8.10.2008 | 13:55
Ætlum við að fá stimpilinn óráðsíuþjóð?
Nú hellast yfir mann fréttir um það að við séum ekki gjaldþrota sem þjóð. Jafnframt segir Geir að þjóðin muni ekki taka á sig skuldbindingar í útlöndum. Og Davíð sagði í gærkvöldi að amma sín hefði sagt sér að þeir sem ekki borguðu skuldir sínar væru óreiðumenn og ætti ekki að borga fyrir þá þegar þeir færu á hausinn.
En það eru líka til ömmur og afar í Bretlandi sem lögðu sparnað sinn inn hjá íslensku fjármálafyrirtæki í góðri trú á það fyrirtæki og þær skuldbindingar íslenska ríkisins, sem að baki lágu. Samkvæmt þessum nýjustu fréttum slengja ráðamenn þjóðarinnar því framan í aðrar þjóðir að þetta fólk eigi að borga fyrir órráðsíu íslenskra fjármálamanna. Slík hegðun mun einungis verða til þess að breskar afar og ömmur og nágrannaþjóðir okkar munu fá óbragð í munninn þegar minnst er á Íslendinga.
Ég á bágt með að trúa því að á fyrstu dögum þjóðargjaldþrots, sem verið er að koma sér hjá, séu ráðamenn þjóðarinnar með kjaftbrúk í stað þess að skammast sín fyrir hönd þjóðarinnar og leita sátta, hjálpar og endurhæfingar, þótt þær sættir kosti þrengingar í bili.
Þegar Þjóðverjar og Japanir töpuðu heimsstyrjöldinni voru stórir hlutar þessara þjóða ekki sekir um glæpina. Þessum þjóðum, einkum Þjóðverjum, datt samt ekki í hug að ætla að koma afleiðingum gjörða ráðamanna sinna yfir á aðrar þjóðir, heldur bitu þær á jaxlinn og unnu sig á 15-20 árum upp úr rústum og örbirgð til bjargálna. Samtaka og einhuga.
Við það endurheimtu þær virðingu sína sem þjóðir. Íslendingar eru örþjóð og við erum öll í sama bátnum. Okkur myndi þykja það hroki ef 2000 manna eyþjóð neitaði að standa við skuldbindingar sínar við okkur og sparifjáreigendur í okkar landi.
Enn einu sinni kemur upp á yfirborðið tilhneiging Íslendinga til að taka peninga fram yfir heiður og æru, sem þó eru miklu meira virði í peningum talið þegar til lengri tíma er litið.
![]() |
Brown hótar aðgerðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
8.10.2008 | 00:18
Skepnan reis gegn skapara sínum.
Munið þið eftir því þegar Davíð Oddsson fór og tók 300 þúsund krónur út úr Búnaðarbankanum vegna þess að honum blöskraði þau ofurkjör sem stjórnendur bankans skömmtuðu sjálfum sér? Langflestum fannst þetta gott hjá Davíð og nokkru síðar sagði hann eitthvað á þá leið í ræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að svona fyrirbæri væri ekki það sem flokkurinn stæði fyrir.
Davíð hafði nógu mikið innsæi til þess að sjá að eitthvað var verulega bogið við kerfið sem hann átti einna mestan þátt í að koma á fót. Síðan dundu yfir hliðstæð fyrirbæri sem gerðu tilefni Davíðs að hreinum smámunum.
Þegar ég var ungur las ég mig í gegnum flest verk Lenins og Marx auk stjórnarskrár Sovétríkjanna og undraðist hvað þetta var frábær kenning á pappírnum. Hún ætti að leiða til þess að allir legðu fram það sem þeir gætu og fengju það sem þeir þyrftu í fullkomnu lýðræði í þágu alþýðunnar en samt blöstu hrikalegir gallar þess ljóslega við.
Það var vegna þess að í þessu öllu var ekki gert ráð fyrir mannlegu eðli og mannlegum breyskleika. Skepnan reis gegn skapara sínum eða réttara sagt, skaparinn varð að skepnu.
Ég trúi því að Davíð Oddsson meini það sem hann segir um góðan vilja sinn og meginatriði í siðrænum efnum. En þegar ég blaða nú í gegnum verk nýfrjálshyggjuprófessaranna á svipaðan hátt og í gegnum verk Marx og Lenins fyrir hálfri öld undrast ég á ný hve þetta er frábær kenning á pappírnum en reynist ekki ganga upp vegna hins sama og kommúnisminn rak sig á: Mannlegt eðli og breyskleiki voru greinilega ekki tekin með í reikninginn.
Brestir kommúnismans kostuðu tugmilljónir manna lífið með óheyrilegri kúgun og brotum á mannréttindum.Það var hreint skipbrot.
Ég held að hægt sé að láta sig vona að strand kapítalismans verði ekki svo illvígt. En bláeygir velviljaðir menn ættu að læra af þessu að gagngerar breytingar verður að gera svo að svona gerist ekki aftur.
Og menn verða alltaf að standa á tánum.
Og það er ekki hægt að aðgreina innlenda og erlenda bresti sem leiddu til ófarnaðar og skella allri skuldinni á útlendinga. Við blasir að bæði í Bandaríkjunum, þar sem upphaf ófarnaðarins var, og á Íslandi voru það sömu brestirnir og sama mannlega eðlið sem leiddi til vandræða.
Chamberlain var kennt um það hve Hitler komst langt vegna þess hve hann og aðrir talsmenn bresk-frönsku friðarkaupastefnunnar voru bláeygir gagnvart illmenninu. Það er ekki hægt að hlaupast með öllu frá því nú að bera sína ábyrgð á því hvernig fór, svo sem því að halda vöxtum svo háum að það lokkaði að kaupendur krónubréfa sem hafa nú kverkatak á þjóðinni.
Ég ætla ekki að kenna Davíð einum um það. Ef hér hefði ekki verið startað neyslu- og skuldsetningarfylleríi árið 2002 hefði verðbólgan orðið minni og þar með ástæðan til vaxtahækkunar.
![]() |
Ríkið borgi ekki skuldir óreiðumanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)