Dæmalaust ástand í þjóðfélaginu.

Það er alveg nýtt fyrir alla að upplifa það dæmalausa ástand sem ríkir í þjóðfélaginu í dag. Maður hefði látið segja sér það tvisvar fyrir nokkrum mánuðum að eiga eftir að koma á tvær fjölmennar samkomur sama daginn, fyrst á Austurvelli og síðan í Laugardalshöll og vera þar á ofan á fundi um ástandið á milli fjöldafundanna.

Fundurinn á Austurvelli var til fyrirmyndar, góðar ræður og framkoma fundargesta. Þeir sem kusu aðra aðferð til túlkunar gerðu það á eigin ábyrgð en ekki hins breiða fjölda sem ég giska á að hafi ekki verið færri en átta þúsund. Með mótmælum hins mikla og prúða fjölda er slegið það vopn úr höndum valdhafa að mótmælafólkið sé stjórnlaus og agalaus skríll og að enginn geti komið í staðinn fyrir þá sem nú ráða. 

Ég var á kynningu stjórnmálaflokka í einum af skólum borgarinnar, en fulltrúum stjórnmálaflokkanna var gefinn kostur á einni kennslustund hverjum í félagsmálakennslu skólans. 

Táknrænt var að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins skrópuðu á sinn fund eins og krakkarnir orðuðu það. Ég hef verið á svipuðum fundum í skólunum undanfarið eitt og hálft ár og það var greinilegur munur á viðhorfi nemendanna nú og þá.

Óskipt athygli og áhugi skein út úr andlitum hvers einasta unglings og það segir mér að nú sé að koma til skjalanna kynslóð ungs fólks með aðrar áherslur en fyrri kynslóðir. Þetta unga fólk skynjar það að vandinn sem hin eldri kynslóð hefur komið þjóðinni mun bitna á þeim sem taka við þrotabúinu og að þau muni ekki komast hjá því að taka þátt í endureisnarstarfinu sem framundan er.  


mbl.is „Hlýleg“ stemmning í Höllinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ómar það er gott að lesa bjartsýni þína. Unglingarnir taka málum af stóískri ró. Tók unglinginn minn með mér á mótmælin í dag og fann að honum fannst tilkomumikið að hlusta á ræður og vera þátttakandi.

Hann fór síðan á tónleikana þar sem bróðir hans tók þátt í tónlistarflutningi. Það er því nóg að gera hjá ungmennum í dag við að taka þátt í atburðum líðandi stundar.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 15.11.2008 kl. 23:50

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sjálfstæðisflokkurinn hefur trúlega mætt. Hann er bara orðinn svo lítill að hann sést ekki lengur.

Þorsteinn Briem, 15.11.2008 kl. 23:58

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sjálfsagt mál að knúsa sem flesta, því þjóðin var of lítil fyrir bankana.

Það má ekki koma fyrir aftur.

Þorsteinn Briem, 16.11.2008 kl. 00:31

4 Smámynd: Jens Guð

  Kjartan,  ég tek undir það sem þú segir um frammistöðu hippakynslóðarinnar. Þegar ég sem unglingur,  fæddur og uppalinn í Sjálfstæðisflokknum,  upplifði uppreisn hippa gegn ríkjandi valdhöfum,  ríkjandi gamaldags viðhorfum og svo virtist sem nýir tímar umburðarlyndis og frjálsræðis væru að ganga í garð þegar hipparnir tækju við.  Ómar bergmálaði þetta ágætlega í textanum "Frelsi" í samnefndu lagi Mána.  Davíð Oddsson var þátttakandi í þessari stemmningu.  Ég man eftir þeim unga manni er hann kom til leiks:  Fyndinn og óbundinn af ættartengslunum sem höfðu tögl og haldir í Kolkrabbanaum.

  En svo bara varð framvindan einhvern veginn allt öðruvísi.  Þú vitnar í John Lennon.  Á mínum unglingsárum var hann holdgerfinur nýrra tíma.  Tók þátt í mótmælagöngum gegn breska hernum á Írlandi og gegn Vietnamstríðinu í mótmælagöngu í New York.  Boðskapur Lennons er ennþá í fullu gildi:  "Power to the People",  "All you Need is Love" og "Imagine". 

  Steini Briem á alltaf jafn létt með að framkalla bros og hlátur hjá mér.

Jens Guð, 16.11.2008 kl. 01:10

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ómar, þú nánast sniðgengur árásirnar á Alþingishúsið.* Finnst þér það sæmandi eða trúverðugt? – Sjálfur verð ég að segja, eftir að hafa horft upp á þann hroðalega subbuskap og þá grófu smánun við þinghúsið, tákngerving lýðræðis okkar og þingræðis:

Þeir, sem til fundarins buðu, áttu að láta valda menn slá skjaldborg um þinghúsið og tala óeirðarseggi (þart á staðnum) ofan af því að vera þar með æsing eða ögranir. Með slíkri viðleitni varðmanna þessarar kjarnastofnunar lýðveldisins hefðu fundarboðendur sýnt það og sannað, að þeir ættu engan hlut í óhæfuverkum.

Æstustu ræðuhöldurum fer ekki vel að þykjast alsaklausir af æsingi fólks á staðnum, þegar þeir gera lítið til að halda aftur af þeim.

* Sagðir þetta eitt sem snerti þær árásir og framkomu fólks: "Fundurinn á Austurvelli var til fyrirmyndar, góðar ræður og framkoma fundargesta. Þeir sem kusu aðra aðferð til túlkunar gerðu það á eigin ábyrgð ..." – Og hér undrast ég aftur og spyr: Fannst þér, Ómar, öfgafull ræða hins róttæka sósíalista eða anarkista Viðars Þorsteinssonar "góð"?

Jón Valur Jensson, 16.11.2008 kl. 03:01

6 identicon

Jón Valur það sjá allir í gegnum ykkar aðferðarfræði í dag.

Hroki Hægrimanna er dauður eins og allt ykkar innantóma blaður.

Mannastu.

Þröstur Jón. (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 04:17

7 Smámynd: Sævar Helgason

Athugasemd # 7

Þetta er alveg ótrúlegt að lesa þennan pistil.

Sjálfur var ég meðal þessara 8-10 þúsund friðsamra borgara  á Austurvelli. Við lok mótmælafundar kl 15.45 gekk ég frá hjá Alþingishúsinu að vestanverðu og allt í friði og spekt. Frábær samkoma í kuldanepju- hraust fólk sem þarna mætti til að mótmæla ríkjandi spillingu og óstjórn sem leitt hefur þjóðina í efnahagsþrot og skuldaklafa... Við viljum spillingarlið burt , hvar í flokki sem það stendur-Seðlabankastjórnina- fjármálaeftrilitið burt og að kosið verði í vor

Í RÚV kl. 16.00 eru aðalfréttirnar þær að róstur krakka séu í gangi við Alþingi- eggjakast og tómatar... sannalega óvænt að heyra. Vonandi voru þau ekki send á vettvang af spillingaröflunum ... hvað veit maður - ???

Sem betur fer styttist í ákvarðanatöku varðandi ESB og myntbandalagið- það er jákvætt.

Sævar Helgason, 16.11.2008 kl. 11:07

8 Smámynd: Sigurveig Eysteins

 Ótrúleg svör sem eru hér, sumir vilja sitja heima frekar en að mótmæla,(gamli góði Íslendingurinn) og bíða eftir svörum,   já, já, sitjið bara heima og bíðið eftir svörum, þið eru kannski að bíða eftir að Geir og Davíð komi heim í kaffi og færa ykkur blóm í leiðinni um leið og þeir útskýra hvað þeir eru að gera. Og svo sjá menn ekki tilganginn í að faðma og knúsa vinni og fjölskyldu, en hefur það hvarflað að fólki að sá sem fær faðmlagið gæti þurft á því að halda.

Sigurveig Eysteins, 16.11.2008 kl. 11:58

9 Smámynd: Sigurveig Eysteins

 Gleymdi. það eru líka sumir hér sem vilja að haldið sé aftur af þessum terorristaskríl sem er að skemma allt, hvað vil hann að sé gert, að við berjum þá, já það mun laga svo rosalega mikið, menn sem tala svona eru útdauðar tegundir 

Sigurveig Eysteins, 16.11.2008 kl. 12:07

10 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ég fylgdist vel með öllum fundinum og eggjakastinu sem byrjaði eftir að fundurinn var búinn og 99% fundargesta farinn. Ca. hundrað manns, f.o.f ungt fólk kastaði klósettpappír og eggjum og kveikti á reykblysi. Lögreglan stóð og horfði á þar til að mönnum fór að leiðast og hættu. Ég tel að lögreglan hafi staðið sig frábærlega, þeir stukku ekki einu sinni til þegar eldurinn gaus upp. Ég held að þessi læti muni fjara út , bæði vegna þess að þetta er lítill hópur og löggan tekur á málunum af fullri skynsemi. Jón Valur er með ágæta hugmynd að passa þinghúsið með vegg fundarmanna. Allar ræðurnar voru góðar. Fundurinn var stórgóður og Hörður Torfason er toppmaður.

Hjálmtýr V Heiðdal, 16.11.2008 kl. 12:20

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jamm, Jón Valur er náttúrlega risaeðla,  Tyrannosaurus pex, en hann er sprelllifandi ennþá og því sjálfsagt að faðma hann og stækka þjóðina með honum, svo hún verði ekki of lítil fyrir bankana.

Og Jón Valur ætti að flengja þennan unglingaskríl opinberlega á Austurvelli, svo undan svíði!

Þorsteinn Briem, 16.11.2008 kl. 12:58

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Umfjöllun Hjálmtýs Heiðdal um þetta efni er mjög virðingarverð, og ekki var það tilgangur innleggs míns að þræta á neinn hátt fyrir það, að útifundurinn í gær var fyrst og fremst mikill samstöðufundur fólks sem mótmælir og sýnir í einlægni þungar áhyggjur sínar og réttmæta hneykslan yfir því, hvernig farið hefur í stjórn mála hér á landi, af hálfu  auðjöfra, ráðherra, Seðlabanka og Fjármálaeftirlits.

Tilgangur innleggs míns var ekki að skella skömminni af árásinni á þinghúsið á alla fundarmenn – ég veit vel, að þarna er um fámennan hóp ungs fólks að ræða, ekki sízt róttækra sósíalista og jafnvel anarkista. "Ca. hundrað manns," eins og Hjálmtýr segir, gæti mjög trúlega farið nærri réttri tölu þeirra sem ofstopann sýndu. En þeim mun fremur ætti að vera auðvelt að koma böndum á þennan hóp (ég á ekki við handjárn!), og það ætti að vera hinum breiða fjölda fundarmanna sjálfra kappsmál, að þeir sjálfir sjái líka um og axli þá ábyrgð að halda þessum öfgahópi frá þinghúsinu, því að lögreglan heldur greinilega að sér höndum og telur að það gæti einungis orðið til að espa upp þessa róttæklinga til jafnvel verri óhæfuverka, ef hún færi að stugga fólkinu frá, jafnvel með kylfum eða táragasi; og dreg ég ekki það mat lögreglu í efa.

En ég horfði á beina útsendingu Stöðvar 2 frá atburðunum og sá þar þann viðbjóð sem um var að ræða, eggjum grýtt í Alþingi, fyrst stöku eggjum, en svo skæðadrífu, og í kringum innganginn var mikill sóðaskapur og klósettrúllur útdregnar lágu þar og héngu utan á húsinu og kveikt í einni þeirra.

Þess vegna fer ég alls ekki ofan af orðum mínum í aths. 7 og get ekki annað en vorkennt þeim, sem áttu næstu tvær athugasemdir hér á síðunni vegna órökstuddra upphrópana þeirra og málefnaleysis.

Þar að auki voru það mikil mistök af hálfu skipuleggjenda fundarins (hverjir eru þeir aðrir en Hörður Torfason?) að bjóða hinum byltingarsinnaða Viðari Þorsteinssyni að vera þar ræðumaður (eða þiggja hans boð um ávarp þar). Maðurinn sá virðir ekki lýðræðislegar stofnanir lýðveldisins, og þrátt fyrir vígorð hans um lýðræði lenti hann í sjálfsmótsögn þegar hann fór að tala um einstaka útfærslu þess að menn bjóða sig aftur fram til þings eftir að hafa afplánað refsidóm. Endurkjör Á.J. sem þingmanns í Suðurkjördæmi var ekki dæmi um frekju Valhallarvaldsins, heldur um hans eigin metnað og kraft og um afar víðtækan stuðning við hann bæði í prófkjöri og þingkosningum. Hafi kjör hans verið mistök eða slys, sýnir það einfaldlega, að jafnvel lýðræði í verki er ekki frekar en mörg mannanna fyrirbæri fullkomið né óskeikult.

Jón Valur Jensson, 16.11.2008 kl. 13:11

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Saklaus er ég af því að hafa mótað þá stefnu, Búkolla mín (vona að þú hafir baulað hátt á Austurvelli). Hins vegar er sitthvað gott í sjálfstæðisstefnunni, sem heldur áfram að hafa áhrif til góðs og kemur banka- og fjármálafylliríi og ábyrgðarleysi stjórnvalda ekkert við. En nú óttast ég mest, að flokkurinn taki þeim hamskiptum í janúar nk. að breytast í Ósjálfstæðisflokkinn. Þú nærð því vonandi, Búkolla, hvað ég á við.

Jón Valur Jensson, 16.11.2008 kl. 15:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband