Ábyrgð Samfylkingarinnar og ný ríkisstjórn.

Sú hefð er rík hér á landi að ráðherrar hafi óskoruð forráð yfir mannahaldi og flestu því sem heyrir undir ráðuneyti þeirra. Að því leyti til er Davíð Oddsson seðlabankastjóri á ábyrgð forsætisráðherra, sem Seðlabankinn heyrir undir.

Samfylkingin, nú síðast Össur Skarphéðinsson, hafa skýlt sér á bak við þetta með bókunum um að Davíð Oddsson sé ekki Seðlabankastjóri á ábyrgð Samfylkingarinnar. Í framhaldinu var komið í veg fyrir myndun sérstakrar nefndar til að fást við hrunvandann.

Á því einu sést hve skaðlegt þetta ástand er. Ég líkti því í Silfri Egils við það að flugvélstjóri sem búinn er að gera tóm mistök svo að kviknað hefur í hreyflunum, sé að hamast frammi í stjórnklefanum, rífandi í stýrin og andandi ofan í hálsmálið á flugstjóranum.

Nú hafa vinstri grænir opnað á rsamstarf á vinstri vængnum með því að færa ESB-málið í þjóðaratkvæði svo að það trufli ekki stjórnarsamstarfið.

Í þessu ljósi getur Samfylkingin ekki fríað sig ábyrgð veru Davíðs í Seðlabankanum. Þessi ríkisstjórn starfar á ábyrgð tveggja flokka og annar þeirra er Samfylkingin. Skaðleg og óverjandi þaulseta allra sem mesta ábyrgð bera er eitt mikilvægasta málið nú um stundir.

Samfylkingin á þann möguleika að hreinsa þetta að einhverju leyti með því að gera það að skilyrði að Davíð verði látinn víkja og verði það ekki gert, rjúfi hún stjórnarsamstarfið og noti lykilaðstöðu sína til að hefja samstarf til vinstri.

Þetta hefði þann kost, að þá mætti skipa nýja ríkisstjórn með nýrri samsetningu og efna til kosninga.

En því miður er líklegra að Samfylkingin haldi áfram að kyngja núverandi stjórnarsamstarfi með von um stefnubreytingu varðandi ESB hjá Sjálfstæðisflokknum vegna aukins þrýstings í þá veru, meðal annars vegna útspils VG.

Láti Sjálfstæðisflokkurinn undan geti þessir tveir flokkar síðan starfað út kjörtímabilið og Samfylkingin sýnt með því að hún sé "stjórntæk", þolgóð og traustur samstarfsaðili eins og öll hennar hegðun siðustu sex árin hefur miðað að.

Ef hún gerir þetta fer hún fram úr slímsetuáráttu Framsóknarflokknum sem skilaði honum margfalt lengri valdatíma síðustu 34 árin en samræmdist kjörfylginu.


Gamalkunnugt ferli.

Gamalkunnugt ferli er nú hafið varðandi gengi krónunnar sem stjórnað er með haftakerfi og gjaldeyrishöftum sem sagt er, eins og oft áður, aðeins eiga að vera í gildi um takmarkaðan tíma.

Þetta ferli fór til dæmis ævinlega í gang eftir gengisfellingar síðustu aldar, þegar gengislækkunin jók dýrtíð innanlands, þrýstingur myndaðist til að vinna það upp og hið handstýrða gengi krónunnar fór upp fyrir raunvirði.

Oftast var það gert með verkföllum og kauphækkunum með verðbólgu í kjölfarið. Á sjötta áratugnum var einnig haldið uppi margföldu gengi og gjaldeyrishöftum.

Svona ráð voru notað í ráðstöfunum vegna kreppunnar 1931. Þetta áttu oftast að vera skammtímaráðstafanir meðan verið væri að ná tökum á vandamálunum en höftin fóru samt ekki alveg fyrr en 65 árum síðar.

Í byrjun haftatímabilsins spruttu upp iðnfyrirtæki á ótrúlega mörgum sviðum, sem síðan urðu smám saman að láta undan síga fyrir ódýrari erlendum vörum þegar Íslendingar gengu í EFTA 1970.

Haftakerfinu fylgdi spilling sem hefur lifað af undir mismunandi heitum allt til dagsins í dag.

Eftir á að hyggja kostuðu haftakerfið, röng gengisskráning og verðbólga þjóðina áreiðanlega miklu meira en menn ímynda sér og ranglætið sem fólst til dæmis í því að skuldarar, eins og húsakaupendur, fengu til sín hundruð milljarða sem í raun var rænt af sparifjáreigendum svo sem gömlu fólki og góðgerðasjóðum.


mbl.is Eftirstöðvar gengistryggðra lána minnka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband