Lútum valdinu en stöndum á réttinum.

Í málatilbúnaði í deilum okkar við Breta höfum við orðið að lúta fyrir alþjóðlegu valdi á sama hátt og Íslendingar þurftu fyrr á öldum að lúta fyrir valdi Dana. Þá urðu fleyg orð Íslendingsins gagnvart dönskum valdsmanni: "Ég beygi mig fyrir valdinu en stend á réttinum."

Þetta var stefna Jóns Sigurðssonar sem háði sína baráttu á grundvelli laga og forns réttar og höfðaði til réttlætiskenndar góðra Dana.

Fyrir bragðið var sjálstæðisbarátta Íslendinga einstæð að því leyti til að hún kostaði ekkert mannslíf.

Jafnvel þótt við kunnum að tapa málarekstri við Breta eigum við að fylgja fordæmi Jóns Sigurðssonar og vinna sleitulaust að því að endurheimta virðingu okkar og heiður og ná fram sanngjörnum málalyktum, hvað sem lagabókstaf eða lyktum málaferla líður.


mbl.is Mál verði höfðað gegn Bretum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórða valdið getur líka spillt.

Vald spillir. Þessi tveggja orða sannindi eru einhver þau dýrkeyptustu í mannkynssögunni. Ekki þarf annað en að nefna nöfn eins og Kaligúla, Napóleon, Hitler, Stalín og Maó sem dæmi. Þessi tvö orð, vald spillir, eru að baki því að enginn Bandaríkjaforseti fái að sitja í meira en átta ár, sama hvaða afburðamaður hann er.

Peningum fylgir vald sem vandfarið er með og við höfum dómsvald, framkvæmdavald og löggjafarvald sem eiga að vera í jafnvægi en eru það ekki lengur því framkvæmdavaldið seilist æ lengra inn á svið löggjafans.

Stundum er talað um fjórða valdið, fjölmiðlana. Auðvitað getur slíkt vald spillt líka þeim sem með það fara eða skapað freistingar sem erfitt er að standast. Orð ritstjóra í samtali við blaðamann þess efnið að það sé stefna blaðsins að taka ákveðinn mann"djöful" niður og pönkast á honum út í það óendanlega" gefa ekki góðan vitnisburð um ritstjórnarstefnu.

Allir fjölmiðlamenn eiga taka hlutverk sitt alvarlega en stundum er eins og það gleymist að um fjórða valdið gildir hið sama og hin þrjú að vandmeðfarið er með vald og að á sviði fjórða valdsins liggja líka lúmskar freistingar.

Sumir sjá fjölmiðlavaldið í svipuðum hillingum og trúaðir menn sáu hið trúarlega vald á sínum tíma, - þetta væri svo heilagt vald og köllunin svo stór að ekkert misjafnt gæti þrifist undir verndarvæng þess.

En það vald spillti líka eins og galdarbrennur og önnur glæpaverk framin í nafni trúarinnar sýna glögglega.


mbl.is Björgólfur: Fjarstæða en kemur ekki á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Óstaðfest."

Ofangreint orð er lykillinn að þöggun og þrýstingi á fjölmiðla og fjölmiðlamenn. Þeir sem þrýstingnum beita vita vel að það er aðall blaðamennsku að fá "staðfestingu" á mikilvægum atriðum. Þess vegna berast hótanir til fjölmiðlamanna í "trúnaðarsamtölum".

Þessu kynntist ég mjög vel á árunum 1998 til 2005. Sumt af þrýstingnum kom fram opinberlega eins og kröfur hins fjölmenna fundar á Egilsstöðum 1999 um að ég yrði rekinn úr starfi vegna hlutdrægni og meintrar misnotkunar á aðstöðu minni.

Eftir að sérstök rannsókn á vegum Útvarpsráðs hafði sýknað mig af þessum ásökunum fylgdi Halldór Ásgrímsson þeim þó fast eftir með því að taka mig á beinið að viðstöddum kvikmyndatökumanni Sjónvarpsins þannig að það var ekki einkasamtal.

Ítrekaðar blaðagreinar með ásökunum í minn garð og bókun í Útvarpsráði voru uppi á borðinu og því "staðfestar."

Alvarlegustu hótanirnar bárust þó í ýmsum trúnaðarsamtölum við mig og einu samtali við konu mína. Samtalið við konu mína átti sér stað áður en fundurinn fyrrnefndi var haldinn á Egilsstöðum og herferðin fór af stað.

Í þessu samtali voru hennir settir tveir kostir: Að stöðva umfjöllun mína um virkjanamál eða að við hefðum annars verra af. 

Þegar hún hafnaði því að gangast í því að ég hætti að fjalla um þau mál, sem ég hafði kynnt mér betur en öll önnur, fékk hún að vita um hinn kostinn, sem væri miklu verri: Ég yrði stöðvaður hvort eð væri.

Þetta var sem sagt tilboð sem ekki var hægt að hafna. 

Það sem gerðist á fundinum eystra kom mér því ekki á óvart. Herferðin, sem lofað var, var hafin og kona  mín varð vör við áberandi breytingu á hennar högum. 

Framangreint var dæmi um ótrúlega skoðanakúgun, sem náði hámarki á síðustu árum valdatíma Davíðs Oddssonar og ég hef lýst áður.

Þegar fjölmiðlamaður kemst að því hvernig þetta gegnsýrir orðið allt þjóðfélagið, allir vita þetta en enginn þykist sjá það, og að mest af þrýstingnum er undir yfirborðinu í "óstaðfestum" samtölum á hann um tvennt að velja:

Annars vegar að láta ekkert uppskátt um aðferð hinna "óstaðfestu" samtala og í raun að tryggja með því árangur og framgang þeirrar aðferðar, - eða - að fara þá leið sem ég hef talið mig knúinn til að fara og gera grein fyrir aðferðinni, án þess þó að rjúfa trúnað við nokkurn einstakan.

Þess má geta að flest hinna "óstaðfestu trúnaðarsamtala" voru greinilega komin til hins vinveitta manns, sem við mig talaði, í gegnum milliliði. Ástandið var raunar orðið þannig á þessum tíma að atbeina þess sem stóð á bak við þetta þurfti ekki lengur með.

Allir voru orðnir svo hræddir og meðvitaðir um þetta, að þeir forðuðust að gera neitt sem þeir héldu að hinu ráðandi afli væri á móti skapi.

Framangreint ástand er eitt það lúmskasta og hættulegast sem getur skapast í einu þjóðfélagi. Þetta náði hámarki um 2003-2004 en hættan er alltaf fyrir hendi.  


mbl.is Breyttur leiðari DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband