Dæmalaust ástand í þjóðfélaginu.

Það er alveg nýtt fyrir alla að upplifa það dæmalausa ástand sem ríkir í þjóðfélaginu í dag. Maður hefði látið segja sér það tvisvar fyrir nokkrum mánuðum að eiga eftir að koma á tvær fjölmennar samkomur sama daginn, fyrst á Austurvelli og síðan í Laugardalshöll og vera þar á ofan á fundi um ástandið á milli fjöldafundanna.

Fundurinn á Austurvelli var til fyrirmyndar, góðar ræður og framkoma fundargesta. Þeir sem kusu aðra aðferð til túlkunar gerðu það á eigin ábyrgð en ekki hins breiða fjölda sem ég giska á að hafi ekki verið færri en átta þúsund. Með mótmælum hins mikla og prúða fjölda er slegið það vopn úr höndum valdhafa að mótmælafólkið sé stjórnlaus og agalaus skríll og að enginn geti komið í staðinn fyrir þá sem nú ráða. 

Ég var á kynningu stjórnmálaflokka í einum af skólum borgarinnar, en fulltrúum stjórnmálaflokkanna var gefinn kostur á einni kennslustund hverjum í félagsmálakennslu skólans. 

Táknrænt var að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins skrópuðu á sinn fund eins og krakkarnir orðuðu það. Ég hef verið á svipuðum fundum í skólunum undanfarið eitt og hálft ár og það var greinilegur munur á viðhorfi nemendanna nú og þá.

Óskipt athygli og áhugi skein út úr andlitum hvers einasta unglings og það segir mér að nú sé að koma til skjalanna kynslóð ungs fólks með aðrar áherslur en fyrri kynslóðir. Þetta unga fólk skynjar það að vandinn sem hin eldri kynslóð hefur komið þjóðinni mun bitna á þeim sem taka við þrotabúinu og að þau muni ekki komast hjá því að taka þátt í endureisnarstarfinu sem framundan er.  


mbl.is „Hlýleg“ stemmning í Höllinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er svona slæmt við mannaskipti?

Vaxandi þungi er í undiröldunni í þjóðfélaginu sem vill aukið lýðræði og umbætur. Það er undarlegt hvernig þeir stjórnmálamenn sem mæra lýðræðið í orði andæfa því að kjósa næsta vor og skipta út þeim sem höfðu rangt fyrir sér og setja þá inn sem höfðu rétt fyrir sér.

Ef núverandi valdhafar telja sig best fallna til að fara með mál þjóðarinnar ættu þeir að fagna þeirri kröfu að þeir fái tækifæri til að umboð þeirra verði endurnýjað. Öll málefni þjóðarinnar eru gerbreytt og núverandi umboð stjórnvalda því úrelt.

Flestir merkustu stjórnmálaforingjar heims hafa orðið að hlíta dómi lýðræðisins. Churchill tapaði í kosningum 1945. De Gaulle gafst upp og fór frá völdum 1946 og aftur 1969. Eisenhower gat ekki haldið áfram 1960 eða Reagan 1988 vegna þess að allir forsetar Bandaríkjanna verða að hlíta því að vera ekki meira en tvö kjörtímabil, sama hve góðir þeir eru. 

Brýn nauðsyn er að innleiða persónubundnar kosningar og hægt að nýta reynslu frá ýmsum löndum þar að lútandi án þess að fara út í einmenningskjördæmi eins og í Bretlandi. Það mætti meira að segja hafa blandið kerfi með 25 einmenningsþingsætum og 25 af landslistum til að jafna atkvæðavægi milli flokka. 

Meðan einmenningskjördæmi voru hér á landi féllu stjórnmálaforingjar. Tryggvi Þórhallsson, sem verið hafði forsætisráðherra 1927-31 féll í kosnningum 1934. Emil Jónsson, þáverandi forsætisráðherra, féll í kosningunum í júní 1959.

Þetta er nauðsynlegt til þess að lýðræðið virki, að valdið nái ekki að spilla mönnum og að þeir taki ábyrgð og hlíti dómi þjóða sinna.

En nei, svona má helst ekki á Íslandi, heldur ekki þegar stjórnvöld og eftirlitsstofnanir í vinnu hjá þjóðinni hafa gert stórfelld mistök æ ofan í æ á sama tíma sem nú kemur í ljós að þeir kunnáttumenn, sem gagnrýndu þetta, höfðu rétt fyrir sér allan tímann.

Af hverju má ekki fela þessum mönnum að taka við? Af hverju mætti þeir Þorvaldur Gylfason og Ragnar Önundarson til dæmis ekki verða ráðherrar?

Því er stundum svarað til að þessir menn vilji ekki fara út í flokkapólitík en auðvitað mætti vel hafa þetta eins og í Bandaríkjunum að færustu menn utan þings taki að sér ráðherraembætti þegar þess reynist þörf.  

Það er ekkert í íslenskum lögum sem bannar ráðherrasetu utanþingsmanna eða ríkisstjórnir með blöndu af ráðherrum innan þings og utan. Nú er tilefni og tækifæri til að stokka kosningafyrirkomulagið upp og raunar óviðunandi að gera það ekki rækilega hið snarasta. 

Sömu menn og létu fyrrum birtu af sér flennimyndir til að fá fólk til að kjósa sig segja nú að það megi ekki persónugera hlutina. Erlendis segja menn að eftir eitthvert stærsta stjórnmálaklúður sem orðið hefur í nokkru landi sé það endanleg sönnun þess að okkur Íslendingum sé ekki við bjargandi að enginn skuli axla ábyrgð eða verið skipt út fyrir menn sem reyndust hafa rétt fyrir sér.  

 

 

 

 


mbl.is Þinghúsið þrifið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband