24.2.2008 | 22:09
AUSTFIRSKA AÐFERÐIN FYRIR VESTAN.
Austfirska aðferðin til að koma á stóriðju, sem notuð er í olíuhreinstöðvamálinu á Vestfjörðum, er kunnugleg. Kynnt eru áform um stórkarlalega töfralausn á byggðavandanum og tryggður stuðningur sveitarstjórna við þær. Á sínum tíma voru allar sveitarstjórnir á Austurlandi hlynntar álveri þótt augljóst væri að hringiðan á miðju svæðinu myndi soga til sín fólk frá jaðarsvæðunum. Það hefur nú komið á dagin og jaðarsvæðin verr sett en áður og áfram fækkar fólki í Austurlandsfjórðungi.
Þegar búið að er kynda undir væntingar og tryggja stuðning lykilaðila er afleiðingin sú að hver sá sem efast fær á sig þann stimpil að vera óvinur landshlutarins og lætur því lítið á sér bera.
Eystra var upphaflega rætt um "hóflega" stórt álver en þegar málið var komið nógu langt á veg var mönnum stillt upp við vegg: Þetta álver er of lítið til að geta verið hagkvæmt og annað hvort verður álverið þrefalt stærra með margfalt meiri umhverfisspjöllum vegna risavirkjunar eða að hætta verður við allt saman.
Á Vestfjörðum er því lofað að co2 útblástur hreinsistöðvar verði aðeins 560 þúsund tonn á ári, en það þýðir að miðað við áætlaða framleiðslu verður að vinna þar að mestu dísilolíu, því að vinnsla á bensíni kostar meira en tvöföldun útblásturs.
Þegar talsmenn stöðvarinnar eru síðan spurðir um hvort ekki verði unnin þar dísilolía svara þeir því til að það liggi ekki fyrir. Með þessu geta þeir haldið því opnu að þegar málið verður komið svo langt á veg að ekki verður aftur snúið, geti þeir sagt: Vegna þess að afurðirnar eru fluttar til Bandaríkjanna þar sem bensín er aðaleldsneytið verðum við að framleiða bensín.
Slík breyting myndi auka útblásturinn upp undir 1,5 milljónir tonna á ári.
Þegar bent er á að Ísland eigi ekki kvóta fyrir útblæstrinum er sagt að kvótinn verði bara keyptur. Enginn veit hvernig kaupin eiga eftir að gerast á þeirri eyri.
Sagt er að Íslendingar muni geta fengið olíuvörur á lægra verði og talað um fjölbreytta afleidda iðnaðarframleiðslu.
Á sínum tíma var svipað sagt þegar reist var fyrsta álverið í Straumsvík. Sagt var að Íslendingar myndu geta fengið álið á stórum lægra verði en aðrir og upp mundi spretta stórfelldur afleiddur úrvinnsluiðnaður.
Auðvitað gerðist þetta ekki því að hagkæmni stærðarinnar veldur því að með því að flytja álið óunnið til útlanda og síðan aftur til landsins í formi vöru, sem unnin er úr áli í stórum stíl, verður sú vara samt ódýrari en ef reynt væri að framleiða hana hér í okkar smáa samfélagi.
Sem dæmi má nefna þakklæðningar úr áli. Vinur minn sem þurfti að kaupa slíkt spurði þann sem seldi, hvers vegna slíkt væri ekki framleitt hér á landi. Svarið var einfalt: Hin útlenda verksmiðja er svo stór, að hún framleiðir tvisvar á dag sem svarar öllum álklæðningum á Íslandi og íslensk framleiðsla gæti aldrei keppt við slíkt.
Viðurkennt er að núverandi hámark, sem olíuframleiðslan hefur náð í heiminum, muni ekki geta haldist nema í mesta lagi í tuttugu ár í viðbót. Þá verður orðið svo erfitt að ná til þverrandi olíulinda, að verðið mun hækka, framleiðslan minnka. jafnt og þétt og leitað á mið annarra orkugjafa.
Það þýðir að samdráttur mun verða í hreinsistöðvunum og æ fleiri þeirra leggja upp laupana. Hvernig mun þá fara fyrir íslensku stöðvunum? Hér á Íslandi verður mun auðveldara að neyða íbúana til að taka á sig vanda stöðvanna vegna þess hve þær eru stór hluti í byggðamynstrinu.
Erfiðara er að gera slíkt erlendis í hinum fjölmennu samfélögum þar sem stöðvarnar eru lítill hluti af atvinnulífinu.
Í lokin munu kannski Vestfirðir sitja uppi með svipaðar stöðvar og fyrir öld þegar hvalveiðarnar lentu í samdrætti með þverrandi hvalastofnum.
Þess vegna ætti kannski að reisa hreinsistöð á Suðureyri við Tálknafjörð á rústum hvalveiðistöðvar sem þar var, svona til að viðhalda hefðinni um rústir útdauðs stóriðnaðar sem byggður var á ósjálfbærri nýtingu takmarkaðs hráefnis.
Margt fleira kemur í hugann eftir málþing um þetta mál á Bíldudal og Ísafirði í dag og í gær. Nánar um það síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)