22.12.2008 | 20:57
"Nær því..." en af hverju ekki alla leið?
Nýju eftirlaunalögin færa að sögn stuðningsmanna þess kjör æðstu embættismanna "nær" eftirlaunakjörum almennings en gömlu lögin. Rökin fyrir gömlu lögunum voru meðal annars þau að þingmenn og æðstu menn nytu svo lítils atvinnuöryggis.
Nýlega var rýnt í það atriði hjá annarri sjónvarpsstöðinni og kom í ljós að ekki þurftu þingmenn og ráðherrar að hafa áhyggjur af atvinnuleysi.
Meiri hluti þingmanna verður þar að auki í svonefndum "öruggum sætum" við næstu þingkosningar ef kosningalögin verða óbreytt. Þannig hefur það verið árum saman. Til dæmis hafa efstu menn á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík "átt" þau sæti í 79 ár, hvernig sem allt hefur velst.
Hafi verið einhver rök fyrir því að atvinnuöryggi þingmanna og ráðherra væri minna en almennings hefur kreppan feykt því út í veður og vind. Þessu er nú algjörlega öfugt farið.
Þeir sem báru mesta ábyrgð á því að slíkt ástand skapaðist ríghalda nú í forréttindi sem eiga ekki lengur neina stoð í veruleikanum, hafi þau þá einhvern tíma átt það.
![]() |
Eftirlaunafrumvarpið samþykkt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.12.2008 | 11:00
Röng fyrirsögn.
Talsmenn stóriðjunnar á Íslandi hafa komist upp með það að láta þá starfsgrein njóta sérstakra fríðinda í umfjöllun um starfsmannafjölda þannig að hann verði þrisvar sinnum hærri en í öðrum starfsgreinum.
Þegar gefnar hafa verið upp tölur um fjölda í atvinnugreinum á Íslandi hingað til hafa starfsmenn hinna mismunandi atvinnugreina einfaldlega verið taldir og síðan dregnar af þeim hlutfallstölur. Þannig hefur fengist rétt hlutföll milli þeirra.
Þannig er það líka gert í öllum öðrum löndum. Til að einfalda málið skulum við gefa okkur að sagt sé að í tilteknu landi starfi til dæmis 10% við landbúnað, 30% prósent við iðnað, 5% við stóriðju, 40% við þjónustu og 25% við ferðaþjónustu eða samtals 100%.
Ef íslenskir stóriðjusinnar sæu þessar tölur myndu þeir hins vegar segja að "afleidd störf" af stóriðjunni væru 10% og fá fyrirsagnir í blöðum um að 20% landsmanna ynnu við stóriðju. Þeir gætu jafnvel bætt um betur og talið með "afleidd störf" í öðrum löndum. Kannski verður það næsta skref.
Nú er það svo að það eru "afleidd störf" af öllum störfum, að vísu mismunandi hátt hlutfall. Ef talsmenn allra atvinnugreinanna færu að reikna á sama hátt og stóriðjusinnarnir og bættu við sama hlutfalli í "afleiddum störfum", - og birtu síðan tölur sínar í fyrirsögnum í blöðum kæmi í ljós í dæminu hér á undan að 30% störfuðu við landbúnað, 90% við iðnað, 120% við þjónustu og 75% við ferðaþjónustu eða alls 315% !.
Engin önnur atvinnugrein en stóriðja hefur komist upp með það hér á landi að skekkja hlutfallslegu myndina á þennan hátt.
Ef talsmenn annarra atvinnugreina færu að nota þessa aðferð myndi koma í ljós að 600 þúsund manns störfuðu samtals við hinar mismunandi atvinnugreinar á Íslandi !
![]() |
Hátt í fimm þúsund störf í orkufrekum iðnaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)