Hin óbætanlega töf.

Strax hinn 8. október síðastliðinn þegar því hafði verið sjónvarpað um alla heimsbyggðina að Íslendingar "ætluðu ekki borga" og þar á ofan enn betur ljóst af síðar birtu símtali Allstair Darling og Árna Mathiesen að við ætluðum að mismuna innistæðueigendum eftir þjóðernum varð mér ljóst þar sem ég var staddur á erlendri grund að ímynd Íslands hafði beðið stórkostlegt tjón sem yrði að vera forgangsverkefni að bæta úr sem allra hraðast.

Síðan þá hef ég stanslaust reynt að benda hinn vonlausa málstað okkar sem var fyrirlitinn hjá öllum þjóðum vestan hafs og austan.

Í stað þess að fara þá strax og helst fyrr á fullt í að koma þessari deilu fyrir kattarnef stöndum við loksins nú, meira en fimm vikum síðar í þeirri stöðu sem íslenskir ráðamenn í afneitun sinni og veruleikaflótta þráuðust við að viðurkenna en blasir skýrt við.

Þessi töf, ofan á aðrar tafir og mistök allt frá því í vor, hefur kostað okkur óheyrilega fjármuni, álitshnekki og missi viðskiptavildar um allan heim.

Einnig tafið fyrir því tröllaukna verkefni að afstýra eða minnka að það mikla tjón sem gjaldeyrisskortur og gjaldþrot fyrirtækja veldur.    


mbl.is Gátum ekkert annað gert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margir í súpunni.

Það var athyglisvert að hlusta á lýsingar verðlaunablaðakonunnar Sigríðar Daggar og Péturs Gunnarssonar á stjórnmálaástandinu á Íslandi. Í meitluðu máli gaf Sigríður Dögg okkur innsýn í spillingarkerfi þáverandi stjórnarflokka sem skiptu bönkunum á milli skjólstæðinga sinna eins og herfangi.

Pétur Gunnarsson rakti síðan hvernig forystumenn Sjálfstæðisflokksins sitja í súpunni, Geir formaður af augljósum ástæðum, Þorgerður Katrín vegna tengslanna við Kaupþing sem ekki hafa enn verið hreinsuð fyllilega, Illugi Gunnarsson vegna sinnar aðkomu að fjármálavandræðum og Guðlaugur Þór vegna REI-málsins.

Það var helst að Pétur fyndi ekki veikan blett á Bjarna Benediktssyni og virðist þá hafa gleymt eða horft framhjá þætti hans gagnvart skilanefnd og N1.

Ekki er ástandið betra í Framsókn. Valgerður með einkabankavæðingarspillinguna sem Sigríður Dögg lýsti svo vel, og Siv Friðleifsdóttir með einhverja afdrifaríkustu og óverjanlegustu ákvörðun okkar samtíma varðandi Kárahnjúkavirkjun.

Samfylkingin, að undanskildum tveimur þingmönnum, greiddi þeirr virkjun atkvæði og kóaði þannig með því sem var upphaf stærstu efnahagslega fíkniefnapartís Íslandssögunnar sem nú hefur endað í stjórnartíð þess sama flokks og á ábyrgð hans með afleiðingunum sem fara jafnvel fram úr því sem nokkurn gat órað fyrir.

Formenn VG og Frjálslyndra eru tilbúnir að taka við ávöxtunum af hinu siðlausa eftirlaunafrumvarpi, fimm árum eftir að það var lögfest með hraði. Ef þeir halda að það muni ekki um nokkra keppi í sláturtíðinni þá gleyma þeir því tapi á trausti kjósenda sem felst í því að segja eitt en gera annað þegar það hentar kjörum þeirra persónulega.

Þess vegna hefur það hættulega ástand skapast sem maður upplífir á Austurvelli og meðal almennings að afnema beri alla stjórnmálaflokka á einu bretti.

Það er hættulegt fyrir stjórnmálin og þjóðarhag að afneita nauðsyn þess að kjósendur skipi sér í fylkingar í samræmi við mismunandi skoðanir til þess að fá síðan umboð í kosningum til að vera í forsvari fyrir málefnum þjóðarinnar. En svona hafa stjórnmálamenn útatað stjórnmálin í óþverra og eitt helsta verkefni samtímans er að hreinsa þennan óþverra úr stjórnmálunum sem hefur komið óorði á starfsemi sem er nauðsynleg fyrir lýðræðið.

Eftir stendur að einn stjórnmálaflokkur, Íslandshreyfingin, stendur utan þings ásamt öðrum grasrótarhreyfingum og hópum sem skynja gerbreytta tíma og nauðsyn fyrir umbætur og endurreisn á öllum sviðum þjóðlífsins.


mbl.is Siv ekki á leið í formannsslag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drep og aflimun?

Fáar þjóðir, ef nokkrar, eru háðari eðlilegum milliríkjaviðskiptum en við Íslendingar. Straumur gjaldeyris og þarmeð fjármagns er það sama og blóðstraumur fyrir líkama. Þegar blóðstraumurinn minnkar eða stöðvast endar slíkt ástand ef það fær að magnast með því að drep kemur í viðkomandi hluta líkamans og taka þarf af limi.

Fótur, sem drep er komið í, er sama og dauður, verður aldrei lífgaður aftur við. Heldur ekki líkami sem blóðstraumurinn hefur stöðvast í.

Ég sé á blogginu að menn efast um að Vilhjálmur Egilsson viti hvað hann sé að segja af því að hann hafi ekki fylgst með ástandi fjármálastofnananna né varað við því.

Ég spyr á móti: Er vitað um einhvern annan mann sem veit betur um ástandið hjá atvinnufyrirtækjunum en Vilhjálm Egilsson, manninn sem hefur af því starfa að fylgjast með því sem best fyrir hönd samtaka sinna?

Afneitun á því sem Vilhjálmur er að segja líkist afneitun áfengissjúklingsins sem dregur umsögn sérfróðs læknis í hjartasjúkdómum um ástand hjarta- og æðakerfis hans, í efa af því að þessi læknir hafi ekki úttalað sig um ástand beina og sina.

Það hefur þegar liðið allt of langur tími, mánuðir og jafnvel ár, sem ekki hefur verið hlustað á aðvörunarraddir þeirra sem nú hefur komið í ljós að höfðu alltaf rétt fyrir sér.

Því lengur sem veruleikafirringin heldur áfram, því svakalegri verða afleiðingarnar.


mbl.is Ávísun á risagjaldþrot ef lán fæst ekki frá IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband