DÓMARINN ER HLUTI AF LEIKVANGNUM.

Dómarinn er hluti af leikvanginum í knattleik og við það situr oftast. Mistök hafa komið fyrir áður í spurningakeppni og sjálfur minnist ég mistaka Baldurs Hermannssonar og mín þegar í keppni Þingeyinga við Eyfirðinga var spurt: "Á hvað horfir Hamlet Danaprins þegar hann segir: Að vera eða vera ekki?" Svarið: "Hauskúpu" var dæmt sem rétt svar en hið rétta er að Hamlet horfir á hauskúpu á allt öðrum stað í leikritinu og alls ekki þarna.  

Þetta svar réði úrslitum og raunar komumst við Baldur að þeirri niðurstöðu að hægt væri bæði að dæma svarið rétt og rangt vegna þess að hér væri um að ræða það sem kalla mætti "viðurkenndan misskilning."

Annað dæmi um viðurkenndan misskilning er spurningin um það hver sé frægasta setningin úr myndinni Casablanca. Ef svarað er: "Play it again, Sam," er það viðurkenndur misskilningur því að hið rétta er að þessi setning er aldrei sögð í myndinni þótt langflestir haldi það. 

Sjálfur á ég við viðurkenndan misskilning að glíma því að mjög margir, jafnvel gamlir bekkjarbræður mínir, eru harðir á því að fyrsti bíllinn minn, sem ég eignaðist meðan ég var í skóla, hafi verið þriggja hjóla. Hið rétta er að hann var með fjögur hjól og þau öll úti í hornunum.

Misskilningurinn byggist á því að í einum af skemmtiþáttum Sjónvarpsins sat ég í þriggja hjóla Messerschmitt sem ýtt var inn í stúdíó og það var í eina skiptið á ævinnni sem ég sat í slíkum bíl.

En þetta sýnir hve Sjónvarpið getur verið sterkur miðill, þetta eina skipti varð eins og fjöðrin sem varð að mörgum hænum.

Gildir einu þótt ég eigi núna nákvæmlega eins bíl og minn fyrsta bíl til að sanna að hann hafi verið með fjögur hjól. Þriggja hjóla bíllinn er viðurkenndur misskilningur.

Spurningar sem byggjast á viðurkenndum misskilningi ber auðvitað að forðast en mistök geta alltaf gerst og munu halda áfram að gerast.

Þess má geta að úrslitin sem réðust á hauskúpunni sem Hamlet hélt á urðu til þess að keppnin varð mun skemmtilegri en ella. Þingeyingar komust áfram og á síðar í keppninni, á Húsavík, fór Flosi Ólafsson með þessa frægu vísu sína eftir að hafa ekið fram hjá Ystafelli:

Hér er alveg unaðslegt á ýmsar lundir.

Sveinar elta hringahrundir.

Hér var það sem SÍS kom undir.


mbl.is Mistök í Gettu betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú söngst nú um þrjú hjól undir bílnum, það er nú kannski bara skiljanlegt að maður sjái þig fyrir sér á þriggja hjóla bíl

Bidda (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 12:34

2 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Um 1978 eða 9 seldi faðir minn um hundrað hross á uppboði í Grófargilsrétt við Varmahlíð. Þú komst með tökuliði frá sjónvarpinu og tókst viðtal og myndir, sem sýndar voru í kvöldfréttum sama dag.

Manstu nokkuð eftir þessu Ómar, og heldurðu að þetta myndskeið sé mögulega til?

Mbk

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 19.2.2008 kl. 14:52

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fyrsti bíllinn minn var af gerðinni NSU Prinz 30.

Eitthvað rámar mig í viðtalið á hrossauppboðinu en því miður var öllu svona yfirleitt hent hér í gamla daga.

Ómar Ragnarsson, 19.2.2008 kl. 15:35

4 Smámynd: Kolgrima

Ertu viss um þetta með Casablanca? Mig minnir endilega að Ingrid Bergman hafi sagt þetta og þegar Sam gerði það þá kom Bogart aðskvaðandi...

Kolgrima, 19.2.2008 kl. 18:11

5 Smámynd: Kolgrima

Ok, hún sagði: Play it once, Sam!

Kolgrima, 19.2.2008 kl. 18:13

6 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Þetta er aðeins öðruvísi í spurningakeppnum heldur en í kappleikjum af flestu tagi. Dómarinn stýrir algerlega keppninni frá A-Ö og þarf aðeins að koma vel undirbúinn til leiks til að allt gangi vel. Hann þarf ekki að taka ákvarðanir á augnabliki í hita leiksins heldur á hann einungis að þurfa að fylgja þeim svörum sem hann hafði ákveðið að taka gild áður en keppni hófst. Í þessari keppni var þetta er ekki spurning um einhvern viðurkenndan misskilning heldur einfaldlega klúður. 

Guðmundur Ragnar Björnsson, 19.2.2008 kl. 20:06

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er að mínu mati rétt hjá Guðmundi Ragnari Björnssyni að þetta sé klúður og að það eigi að vera hægt að girða fyrir svona mistök fyrirfram. Yfirlýsingar þeirra sem urðu fyrir barðinu á þessu sýna hins vegar manndóm og yfirvegun sem er þeim til sóma.

Þessar yfirlýsingar eru í þeim dúr sem ég lýsti á þann veg að dómarinn væri hluti af leikvanginum og að mistök hans yrði oft að taka á þann veg.

Reynsla mín af spurningaleikjum er sú að eitt aðalatriðið sé að spurningarnar séu þannig að rétt svör séu einföld og ótvíræð.

Það getur krafist nokkurrar vinnu og yfirlegu að tryggja þetta en hún borgar sig fyrir alla aðila, dómarann, spyrjandann, keppendurna og áhorfendur.

Ómar Ragnarsson, 19.2.2008 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband