður, inn og út.
Í veðurofsa fjármálastrandsins eru aðgerðirnar á strandstað þannig frá degi til dags þannig, að engu er líkara en menn viti ekki sitt rjúkandi ráð. Seðlabankinn var nýfarinn að draga akkerið upp og færði að eigin mati fyrir því gild rök sóknar eftir stöðugleika. Nú lætur hann það falla aftur og talar áfram um gild rök aðgerða til að stuðla að stöðugleika.
Vaxtahækkunin stuðlar að því að Daemoklesarsverð krónubréfanna hangi áfram yfir okkur með gjalddögum, sem nálgast óðfluga eins og sker sem rekið er í áttina að. Skútan hefur ekki strandað á einu skeri, - hún er í skerjagarði og hrekst frá einu skeri á annað.
Veðurspárnar voru hunsaðar, vanrækt að afla sér björgunarbúnaðar eða halda björgunaræfingar. Í stað þess að hægja á siglingunni í átt að skerjagarðinum og beina skútunni í átt frá honum þóttust skipstjórnarmenn ekki sjá að blikurnar sem komu upp á himinninn og bentu á komandi óveður.
Þeir treystu því að óveðurslægðin væri aðeins lægðarbóla. Nú kenna þeir því um að um óheppni hafi verið að ræða, - svona veður skelli ekki á nema með margra áratuga millibili.
Í stað þess að hanna mannvirkin með tilliti til slíkra óveðra var ákveðið að láta reka á reiðanum.
Á íslensku heitir þetta að veðja á rangan hest. Að stunda slík veðmál geta áhættufíklar gert fyrir sjálfa sig en ekki fyrir heilar þjóðir.
![]() |
Vaxtahækkun vegna IMF |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)