Tíðahvörf.

Ég sé í frétt um bílveltu á mbl.is í kvöld að bíll hafi oltið undir Ólafsvíkurenni og sé einnig að ekki er sagt eins og í gær, - "bílvelta varð." Kannski hefur einhver á Mogganum séð ábendingu mína.

Ég var að vona að blogg-prófarkalestri mínum út af bílveltufréttum mbl. væri lokið en því miður er algeng þrálát villa í fyrstu setningu veltufréttarinnar í kvöld.

Þar segir. "Lögreglan..FÉKK tilkynningu um að bíll HAFI oltið..."

Hér eru hin algengu "tíðahvörf" meinleg því að í setningunni er fyrst þátíð en síðan nú(liðin)tíð. 

Rétt ætti þetta að hljóða svona: "Lögreglan...FÉKK tilkynningu um að bíll HEFÐI oltið..." 

Það er með vilja að ég byrja þetta blogg mitt á setningunni "Ég SÉ...að bíll HAFI oltið," en ekki "Ég SÉ að bíll HEFÐI oltið"sem er hliðstæð villunni í fréttinni. 

Minn gamli fréttastjóri Emil Björnsson tók okkur öll strax upp á eyrunum ef með þurfti og þrumaði: "Haldið þið áfram í setningunni í þeirri tíð sem hún byrjar!"

Sáraeinfalt en virðist vefjast svo ótrúlega oft fyrir blaða- og fréttamönnum. Vona að þessi ábending skili sér til blaðamanna Moggans. 


mbl.is Bílvelta undir Ólafsvíkurenni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hinki

En ertu samt ekki ánægður með að ökumaður og farþegi sluppu án teljandi meiðsla? Ég hafði meiri áhuga á því en hvort að fréttamaðurinn hafi verið með málfræðivillur í frétt sinni.

Hinki, 15.12.2008 kl. 23:12

2 Smámynd: Sævar Helgason

Já hann er undarlegur tíðarandinn í blaðamennskunni í dag - DV ritstjórinn aðal tíðindinn

Sævar Helgason, 15.12.2008 kl. 23:16

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Að sjálfsögðu var ég ánægður með það hve vel fór en hefði þó varla séð ástæðu til að að fara að blogga sérstaklega um það ef það hefði bara ekki verið svo skemmtileg tilviljun að tvær bílveltufréttir með málvillum skyldu vera tvo daga í röð í blaðinu.

Og það var auðveldara að ljúka málvillumálinu, sem hófst í gær, úr því að enginn meiddist.  

Ómar Ragnarsson, 15.12.2008 kl. 23:26

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Lovísa hún er lesblind,
og lausráðin stúlkukind,
þá Moggapjásu,
með menópásu,
snemmbúna tel ég synd.

Þorsteinn Briem, 16.12.2008 kl. 01:23

5 Smámynd: doddý

mikið er ég sammála þér ómar. af skrifum og tali sumra fréttamanna í dag má ráða að þeirra skólaganga hafi ekki verið upp á marga fiska.  kv d

doddý, 16.12.2008 kl. 02:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband