Frá því í barnsminni.

Ég var sjö ára gamall þegar ég áttaði mig fyrst á hinum grimma veruleika stríðs þegar dag eftir dag bárust fréttir af hryðjuverkum Gyðinga og óöldinni í Palestínu, sem náði hámarki með morðinu á Bernadotte greifa, sendimanni SÞ.

Þessar fréttir vöktu mér ótta en faðir minn reyndi að sefa hann. 60 árum síðar er hins vegar ástæða til að fólk sé óttaslegið um víða veröld því að púðurtunnan við botn Miðjarðarhafs ógnar heimsfriðnum.

Ég man að faðir minn átti erfitt með að útskýra fyrir mér að vegna þess að Gyðingar hefðu hrökklast frá Palestínu fyrir nær 1800 árum teldu þeir sig hafa rétt til stunda hryðjuverk til að stofna þar eigið ríki á grundvelli loforða Guðs almáttugs og reka burtu það fólk, sem þar hefði búið í allan þennan tíma.

Á árunum á undan höfðu 14 milljónir manna af þýskum ættum verið fluttar burtu í Evrópu í refsingarskyni fyrir útþenslustefnu nasista. Á mörgum þessara svæða höfðu þýskættaðir menn búið öldum saman.

Munurinn á þessu og stofnun Ísraelsríkis var hins vegar sá að þálifandi Palestínumenn áttu enga sök á því að Gyðingar höfðu hrakist frá landinu helga". Í raun var því fyrir tilverknað kristinna þjóða runnin upp öld nýrra krossferða, jafn blóðugra og óréttlátra og hinar fyrri voru.

Gyðingar notuðu hryðjuverk til að ná fram markmiði sínu og komust upp með það. Síðan hefur dæmið snúist við og þeir verða fyrir hryðjuverkum hinna kúguðu. Þau eru raunar ekki mikið frábrugðin hryðjuverkum andspyrnumanna í hersetinni Evrópu á stríðsárunum sem við teljum hafa verið réttmæt vegna þess hve villimannlegur nasisminn var.

Sakbitnar þjóðir Evrópu eftir útrýmingarherferð nasista og öll stórveldin, þeirra á meðal Bandaríkin og Sovétríkin, lögðu blessun sína yfir stofnun Ísraelsríkis. Íslendingar mæltu fyrir henni hjá SÞ. Upphaflegu ábyrgðina báru þó Bretar sem hleyptu Gyðingum fyrst inn í Palestínu og vægðu fyrir Zíonismanum.

Það er athyglisvert að sjá í sögubókum að um aldamótin 1900 skoðuðu stórveldin vestrænu það í fullri alvöru að "gefa" Gyðingum Uganda til búsetu. Stofnun Ísraelsríkis var því í raun aðeins framlenging á nýlendustefnu stórveldanna, sem birtist ekki aðeins í öðrum heimsálfum, heldur einnig í heimsveldisstefnu Sovétríkjanna í Austur-Evrópu síðari hluta liðinnar aldar.

Hvað um það, - héðan af er jafn óraunhæft að reka Gyðinga öðru sinni frá Palestínu og það hefði verið að reka hvíta menn frá Suður-Afríku.

En í 41 ár hafa Ísraelsmenn brotið alþjóðalög með hernámi Palestínu og kúgun á palestínsku þjóðinni. Alþjóðasamfélagið þvingaði hvíta minnihlutann í Suður-Afríku til að láta af kynþáttaaðskilnaðarstefnu sinni, en lætur Ísraelsmenn komast upp með óverjandi yfirgang. Þetta eitrar öll heimsmálin og þessu verður að linna.

Þegar andspyrnumenn myrtu Heydrich nasistaforingja í Tékkóslóvakíu töldu nasistar þá hafa komið frá þorpinu Lidici og myrtu alla þorpsbúa í refsingar- og fælingarskyni.

Það er lítill ef nokkur munur á þessu og þegar Ísraelsmenn drepa í fælingar- og refsingarskyni 270 Palestínumenn af handahófi fyrir einn drepinn Ísraelsmann. Sorglegt hve lítið hefur breyst á þeim 67 árum sem liðið hafa á milli þessara tveggja atburða.


mbl.is Yfir 270 látnir á Gaza
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband