Ábyrgð Samfylkingarinnar og ný ríkisstjórn.

Sú hefð er rík hér á landi að ráðherrar hafi óskoruð forráð yfir mannahaldi og flestu því sem heyrir undir ráðuneyti þeirra. Að því leyti til er Davíð Oddsson seðlabankastjóri á ábyrgð forsætisráðherra, sem Seðlabankinn heyrir undir.

Samfylkingin, nú síðast Össur Skarphéðinsson, hafa skýlt sér á bak við þetta með bókunum um að Davíð Oddsson sé ekki Seðlabankastjóri á ábyrgð Samfylkingarinnar. Í framhaldinu var komið í veg fyrir myndun sérstakrar nefndar til að fást við hrunvandann.

Á því einu sést hve skaðlegt þetta ástand er. Ég líkti því í Silfri Egils við það að flugvélstjóri sem búinn er að gera tóm mistök svo að kviknað hefur í hreyflunum, sé að hamast frammi í stjórnklefanum, rífandi í stýrin og andandi ofan í hálsmálið á flugstjóranum.

Nú hafa vinstri grænir opnað á rsamstarf á vinstri vængnum með því að færa ESB-málið í þjóðaratkvæði svo að það trufli ekki stjórnarsamstarfið.

Í þessu ljósi getur Samfylkingin ekki fríað sig ábyrgð veru Davíðs í Seðlabankanum. Þessi ríkisstjórn starfar á ábyrgð tveggja flokka og annar þeirra er Samfylkingin. Skaðleg og óverjandi þaulseta allra sem mesta ábyrgð bera er eitt mikilvægasta málið nú um stundir.

Samfylkingin á þann möguleika að hreinsa þetta að einhverju leyti með því að gera það að skilyrði að Davíð verði látinn víkja og verði það ekki gert, rjúfi hún stjórnarsamstarfið og noti lykilaðstöðu sína til að hefja samstarf til vinstri.

Þetta hefði þann kost, að þá mætti skipa nýja ríkisstjórn með nýrri samsetningu og efna til kosninga.

En því miður er líklegra að Samfylkingin haldi áfram að kyngja núverandi stjórnarsamstarfi með von um stefnubreytingu varðandi ESB hjá Sjálfstæðisflokknum vegna aukins þrýstings í þá veru, meðal annars vegna útspils VG.

Láti Sjálfstæðisflokkurinn undan geti þessir tveir flokkar síðan starfað út kjörtímabilið og Samfylkingin sýnt með því að hún sé "stjórntæk", þolgóð og traustur samstarfsaðili eins og öll hennar hegðun siðustu sex árin hefur miðað að.

Ef hún gerir þetta fer hún fram úr slímsetuáráttu Framsóknarflokknum sem skilaði honum margfalt lengri valdatíma síðustu 34 árin en samræmdist kjörfylginu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Samfylkingin myndi að sjálfsögðu ekki rjúfa stjórnarsamstarfið nema að hafa tryggt sér fylgi núverndi stjórnarandstöðuflokka við myndun nýrrar stjórnar.

Það gæti til dæmis falist í svipuðu og gerðist í mars 1956 þegar Framsókn hljóp út undan sér og samþykkti þingsályktunartillögu um brottför hersins, afmörkuðu máli sem Sjálfstæðismenn settu á oddinn.

Það gæti einnig falist í svipuðu ástandi og varð haustið 1988 þegar stjórnarsamstarf rofnaði þá, Sjálfstæðisflokkurinn var settur út fyrir og mynduð vinstri stjórn.

1956 varð niðurstaðan kosningar, - 1988 myndun nýrrar stjórnar.

Ómar Ragnarsson, 8.12.2008 kl. 13:21

2 Smámynd: Sævar Helgason

Ef Samfylking hættir í ríkisstjórninni  að undangengnu samkomulagi við aðra flokka en Sjálfstæðisflokk um nýja ríkisstjórn fram að kosningum t.d í vor- getur Geir þá nokkur gert annað en pakkað saman í Stjórnarráðinu og Seðlabankanum, þannig að báðar tvær núverandi ríkisstjórnir hætti ?

Sævar Helgason, 8.12.2008 kl. 13:25

3 identicon

Kæri Ómar.

Ég var svo vitlaus að gefa mig ekki á tal við þig nú fyrir nokkrum dögum þegar ég rakst á þig niðri við Arnarhól, en ég má til með að segja þér að barnalögin sem þú gafst út fyrir mörgum árum gleðja nýjar kynslóðir, eins og þær hafa glatt eldri kynslóðir í gegnum tíðina. Dóttir mín, 18 mánaða gömul, syngur hástöfum:Grýla, ó Grýla, ó Grýla í gamla hellinum... Ef þetta er ekki til að gleðast yfir, sér í lagi á krepputímum - þá veit ég ekki hverju maður á að gleðjast yfir.

Takk fyrir okkur - og ÁFRAM ÍSLAND!

Jónína (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 13:38

4 identicon

Það sem mér finnst ég skynja eftir innganginn hjá þér, Ómar, er alger roluháttur og kjarkleysi Samfylkingarinnar. Einn og einn ráðherra gasprar þarna, eða segir fullum fetum hitt og svo er hópnum rúttað saman og reynt að koma fram sem samheldin heild. Til hvers þegar allir sjá í gegnum þetta? Við almenningur erum engir asnar. Hvað er Samfylkingin að hanga aftan í Sjálfstæðisflokknum? Bara af því að Ingibjörgu og Geir kemur svona líka rosalega vel saman, að hann byrjaði ekki að brosa fyrr en hún kom heim? Ég veit ekki betur en allir flokkar séu að opna á Evrópuaðild, nema VG hefur þann fyrirvara á að setja ákvörðunina í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem auðvitað á að gera. Hvað gerir ríkisstjórnin svo? Ræður ekki einu sinni færustu hagfræðinga og sérfræðinga í bankasvindli og uppbyggingu til að hjálpa sér. Ónei, gerum þetta bara sjálf, af því við erum svo svakalega samheldin og klár. Þvílíkt bull. Og já, Ómar, hef hlustað á lögin þín frá því ég var pínuponsu að syngja jólalögin. Þú ert frábær.

Nína S (IP-tala skráð) 8.12.2008 kl. 20:35

5 Smámynd: Íslendingur

Rjúfi Samfylking stjórnarstarf geri ég þá kröfu að VG hlaupi ekki undir bagga með hvorugum stjórnarflokkunum og boðið verði til kosninga. Ég hef littla trú á að VG, eftir allt tal um vöntun á lýðræðislegri þróun geti bara tekið við stjórnartaumunum með örflokkunum og Samfylkingu. Geri einnig kröfu á Samfylkingu að standa hart á sínum skoðunum varðandi okkar hrunið samfélag. Ástandið býður ekki upp á það að menn séu ósammála um lykilatriði í stjórnarsamstarfi, telji Samfylking ekki ráðlegt að Davíð Oddsons sé einn af æðstu yfirmönnum peningamálastefnu Íslands í dag, en Sjálfstæðismenn ósammála, þá er það eina í stöðunni að rjúfa samstarf og efla til kosninga.

Íslendingur, 8.12.2008 kl. 23:20

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Framsókn getur komið til hjálpar, því miður liggur mér við að segja, vegna stóriðjustefnu þess flokks.

Þó gæti slíkt komið til greina ef slík stjórn sæti stutt og hefði ekki tök á að rjúfa það hökt sem stóriðjustefnan er í nú í kreppunni, heldur teldi það höfuðhlutverk sitt að efna til kosninga, þar sem bæði væri kosið til Alþingis og um aðildarumsókn að ESB.

Ómar Ragnarsson, 9.12.2008 kl. 00:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband