SAMGÖNGUR FRÁ 1950.

Á laugardag og sunnudag verða haldin málþing um olíuhreinsistöðvar á Bíldudal og Ísafirði. Ef samgöngur við þennan landshluta væru eins og í öðrum landshlutum væri ekkert mál að fara á báða staðina eins og ég er að íhuga. En í staðinn er þetta stórmál og minnir mann á árin í kringum 1950 í öðrum landshlutum, þegar ekki var hægt að fljúga að næturlagi og fjallvegir ófærir víðast á landsbyggðinni. Vestfirðir eru á þessu stigi enn, einir allra landshluta. 

Ég get ekki flogið á FRÚ-nni á milli staða á Vestfjörðum nema í björtu.

Og ef ég ek frá Reykjavík til Bíldudals er lengra fyrir mig á þessum árstíma að aka þaðan til Ísafjarðar heldur en frá Reykjavík til Ísafjarðar vegna þess að Hrafnseyrar- Dynjandis-Þorskafjarðar- og Tröllatunguheiðar eru ófærar og verður að aka frá Bíldudal til baka til Búðardals, þaðan um Laxárdalsheiði yfir í Hrútafjörð og síðan þaðan alla hina löngu vetrarleið vestur á Ísafjörð.

Flugleiðin frá Reykjavík til Ísafjarðar er rúmir 220 km en landleiðin að vetrarlagi næstum þrisvar sinnum lengri. Flugleiðin liggur um Breiðafjörð en landleiðin er teygð langt austur í næsta landshluta.  

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það hafi verið verstu mistökin í samgöngum á Vestfjörðum þegar ákveðið var að aðalleiðin vestur lægi um Ísafjarðardjúp og Steingrímsfjarðarheiði.

Ef áhersla hefði verið lögð tengingu um Breiðafjörð væri nú komin heilsársleið sem tengdi saman Vesturland og sunnanverða og norðanverða Vestfirði í stað þess hörmungarástands sem ég lýsti hér að framan.

Í stað leiðar yfir Steingrímsfjarðarheiði væri nú farið milli Hólmavíkur og Ísafjarðar um Arnkötludal.

Og næturlokunin á fluginu á norðanverðum fjörðunum væri engin hindrun fyrir flugi ef heilsársleið lægi frá Barðaströnd til Ísafjarðar því hægt er að fljúga að næturlagi til Patreksfjarðar.  

Enn styttra, eða aðeins rúmlega klukkstundar akstur, væri frá nýjum flugvelli við Brjánslæk sem myndi gerbylta samgöngum vestur því að Vestfirðir eru eini landshlutinn sem aðeins er hægt að fljúga til örfáar klukkustundir á veturna vegna myrkurs.

Þessar samgönguhömlur standa að mínum dómi mest í vegi fyrir framförum á Vestfjörðum og eru langstærsti þátturinn í byggðavandamálunum þar.


DÓMARINN ER HLUTI AF LEIKVANGNUM.

Dómarinn er hluti af leikvanginum í knattleik og við það situr oftast. Mistök hafa komið fyrir áður í spurningakeppni og sjálfur minnist ég mistaka Baldurs Hermannssonar og mín þegar í keppni Þingeyinga við Eyfirðinga var spurt: "Á hvað horfir Hamlet Danaprins þegar hann segir: Að vera eða vera ekki?" Svarið: "Hauskúpu" var dæmt sem rétt svar en hið rétta er að Hamlet horfir á hauskúpu á allt öðrum stað í leikritinu og alls ekki þarna.  

Þetta svar réði úrslitum og raunar komumst við Baldur að þeirri niðurstöðu að hægt væri bæði að dæma svarið rétt og rangt vegna þess að hér væri um að ræða það sem kalla mætti "viðurkenndan misskilning."

Annað dæmi um viðurkenndan misskilning er spurningin um það hver sé frægasta setningin úr myndinni Casablanca. Ef svarað er: "Play it again, Sam," er það viðurkenndur misskilningur því að hið rétta er að þessi setning er aldrei sögð í myndinni þótt langflestir haldi það. 

Sjálfur á ég við viðurkenndan misskilning að glíma því að mjög margir, jafnvel gamlir bekkjarbræður mínir, eru harðir á því að fyrsti bíllinn minn, sem ég eignaðist meðan ég var í skóla, hafi verið þriggja hjóla. Hið rétta er að hann var með fjögur hjól og þau öll úti í hornunum.

Misskilningurinn byggist á því að í einum af skemmtiþáttum Sjónvarpsins sat ég í þriggja hjóla Messerschmitt sem ýtt var inn í stúdíó og það var í eina skiptið á ævinnni sem ég sat í slíkum bíl.

En þetta sýnir hve Sjónvarpið getur verið sterkur miðill, þetta eina skipti varð eins og fjöðrin sem varð að mörgum hænum.

Gildir einu þótt ég eigi núna nákvæmlega eins bíl og minn fyrsta bíl til að sanna að hann hafi verið með fjögur hjól. Þriggja hjóla bíllinn er viðurkenndur misskilningur.

Spurningar sem byggjast á viðurkenndum misskilningi ber auðvitað að forðast en mistök geta alltaf gerst og munu halda áfram að gerast.

Þess má geta að úrslitin sem réðust á hauskúpunni sem Hamlet hélt á urðu til þess að keppnin varð mun skemmtilegri en ella. Þingeyingar komust áfram og á síðar í keppninni, á Húsavík, fór Flosi Ólafsson með þessa frægu vísu sína eftir að hafa ekið fram hjá Ystafelli:

Hér er alveg unaðslegt á ýmsar lundir.

Sveinar elta hringahrundir.

Hér var það sem SÍS kom undir.


mbl.is Mistök í Gettu betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. febrúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband