29.11.2008 | 22:52
Hrakningar og strönd í skerjagarði krónunnar.
Eftir að LÍU hefur nú gefist upp á fjótandi eða sökkvandi krónu virðist forsætisráðherra loksins vera að sjá að áframhaldandi hrakningar á sökkvandi krónu getur ekki verið framtíðarsýn Íslendinga. Hefði mátt viðurkenna það fyrr.
Hörmingarsaga krónunnar hefur verið stanslaus síðan hún var losuð úr samfloti við dönsku krónuna árið 1922.
Þótt hún væri stækkuð hundraðfalt árið 1981 stefnir danska krónan í að verða þrjátíu sinnum verðmeiri en sú íslenska en það þýðir í raun að íslenska krónan hefur fallið 3000-falt (100x30) á 86 árum miðað við þá dönsku.
Í framhaldi af því að losa íslensku krónuna frá þeirri dönsku kom gengishækkun sem hafði svipuð áhrif og of há staða krónunnar 2004-2008, með mikilli framkvæmdagleði sem byggðist þá að hluta til á óraunhæfri skráningu.
Þegar kreppan skall á með tilheyrandi gjaldeyrishöftum 1931 varð krónan að einu helsta vandamáli íslenskrar hagstjórnar næstu 77 ár.
Þjóðstjórnin neyddist til að fella hana 1939 og hún var síðan aftur felld 1950 og búið til aldeilis fáránlegt kerfi margfaldrar skráningar með svonefndum bátagjaldeyri og sífellt flóknara kerfi hafta og spillingar sem viðreisnarstjórninni tókst að afnema án þess að höftin og mismununin hyrfu alveg.
Viðreisnarstjórnin felldi krónuna um 13% árið 1961 og aftur tvívegis árið 1967. Þá söng ég undir lagi úr söngleiknum Mary Poppins: "Fella gengið hrika ganta gríðar yndislega!"
Svonefnt "Bronkó-æði" 1966 sem stóð í meira en áratug stafaði af því að hér var haldið uppi kerfi mismununar í tollum og aðflutningsgjöldum á bílum.
Raunar hefur það kerfi aldrei verið afnumið samanber stórfelld fríðindi varðandi pallbíla sem hinir allsráðandi verktakar hafa viðhaldið.
Loksins hillir þó vonandi undir það að í stað hrakninga og stranda í skerjagarði krónunnar verði loks tekin ákveðin stefna í stað þess að láta reka á reiðanum.
![]() |
Allt opið í gjaldeyrismálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
29.11.2008 | 16:05
Firring.
Geir H. Haarde var fjármálaráðherra og síðan forsætisráðherra allar götur frá 1999. Hann jók á í samvinnu við Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson það gerspillta kerfi sjálfltökustjórnmála, sem birtist á ótal vegu, ekki síst í sölu bankanna.
Hann gerði að vísu einn góðan hlut, lét ríkissjóð borga erlendar skuldir sínar. En hann spilaði með í því að þenja ríkisbáknið meira og hærra en þekkst hefur í sögunni, studdi upphaf þenslunnar með stóriðjuæðinu, húsnæðismálasprengingunni og síðar brjálæðislegri skuldasöfnun þjóðarbúsins erlendis í takt við ranga skráningu krónunnar sem bauð þjóðinni til veislu.
Hann var í stuttu máli einn af þremur aðalarktitektum kerfis kolrangrar og ábyrgðarlausrar efnahagsstefnu sem gat ekki endað nema með hruni.
Því er það hámark firringarinnar þegar Geir telur sig ekki bera neina persónulega ábyrgð. Og ver höfuðarkitektinn Davíð Oddsson með kjafti og klóm.
![]() |
Geir: Tel mig ekki persónulega ábyrgan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
29.11.2008 | 15:50
Skaðlegur ósveigjanleiki.
Fundahöldin í haust eiga engin fordæmi hvað snertir þrautseigju fundarmanna enda tilefnið einstakt. En ráðamenn þjóðarinnar spila sennilega heima hjá sér plötuna með Halla og Ladda og synga: "Látum sem ekkert C".
Aðeins tvisvar á lýðveldistímanum hafa ráðherrar orðið að segja af sér og þá af miklu minna tilefni en nú.
Raunar held ég að nær engir muni eftir tilefninu í síðara skiptið.
Kann að vera að ráðamenn nú kalli líti á óbilgirni sína sem staðfestu en í ljósi tilefnisins til vantrausts á þeim getur þetta ekki flokkast undir neitt annað en skaðlegan ósveigjanleika. Kröfurnar á fundunum hafa verið margar en svo er að sjá sem ekki eigi að verða við einni einustu.
Þúsundum fólks er sagt upp störfum en þeir sem ábyrgð bera sitja sem fastast. Hver sú persóna sem nú hefur misst vinnuna getur tekið það áfall á þann hátt að það sé verið að "persónugera" gagnvart henni. En þegar rætt er um að ráðamenn víki má víst alls ekki "persónugera."
Ef mótmælafundirnir og andófið minnkar eru send röng skilaboð til ráðamanna og þeim leyft að styrkjast í þeirri trú að þeir komist upp með hvað sem er og geti sloppið með því að þumbast nógu lengi við.
Þetta er hættuleg afstaða og þegar kemur fram á útmánuði á ástandið vafalaust eftir að verða enn verra en það er nú. Þúsundir fólks, sem hefur misst allt sitt, finnst að það hafi engu að tapa og er því tilbúnara í aðgerðir en ella.
Minna má á orð Ingjalds í Hergilsey, þegar hann ákvað að berjast og fórna lífi sínu fyrir Gísla Súrsson gegn ofurefli höfðingjanna. Á þeim tíma var staða manna metin eftir fatnaði. Ingjaldur var fátækur eyjabóndi, stóð á Vaðsteinabergi í slitnum og lélegum fötum og sagði: "Ek hefi vond klæði og hryggir mig eigi þótt eg slíti þeim eigi gerr." Hann hafði engu að tapa og orð hans lifa.
Reynslan sýnir að slíkir eru oft tilbúnir í rótttækar aðgerðir en aðrir. Ef upp úr síður bera þeir sem þverskallast við kalli tímans mikla ábyrgð og var varla á hana bætandi.
![]() |
Kaupmenn þrauka fram yfir jól |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.11.2008 | 01:40
Slæmar fréttir fyrir fréttirnar.
Það er hægt að taka undir það með Óðni Jónssyni að á þeim tímum þegar aldrei hefur verið þörf á öflugri frétta- og blaðamennsku skuli niðurskurður í fjölmiðlum bitna mest einmitt á þeirri starfsemi sem helst er undirstaða lýðræðis og réttlætis.
Undanfarin ár hefur komið vel í ljós hvernig græðgisæðið blindaði jafnt fjölmiðla sem aðra. Enginn fréttamiðill eða fjölmiðlamaður þóttist maður með mönnum nema að einblína á glæsifréttir og æsifréttir úr viðskiptalífinu, sem stundum tóku alla athyglina í heilu fréttatímunum.
Ég hef áður í bloggpistlum lýst því hvernig þetta fréttamat valtaði yfir mikilvægari málefni.
Einmitt núna, þegar menn eru að átta sig á því sem fór úrskeiðis og vilja gera betur, kemur kreppan, sem meðal annars stafaði af ónógri upplýsingagjöf, og kæfir þetta í fæðingu. Já, nú má segja það sem sagt var fyrir einni og hálfri öld að "Íslands óhamingju verður allt að vopni."
![]() |
Kemur á versta tíma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)