24.11.2008 | 19:16
Vantraust þarf ekki að kalla á kosningar strax.
Ég er þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin njóti ekki nægs traust meðal þjóðarinnar og að það séu ýmsir möguleikar á að skipta út ráðherrum og mynda stjórn með blöndu þingmönnum og fagaðilum sem hafa haft rétt fyrir sér undanfarin ár. Síðan ætti að kjósa næsta vor þegar komist hefði verið í gegnum brýnustu verkefnin sem brenna á þjóðinni nú.
Þótt vantraust sé samþykkt á ríkisstjórn þarf það ekki að kalla á kosningar umsvifalaust. Kannski hefði stjórnarandstaðan aðeins átt að leggja fram tillögu um vantraust en ekki um þingrof nú strax um áramót. Tillaga um þingrof hefði getað beðið fram yfir áramót eða þá að krafist hefði verið þingrofs eigi síðar en í marslok.
Sem dæmi um eina af frægustu vantrausttillögu sögunnar má nefna að í maí 1940 þegar Bretar stóðu á kafi í miðri heimsstyrjöld var borin fram vantrausttillaga á ríkisstjórn Chamberlains. Hún var felld með 282 atkvæðum gegn 200 en 33 þingmenn sem áður höfðu stutt stjórnina, greiddu tillögunni atkvæði.
Það nægði til þess að Chambarlain gerði sér grein fyrir því að það fjaraði undan trausti á honum, enda hafði stefna hans beðið skipbrot.
Winston Churchill, sem var í ríkisstjórn Chamberlains, en hafði í fimm ár andæft gegn stefnu hans í utanríkismálum, var falin stjórnarforysta í þjóðstjórn.
Svona afgreiddu Bretar málið á þann besta hátt sem mögulegur var í stöðunni.
![]() |
Kristinn andvígur vantrausti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.11.2008 | 16:12
Hinir ósnertanlegu.
Kostulegt er að heyra umræðurnar á Alþingi sem fram fer á þeim nótum að eingöngu sé um það að ræða að skipta um þingmenn í ráðherrastólum. Ekki virðist nokkrum detta það í hug að kallaðir verði þeir til ráðherradóms, sem hafa haft rétt fyrir sér allan tímann um ranga efnahagsstefnu.
Þessir menn eru margir hverjir utan flokka og utan þings en ekkert mælir gegn því, hvorki að lögum né í praxis, að þeir verði fengnir til verka, til dæmis í ríkissstjórn sem væri skipuð bæði stjórnmálamönnum og sérfræðingum. Í Bandaríkjunum hika menn ekki við slíkt og heldur ekki við það að kalla til menn frá stjórnarandstöðu.
Sigmundur Ernir Rúnarsson sagði á borgarafundi að ráðamenn kæmust upp með hvað sem væri vegna þess að kjósendur létu þá komast upp með það. Þetta er rangt hvað snertir meirihluta þingmanna, sem ég vil kalla "hina ósnertanlegu", eru efstir á listum stóru flokkanna og þurfa aldrei að hafa áhyggjur af því persónulega hvað kjósendurnir gera í kjörklefanum. Í 79 ár hafa til dæmis efstu menn á lista Sjálfstæðisflokksins ekki þurft að hafa áhyggjur af stöðu sinni.
Það þarf að afnema þetta ólýðræðislega fyrirkomulag og það er auðvelt að gera það með einfaldri breytingu á kosningalögum, sem hægt er að samþykkja fyrir næstu kosningar og láta það taka gildi þá. Breytingarnar gætu falist í tvennu og byggt á reynslu margra þjóða.
1.
Persónukjör gildi algerlega í kjörklefanum. Flokkarnir geti að vísu sýnt á kjörseðlinum sína röðun, en aðeins
krossar eða töluleg röðun kjósendanna sjálfra ráði um röðun á lista.
2.
Afnám 5% þröskuldsins í atkvæðafylgi eða lækkun hans niður í 2-3%. Sem dæmi um það hve þetta er
ólýðræðislegt má nefna að þótt allir 7 þúsund fundarmenn á Austurvelli kysu nýtt framboð, sem þeir stæðu að, fengju þeir ekki þá 2-3 þingmenn sem væru í samræmi við fylgi slíks framboðs.
kjörinn þingmann, ekki þá 2-3 þingmenn sem þeir hefðu fylgi til.
![]() |
Önnum kafin við björgunarstörf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
24.11.2008 | 14:06
Þjóðaratkvæði um málið.
Hjá íslenkum stjórnmálamönnum ríkir einkennileg hræðsla við þjóðaratkvæðagreiðslur um helstu mál. Tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun í tengslum við alþingiskosningar var felld 2003 á þeim forsendum að málið væri "of stórt" og myndi skyggja á smærri mál í kosningunum!
Þeir sem guma mest af lýðræðisást sinni hafa reynst andvígastir besta birtingarformi þess, beinni atkvæðagreiðslu. Hvað er svona voðalegt við það að greiða þjóðaratkvæði um það hvort við eigum að sækja um aðild að ESB? Jú, kannski það í huga andstæðinga viðræðna að þrátt fyrir minnkandi stuðning við aðildarumsókn eru samt 60% kjósenda fylgjandi viðræðum.
Eftir ítarlegar rökræður er ekkert víst um afdrif málsins í þjóðaratkvæðagreiðslu og ef svarið yrði jákvætt, yrði hvort eð er að greiða þjóðaratkvæði um útkomuna. Um slíka útkomu veit enginn með vissu nú þótt margir vitni í orð embættismanna í Brussel um að Ísland fái enga "sérmeðferð".
Þessir embættismenn eru varkárir, því að þeir hafa ekki pólitískt umboð til að ganga lengra í ummælum sínum.
Þeir hafa áreiðanlega sagt það sama áður en Malta og fleiri ríki gengu til samninga og fengu þrátt fyrir svona ummæli embættismannanna "sérmeðferð" í málum sem gáfu þeim algera sérstöðu meðal ESB-ríkjanna.
Sem dæmi um eina slíka sérstöðu Íslands má nefna hugmyndir um útblástursskatt á flugumferð. Í því máli hefur Ísland algera sérstöðu vegna þess að það er eina landið í Evrópu sem á ekki aðra raunhæfa möguleika á skjótum samgöngum en flugið.
Sjávarútvegurinn hefur líka sérstöðu, ekki hvað síst vegna þess að meginstofn veiða okkar er úr fiskistofnun þar sem við höfum einir verið við veiðar í 30 ár og því ekki erlend hefð fyrir veiðum líkt og á fiskimiðunum við strendur Evrópu.
Um landbúnaðinn gætu gilt reglur ESB um "sérmeðferð" jaðarbyggða og stuðning við þær. En enginn veit það fyrr en eftir viðræður hvort þar fengist framgengt samningsmarkmiðum okkar á viðunandi hátt fyrir okkur.
Eins og nú háttar til komast Íslendingar ekki að samningaborði um sérstöðumál eins og flugið og höfum við þó tekið upp Evrópurétt í einu og öllu í íslenskum flugmálum án þess að hafa getað haft nokkur áhrif á það innan ESB.
Vel þarf að sjá fyrir því að auðlindir Íslands verði í höndum þjóðarinnar en hættan á því að við misssum þær er mjög mikil, hvort sem við erum innan eða utan ESB. Ef öll orka landsins verður látin ganga til stóriðju mun það eyðileggja mestu verðmætin, einstæða náttúru, og einnig er hætta á að erlend stórfyrirtæki, jafnvel aðeins eitt þeirra á borð við Rio Tinto eignist allar auðlindirnar beint eða óbent.
![]() |
Minnkandi áhugi á ESB-aðild |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.11.2008 | 01:53
Breyttar aðstæður breyta hugmyndum.
Í allri dýrkuninni á bruðli og óhófi, sem tröllreið íslensku samfélagi á þeim tíma sem fjármálaráðherrann mælti hin fleygu orð á þingi: "Drengir, sjáið þið ekki veisluna?" var búið að bannfæra allar hugmyndir um það að ofurlaunaliðið tæki þátt í sameiginlegum rekstri ríkisins í samræmi við ofurgetu sína.
Árum saman blasti þessi hugsunarháttur við í tímaritum landsmanna með greinum um það sem einstaklingar voru að gera í lífsgæða- og peningakapphlaupinu: "Sjáið lúxusbílana og sumarhúsin!" með litríkum frásögnum sem birtust lýðnum til eftirbreytni í dýrlegri og æskilegri eftirsókn eftir glysi og glaumi.
Sú var tíð að Þorvaldur Guðmundsson í Síld og fiski var árum saman hæsti skattgreiðandi í Reykjavík þótt margir þættust vita að aðrir ættu að skila meira en hann til samfélagsins en notuðu klæki til að koma sér undan því.
Þorvaldur sagðist vera stoltur af því að geta látið gott leiða af velgengni sinni, sem byggðist frá upphafi á þrotlausri vinnu og elju þessa einstæða manns. Vonandi verða einhverjir nú til að endurmeta stöðu þeirra sem geta lagt til samfélagsins en flýja ekki með auð sinn til skattaparadísa erlendis.
Eitt sinn bað fjölmiðill mig og konu mína um að segja frá brúðkaupi okkar hjóna. Þá hafði þessi fjömiðill verið með hvern þáttinn af öðrum þar sem lýst var í smáatriðum dýrum brúðkaupsgjöfum, brúðkaupsferðum og miklum glæsileik brúðkaupanna.
Ekkert varð af frásögn okkar því að við höfðum engu slíku til að dreifa. Við giftum okkur í kyrrþei ein með presti okkar, séra Emil Björnssyni og skorti því allan glæsileik lista yfir dýrar brúðkaupsgjafir og mikilfenglegt brúðkaup og brúðkaupsferð. Slíkt "seldi ekki" í fjölmiðlunum þá.
Við erum nú samt búin að vera gift í bráðum 47 ár og eignast sjö börn og tuttugu barnabörn. Stundum sýnist mér að ending hjónabanda fari ekki eftir því hve mörgum milljónum króna var eytt í herlegheitin.
![]() |
Darling sagður íhuga hátekjuskatt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)