22.11.2008 | 21:33
Samfylkingin fórnar sér fyrir þjóðina!
Hversu oft hefur það ekki verið krafa að stjórnmálamenn, sem mistekst, víki og aðrir, sem höfðu rétt fyrir sér, taki við? Og viðbrögðin hafa oftast verið hin sömu: Þráast hefur verið við að víkja. Þetta er skiljanlegt en oft mjög bagalegt þegar menn geta ekki hugsað sér að missa völd, áhrif og stöðu.
En nú bregður svo við að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir snýr þessu alveg við. Hún telur að það myndi henta Samfylkingunni afar vel ef hún féllist á kosningar í vor og afsalaði völdum sínum í hendur kjósenda en hins vegar ætli flokkurinn að fara þá leið sem hentar honum verr, sem sé að hanga áfram við völd vegna þess að hagsmunir flokksins víki fyrir hagsmunum þjóðarinnar.
Samfylkingin ætlar sem sé að fórna sér fyrir þjóðina með því að hanga á völdunum! Ég er áreiðanlega ekki sá eini sem segi við Ingibjörgu: "Kanntu annan!"
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
22.11.2008 | 13:53
Áfallastjórnunin að byrja. Hjálpin ókomin.
Ingibjörg Sólrún einblínir á þann þátt áfallastjórnunar sem snýr að föllnum bönkum. Orðaval hennar er lýsandi,- í hennar huga er verið að stjórna áföllunum en ekki að veita áfallahjálp. Um hver mánaðamót í vetur munu þúsundir verða atvinnulausar og hundruð fyrirtækja komast í þrot.
Ef við notum orðið áfallastjórnun er hún rétt að byrja, en lítið fer fyrir raunhæfri áfallahjálp, sem gæti falist í mörgum aðgerðum sem ekki eru uppi á borðinu hjá áfallastjórnendunum.
Á Íslandi var kreppa á fjórða áratugnum og þá sáu stjórnvöld að ekki dugði að lengja í hengingarólunum og láta höfuðstóla skulda vaða upp og eignabreytingar fyrirtækja skekkjast svo að þau færu í þrot af því einu saman.
Ráðamenn reyndu að hjálpa nauðstöddum með svonefndnum kreppulánasjóði. Gunnar Tómasson hagfræðingur hefur lagt til svipaðar aðgerðir nú.
Í kreppunni var genginu haldið föstu alveg fram til 1939. Það var vond aðgerð í sjálfu sér og skóp kerfi hafta og tollmúra, en nú gæti jafnvel verra verið á næstu grösum ef krónan verður látin fljóta, - afsakið, - sökkva, þannig að fyrirtækin fara á hausinn bara út af því.
Nú þarf áfallahjálp, ekki áfallastjórnun.
![]() |
Áfallastjórnuninni lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.11.2008 | 05:16
Eldarnir og þeir sem tróðust fyrst undir.
Fyrir nokkru líkti ég Íslandi við lítið hús í húsaröð milli sambyggðra skýjakljúfa. Í öllum væri starfsemi með miklum eldsmat og brunavörnum áfátt en ástandið hvergi verra en í íslenska húsinu. Þegar eldur kæmi síðan upp í ameríska skýjakljúfnumn og breiddist út í hin húsin, fuðraði minnsta húsið fyrst upp í miklum sprengingum.
Og eins og í eldsvoða træðust þeir fyrst undir á flóttanum út úr húsunum, sem minnstir væru.
Það logar enn eldur í breska skýjakljúfnum og glæringarnar hafa fokið yfir öll húsin í hverfinu og kveikt í þeim. Hvergi hefur eldurinn verið slökktur þótt slökkvistarf sé á fullu. Þess vegna veit enginn hver endalokin verða í þessum eldi í Kaupinhafn fjármálaheimsins.
![]() |
Bretland sömu leið og Ísland? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)