15.12.2008 | 23:18
Góðar fréttir.
Það fór ekki fram hjá mér þegar ég heimsótti Seacology-umhverfissamtökin og Yellowstone þjóðgarðinn í haust að umhverfisverndarfólk batt miklar vonir við Barack Obama og vonaði að hann kæmist til valda og gerði það sem hann ætlar nú að gera.
Fólk hafði ekki hátt um þetta. Ýmist var það á milli vonar og ótta um það hvort þetta tækist eða það mátti stöðu sinnar vegna ekki láta þetta uppi opinberlega.
Í tíð Bush voru helstu ráðgjafar og ráðamenn í umhverfismálum komnir beint frá olíufélögunum, sem studdu þennan líkast til versta forseta í sögu landsins.
Ef Obama tekst að gera Bandaríkin að forysturíki í þessum efnum verður það mikill álitsauki og sigur fyrir Bandaríkin og bandarískt lýðræði, sem margir voru farnir að óttast að væri að spillast af peningahyggju og takmarkaðri þekkingu og áhuga á stjórnmálum og heimsmálum.
Það er ekki alltaf gefið að aburðamenn séu spámenn í eigin föðurlandi, en það virðist Obama ætla að verða, fatist honum ekki flugið.
![]() |
Ný forysta í loftslagsmálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.12.2008 | 22:58
Tíðahvörf.
Ég sé í frétt um bílveltu á mbl.is í kvöld að bíll hafi oltið undir Ólafsvíkurenni og sé einnig að ekki er sagt eins og í gær, - "bílvelta varð." Kannski hefur einhver á Mogganum séð ábendingu mína.
Ég var að vona að blogg-prófarkalestri mínum út af bílveltufréttum mbl. væri lokið en því miður er algeng þrálát villa í fyrstu setningu veltufréttarinnar í kvöld.
Þar segir. "Lögreglan..FÉKK tilkynningu um að bíll HAFI oltið..."
Hér eru hin algengu "tíðahvörf" meinleg því að í setningunni er fyrst þátíð en síðan nú(liðin)tíð.
Rétt ætti þetta að hljóða svona: "Lögreglan...FÉKK tilkynningu um að bíll HEFÐI oltið..."
Það er með vilja að ég byrja þetta blogg mitt á setningunni "Ég SÉ...að bíll HAFI oltið," en ekki "Ég SÉ að bíll HEFÐI oltið"sem er hliðstæð villunni í fréttinni.
Minn gamli fréttastjóri Emil Björnsson tók okkur öll strax upp á eyrunum ef með þurfti og þrumaði: "Haldið þið áfram í setningunni í þeirri tíð sem hún byrjar!"
Sáraeinfalt en virðist vefjast svo ótrúlega oft fyrir blaða- og fréttamönnum. Vona að þessi ábending skili sér til blaðamanna Moggans.
![]() |
Bílvelta undir Ólafsvíkurenni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.12.2008 | 20:43
Starfsumhverfi fjölmiðlamanna.
Sjaldan hefur birst magnaðri lýsing á starfsumhverfi fjölmiðlamanna en í símtalinu milli ritstjórans og blaðamannsins, sem birt var í Kastljósinu í kvöld. Flestir sjóaðir fjölmiðlamenn kannast við svipað frá ferli sínum þótt í mismiklum mæli sé.
Í sumum tilfellum kann að vera rétt að fjölmiðlamenn hafi af mannúðarástæðum aðgát í nærveru sálar og taki tillit til slíks í fréttaflutningi. Viðhafa ekki að óþörfum særandi eða meiðandi fréttaflutning.
Það sem hins vegar gerir þetta tiltekna mál sérlega athyglisvert er lýsing ritstjórans á því umhverfi "lífs eða dauða" sem fjölmiðlar og fjölmiðlamenn verða að lifa við. Í þessu tilfelli ekki aðeins hver blaðamaður og ritstjórinn líka, heldur blaðið sjálft, vinnustaður, sem hægt er að "skrúfa fyrir" umsvifalaust,i ef marka má orð ritstjórans, gott ef er ekki með einu símtali.
Af orðum ritsjórans í samtalinu má ráða að hann vilji frekar að stórfrétt, almennilegt "risaskúbb" verði "dauða"sök blaðsins heldur en lítil frétt.
En ég fæ ekki betur séð en að ritstjórinn hafi lagt til "risaskúbb" í samtalinu í kvöld og einn af þeim kostum sem hann virðist nú eiga í þeirri stöðu sem komin er upp sýnist vera að leggja öll spilin á borðið, upplýsa um önnur svipuð atvik, sem áður hafi gerst og falla með sæmd svo notað sé orðalag í stíl við það sem heyrðist í samtalinu.
Fullkomlega óháðir fjölmiðlar verða því miður aldrei til í mannheimum ófullkomleikans þótt hugsanlega sé hægt að komast nálægt því og reyna það eftir fremsta megni. Aðferðirnar við að hafa áhrif á umfjöllun og hræða fjölmiðlamenn geta verið margvíslegar og sjálfur hef ég reynslu af slíku.
P.S.
Nú heyri ég í tíufréttum Sjónvarpsins að Reynir upplýsir að þrýstingurinn, sem hann talar um, hafi ekki komið frá eigendum blaðsins. Það minnir mig á að þrýstingurinn sem ég varð fyrir á sínum tíma vegna starfa minna við Sjónvarpið kom ekki innan frá heldur utan frá. Mér var eindregið "ráðlagt" að söðla um því að annars yrði ég "búinn að vera" og stórskaðaði í ofanálag fréttastofuna, vinnufélagana og stofnunina.
![]() |
Upptaka af útskýringum ritstjóra DV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.12.2008 | 19:35
Við erum að tala um...með þessum hætti.
Eitthvert algengasta tískuorðalagið um þessar mundir er "við erum að tala um." Sumir virðast ekki geta talað nema stutta stund án þess að þræla þessum orðum inn í tal sitt sí og æ í stað þess að segja beint frá því sem um er að ræða í miklu styttra máli.
Dæmi: Í stað þess að segja einfaldlega: "Það kólnar á morgun" er sagt: "Við erum að tala um að það verði kaldara á morgun." Í stað þess að segja: "Margir munu missa vinnuna" er sagt: "Við erum að tala um aukið atvinnuleysi."
Annað er áberandi, en það er að orðin "svona" og "hvernig" eru að hverfa úr málinu og í staðinn segja menn að þetta eða hitt sé að gert með þessum eða hinum hættinum.
Kannski er stutt í það að í stað þess að syngja um jólin: "Svona gerum við..." verði sungið: "með þessum hætti gerum við".
Í stað þess að segja: "Ég ég veit ekki hvernig á að gera þetta" er sagt: "Ég veit ekki með hvaða hætti á að gera þetta.
Þetta hvimleiða ofnotaða orðalag er óþörf málalenging, - þrjú orð í staðinn fyrir eitt." Sama er að segja um "við erum að tala um..." sýkina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.12.2008 | 12:46
Íslensk pressa á álfurstana.
Á sama tíma sem fréttir komast á kreik um óvissu vegna stækkunar álversins í Straumsvík innan núverandi lóðamarka, eykst íslensk pressa á það að keyra stóriðjuframkvæmdir áfram sem aldrei fyrr.
Áhugamenn um risaálver í Straumsvík láta sér ekki nægja 30% framleiðsluaukningu núverandi álvers, heldur hafa nú keyrt það í gegn að aftur verði kosið um meira en tvöfalda stækkun álversins, sem ásamt álveri í Helguvík, tryggir að þegar upp verður staðið verði engu jarðhitasvæði á Reykjanesskaga hlíft né heldur Neðri-Þjórsá.
Þessi áform munu hafa það í för með sér að vegna ofnýtingar jarðhitasvæðanna þurfi síðar að slátra Kerlingafjöllum og Torfajökulssvæðinu. Eða þá að hugsanlegar friðlýsingar stækkaðs svæðis í Þjórsárverum og við Langasjó og Lakagíga verði aftukallaðar eftir þörfum.
Tveir fyrrverandi ráðherrar orku- og umhverfismála lýstu því yfir á sínum tíma að friðlýsingum ætti að aflétta í samræmi við þarfir stóriðjunnar
Hugsjón þessara manna er að píska álfurstana áfram, væntanlega á sömu nótum og 1995 þegar þeim var boðið lægsta orkuverð heims án þess að þeir þyrftu að hafa áhyggjur af mati á umhverfisáhrifum.
Undanfarið hafa heyrst raddir um að kreppan muni sjálfkrafa draga úr vægi umhverfismála. Það sem er að gerast í herbúðum stóriðju- og virkjanasinna hér á landi sýnir að varðstöðu í þessum málum hefur aldrei verið meiri þörf en nú.
![]() |
Frétt um álver ekki allskostar rétt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)