Enginn ber ábyrgð á ummælum, enginn rekinn.

Í næstu bloggfærslu minni á undan þessari greini ég frá viðbrögðum hér í Bandaríkjunum við þeirri ótrúlegu frétt á sjónvarpsstöðvunum hér að Íslendingar hyggðust ekki standa við skuldbindingar gagnvart fólki erlendis, í þessu tilfelli meðal annars gagnvart venjulegu fólki sem lagði sparifé inn á reikninga í eigu Íslendinga í Bretlandi í góðri trú á að þar væri það varðveitt hjá mönnum sem hægt væri að treysta.

Það er vonlaust að útskýra þetta fyrir fólki hér fyrir vestan því að lokaspurningunni um það hvort enginn verði látinn taka ábyrgð á orðum sínum verður maður því miður að svara þannig að það verði varla gert. Boltinn fór raunar af stað með ummælum Davíðs Oddssonar í Kastljósi, sem hægt var að fylgjast með á netinu og fá þýdd umsvifalaust.

Síðan kom yfirlýsing Geirs um að ekki væri um þjóðargjaldþrot að ræða beint í kjölfarið og nú hefur verið upplýst um ummæli Árna Mathiesens. Þrír valdamenn töluðu á sömu lund og gáfu í skyn hvernig Íslendingar ætluðu sér að sleppa við gjaldþrotið og það var þremur of mikið.  


mbl.is Talar ekki um Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegur skaði skeður.

Ég var á ferðalagi um New Jersey í gær en þegar komið var í hús þeirra sem áttu von á mér var mér sagt frá þeirri ótrúlegu frétt sem væri hér vestra á sjónvarpsstöðum að Íslendingar hefðu lýst því yfir að þeir hyggðust ekki borga skuldir sínar erlendis. Loksins komst Ísland í fréttirnar! 

Það þarf talsvert til að örþjóð eins og Íslendinga komist í helstu sjónvarpsfréttir hér en það þótti auðvitað stórmerkileg frétt að þjóð, sem teldi sig í hópi siðmenntaðra þjóða og meðal þeirra ríkustu í heimi gæfi fáheyrðar yfirlýsingar sem jafnvel vanþróuðustu þjóðir gerðu sig ekki sekar um.

Í dag hefur engu máli skipt þótt maður reyni að bera þetta til baka. Það er ekki frétt að þjóð ætli sér að standa í skilum á siðlegan hátt og sú frétt mun aldrei birtast hér. Maður er spurður hvort Íslendingar séu gengnir af göflunum, og þegar reynt er að banda þessu frá sem misskilningi fylgir á eftir spurningin um það hvort það séu þá íslenskir ráðamenn sem séu fífl eða gangsterer nema hvort tveggja sé. 

Spurt er hvort fyrrum forsætisráðherra og núverandi seðlabankastjóri viti ekki að út um allan heim er hægt að fylgjast með ummælum hans í Kastljósi beint á netinu og fá þau þýdd umsvifalaust og hvort fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafi ekki hugmynd um hvað þeir séu að segja. 

Fréttin á erlendum sjónvarpsstöðvum hefur þegar valdið ómældu tjóni á orðstír, ímynd og heiðri íslensku þjóðarinnar. Þótt allir Íslendingar sem staddir eru í Bandríkjunum þytu út á göturnar og hrópuðu að hverjum sem væri að Íslendingar ætluðu sér að haga sér eins og siðmenntað fólk þá væri það gagnslaust, þetta tjón verður seint bætt.

Og ef endilega þarf að setja peningalegan mælikvarða á allt nú sem fyrr, þá getur þetta tjón á "good-will" verið ótrúlega mikið í beinhörðum peningum.  

Lokaspurning útlendinga er, að fyrst þetta hafi verið grundvallað á mistökum íslenskrar ráðamanna, hljóti þetta að verða til þess að þeir verðir látnir taka pokann sinn. Þegar maður verður að viðurkenna að það verði ekki gert, hrista erlendir viðmælendur höfuðið og hafa endanlega sannfærst um það hvers konar þjóð lifi uppi á útskerinu þarna nyrst í Atlantshafinu.  


mbl.is Samtal við Árna réð úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband