KOMUM SKYNSAMLELGU SKIKKI Á.

Bann við reykingum á opinberum stöðum byggist á því að einstaklingar og starfsfólk þar hafi það frelsi að það þurfi ekki að anda að sér heilsuspillandi lofti. Ekki má gera upp á milli stofnana í þessu efni. Aðrar reglur eiga ekki að gilda t. d. á Alþingi en á veitingastöðum. Ég aðhyllist "Já, ef..." svar við álitaefnum frekar en að segja alltaf "nei." Ég vil segja "já, ef..." ef beðið er um samþykki fyrir því að reykingafólk eigi athvarf í sérstökum reykingaherbergjum ef sannað er að ekki berist reykur frá því athvarfi út í almeninninginn. En það verður að vera 100% tryggt.

Ef umráðamaður viðkomandi staðar telur of dýrt að eyða rými í slíkt eða ekki mögulegt, þá það. Ég tel ófært að hafa athvarf reykingafólksins þar sem reykinn leggi frá því yfir á svæði þar sem sú krafa er gerð að fólk fái frelsi frá heilsuspillandi reyk.

Ef lögin og reglurnar eru svo óljósar að hægt sé að fara fram hjá þeim eiga alþingismenn að bæta úr því hið snarasta.

Ég hef horft upp á Hauk Morthens, Ingimar Eydal, Svavar Gests, Ellý Vilhjálms og Stefán Jóhannsson deyja úr krabbameinum sem taldar eru um 80% líkur á að stafi af óbeinum reykingum. Haukur og Ingimar voru mjög bitrir og sárir yfir því að hafa ekki frelsi til að forðast hættuna.

Starfa þeirra vegna urðu þeir að gera sér innbyrlunina að góðu. Sjálfur hef ég sem skemmtikrefur senn eytt hálfri öld í reykfylltum samkomusölum tímunum saman á kvöldin. Ég skildi því vel sárindi bestu vina minna sem ég sá á bak langt um aldur fram á sínum tíma og áttu erfitt með að sætta sig við örlög sín.

Þetta er réttlætismál sem verður að leysa, helst með "já, ef..." og á eftir orðinu "ef..." fylgja síðan ákveðin ófrávíkjanleg skilyrði.


mbl.is Heilbrigðisráðuneytið brýnir stofnanir vegna reykingabanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GRANI OG GEIR UPPLÝSA ?

Er hugsanlegt að upplýsingar lögreglunnar í 24 stundum í dag um það að auðveldara sé að stela Nissan bílum en öðrum bílum gæti verið vel þegin hjá bílaþjófum? Það hefur svo sem sést í erlendum bílablöðum að rannsóknir blaðanna hafi leitt í ljós að fljótara sé að stela sumum bílgerðum en öðrum en það er gert til að leiðbeina kaupendum. Svona upplýsingar geta því bæði gagnast bílaeigendum og bílaþjófum.

Ég veit hins vegar ekki hvort bílaþjófar hér lesa erlend bílablöð svo vel að þeir rekist á þessar upplýsingar þar. Eða hvort íslenskir bílaþjófar viti þetta þegar. Ég hef sjálfur orðið vitni að bílþjófnaði og þeir þjófar vissu ekki hvaða bíl var auðveldast að stela, heldur voru saman í gengi og reyndu að brjótast inn í tvo bíla í einu. Þeir tóku síðan þann sem fór fyrr í gang.

Sé þetta gert svona fara Nissanbílarnir væntanlega fljótar í gang en aðrir.

Það má setja spurningarmerki við það hvort lögreglan eigi að gefa vísbendingar í fjölmiðlum um það hvaða bílum sé auðveldast að stela. Grani og Geir í Spaugstofunni myndu vafalaust ekki hugsa sig um en hinir raunverulegu talsmenn lögreglunnar mættu velta hlutunum fyrir sér.


mbl.is Bílar gufa upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ROK OG BYLUR !

Ég skrapp í kvöld og var leynigestur á skemmtilegri sýningu í Borgarleikhúsinu sem heitir "Hér og nú." Í stað þess að syngja "Nú er frost á fróni" fengust sýningargestir til að syngja með mér að hluta til lag sem heitir "Rok og bylur" og er við gamalt rokklag, sem Pat Boone söng á sínum tíma og hét "Rocka-billy-rock." Í flutningi lagsins taka allir undir viðlagið og í lok þess sest söngvarinn við hlið konu og syngur til hennar um fjallakofadraum sinn.

ROK OG BYLUR.

Rok og bylur, rok og bylur, rok og bylur! Rok!

(endurtekið þrisvar)

 

Við gleðjumst hér svo ákaflega yfir því

að einmitt þessa daga hækkar sól á ný.

Þótt veðrið alveg snarvitlaust að verða sé

við verðum hér með spaug og spé.

 

Nú ætlum við að skemmta´okkur á útopnu

og erum ekki að pæla neitt í veðrinu

og glaður er hver fýr og sérhver gella blíð

þótt geysi úti hríð

 

og það sé rok og bylur, rok og bylur, rok og bylur, rok?

(endurtekið þrisvar)

 

Og þó að allt sé rafmagnslaust og allt í steik

og ófært út úr húsi þá má bregða´á leik.

Ef erfitt er að halda á sér hita þá

í hjónarúminu yl má fá.

 

Og bjargað hefur mörgum svona myrka nótt

að í meyjarfaðmi gleymist allur kuldi skjótt.

Það væri margur Íslendingur ekki til

ef aldrei gerði byl !

 

Og það sé rok og bylur, rok og bylur, rok og bylur, rok!

(endurtekið þrisvar, sest hjá konu og sungið til hennar)

 

Og ef ég væri tepptur einn með þér

og óhjákvæmilegt að ylja sér

það yrði í fjallakofa indælt dok -

með þér -

ef það er -

rok og bylur, rok og bylur, rok! Rok!  


Bloggfærslur 1. febrúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband