AUSTFIRSKA AÐFERÐIN FYRIR VESTAN.

Austfirska aðferðin til að koma á stóriðju, sem notuð er í olíuhreinstöðvamálinu á Vestfjörðum, er kunnugleg. Kynnt eru áform um stórkarlalega töfralausn á byggðavandanum og tryggður stuðningur sveitarstjórna við þær. Á sínum tíma voru allar sveitarstjórnir á Austurlandi hlynntar álveri þótt augljóst væri að hringiðan á miðju svæðinu myndi soga til sín fólk frá jaðarsvæðunum. Það hefur nú komið á dagin og jaðarsvæðin verr sett en áður og áfram fækkar fólki í Austurlandsfjórðungi.  

Þegar búið að er kynda undir væntingar og tryggja stuðning lykilaðila er afleiðingin sú að hver sá sem efast fær á sig þann stimpil að vera óvinur landshlutarins og lætur því lítið á sér bera. 

Eystra var upphaflega rætt um "hóflega" stórt álver en þegar málið var komið nógu langt á veg var mönnum stillt upp við vegg: Þetta álver er of lítið til að geta verið hagkvæmt og annað hvort verður álverið þrefalt stærra með margfalt meiri umhverfisspjöllum vegna risavirkjunar eða að hætta verður við allt saman.

Á Vestfjörðum er því lofað að co2 útblástur hreinsistöðvar verði aðeins 560 þúsund tonn á ári, en það þýðir að miðað við áætlaða framleiðslu verður að vinna þar að mestu dísilolíu, því að vinnsla á bensíni kostar meira en tvöföldun útblásturs. 

Þegar talsmenn stöðvarinnar eru síðan spurðir um hvort ekki verði unnin þar dísilolía svara þeir því til að það liggi ekki fyrir. Með þessu geta þeir haldið því opnu að þegar málið verður komið svo langt á veg að ekki verður aftur snúið, geti þeir sagt: Vegna þess að afurðirnar eru fluttar til Bandaríkjanna þar sem bensín er aðaleldsneytið verðum við að framleiða bensín. 

Slík breyting myndi auka útblásturinn upp undir 1,5 milljónir tonna á ári.

Þegar bent er á að Ísland eigi ekki kvóta fyrir útblæstrinum er sagt að kvótinn verði bara keyptur. Enginn veit hvernig kaupin eiga eftir að gerast á þeirri eyri.

Sagt er að Íslendingar muni geta fengið olíuvörur á lægra verði og talað um fjölbreytta afleidda iðnaðarframleiðslu.

Á sínum tíma var svipað sagt þegar reist var fyrsta álverið í Straumsvík. Sagt var að Íslendingar myndu geta fengið álið á stórum lægra verði en aðrir og upp mundi spretta stórfelldur afleiddur úrvinnsluiðnaður.

Auðvitað gerðist þetta ekki því að hagkæmni stærðarinnar veldur því að með því að flytja álið óunnið til útlanda og síðan aftur til landsins í formi vöru, sem unnin er úr áli í stórum stíl, verður sú vara samt ódýrari en ef reynt væri að framleiða hana hér í okkar smáa samfélagi.

Sem dæmi má nefna þakklæðningar úr áli. Vinur minn sem þurfti að kaupa slíkt spurði þann sem seldi, hvers vegna slíkt væri ekki framleitt hér á landi. Svarið var einfalt: Hin útlenda verksmiðja er svo stór, að hún framleiðir tvisvar á dag sem svarar öllum álklæðningum á Íslandi og íslensk framleiðsla gæti aldrei keppt við slíkt.

Viðurkennt er að núverandi hámark, sem olíuframleiðslan hefur náð í heiminum, muni ekki geta haldist nema í mesta lagi í tuttugu ár í viðbót. Þá verður orðið svo erfitt að ná til þverrandi olíulinda, að verðið mun hækka, framleiðslan minnka. jafnt og þétt og leitað á mið annarra orkugjafa.

Það þýðir að samdráttur mun verða í hreinsistöðvunum og æ fleiri þeirra leggja upp laupana. Hvernig mun þá fara fyrir íslensku stöðvunum? Hér á Íslandi verður mun auðveldara að neyða íbúana til að taka á sig vanda stöðvanna vegna þess hve þær eru stór hluti í byggðamynstrinu. 

Erfiðara er að gera slíkt erlendis í hinum fjölmennu samfélögum þar sem stöðvarnar eru lítill hluti af atvinnulífinu.

Í lokin munu kannski Vestfirðir sitja uppi með svipaðar stöðvar og fyrir öld þegar hvalveiðarnar lentu í samdrætti með þverrandi hvalastofnum.

Þess vegna ætti kannski að reisa hreinsistöð á Suðureyri við Tálknafjörð á rústum hvalveiðistöðvar sem þar var, svona til að viðhalda hefðinni um rústir útdauðs stóriðnaðar sem byggður var á ósjálfbærri nýtingu takmarkaðs hráefnis.

Margt fleira kemur í hugann eftir málþing um þetta mál á Bíldudal og Ísafirði í dag og í gær. Nánar um það síðar.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Já Ómar, mér finnst ég kannast við svolítið af þessu sem verið er að kynna fyrir Vestfirðingum þessa dagana.

Haraldur Bjarnason, 24.2.2008 kl. 23:12

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Góður pistill Ómar.

Sigurður Þórðarson, 24.2.2008 kl. 23:33

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Vonandi slokknar bráðum ljósið yfir þessari timburmannasmiðju.

Bara umræðan er svo galin að manni verður orðfall.

Árni Gunnarsson, 24.2.2008 kl. 23:54

4 identicon

Svo er hræðsluáróðursvélin líka í gangi í sambandi v. Helguvíkurálverið, það verði að hefjast handa sem fljótast því annars verðum við ekki undirbúin f. kreppuna sem er að koma og enginn veit hvað varir lengi. Stóriðja skapi stöðugleika mun fremur en annað.

Ari (IP-tala skráð) 25.2.2008 kl. 03:28

5 Smámynd: Theódór Norðkvist

Hárrétt, þetta er ákveðið munstur og áróðursmaskína. Við þetta má bæta að fjársveltum sveitarfélögum, í kjölfar ehf-byltingarinnar, þar sem sveitarfélög hafa tapað útsvarstekjum í stórum stíl, er í raun stillt upp við vegg og settir afarkostir af iðnvæðingaröflunum.

Annað hvort takið þið við starfsemi okkar, eða byggð leggst hér af, eru skilaboðin til byggðanna.

Theódór Norðkvist, 25.2.2008 kl. 11:04

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk fyrir góðan pistil, Ómar. Mig langar að benda þeim sem vilja skoða málið betur að lesa eftirfarandi pistla:

Fyrsta, önnur, þriðja, fjórða, fimmta, sjötta og greinar eftir Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðing hér og hér. Glærur af málþingunum má nálgast hér.

Ég er Vestfirðingur í báðar ættir og hef miklar taugar til Vestfjarða, fer þangað oft og nýt þess að ferðast um þessa stórbrotnu náttúru. Ansi er ég hrædd um að fleiri en Jóhann Örn hætti að heimsækja Vestfirðina ef af olíuhreinsistöð verður. "Ljósadýrðin" sem Jóhann Örn nefnir er þannig til komin - og hér afrita ég athugasemd mína á öðru bloggi:

"En þangað til má ég til með að vitna í orð Ólafs Egilssonar í fréttum Stöðvar 2 í kvöld þar sem hann sagði m.a.: "Sjónmengun, það er jú smekksatriði. Sumir hafa talað um að Pompidou-listasafnið í París líkist olíuhreinsistöð. Þetta yrði tilbreyting. En í einum dal á Vestfjörðum, í víðáttu Vestfjarða, þar mun það ekki skipta miklu máli neikvætt." (Ég hef heimsótt Pompidou-safnið í París - það er algjört skrímsli.)

Þarna finnst mér Ólafur tala niður til Vestfirðinga. Honum finnst bara allt í lagi að fórna Vestfjörðunum, því þarna er ekki verið að tala bara um einn dal heldur marga. Til dæmis dalina fyrir utan Hvestudal. Íbúar í næsta nágrenni þurfa að búa við stöðuga sjónmengun, hljóðmengun og eiturgufur frá olíuhreinsistöðinni. Hið undurfagra útsýni sem blasir við þegar maður kemur niður af Hrafnsfjarðarheiði verður með ljótu, reykspúandi öri. Útsýni frá Hrafnseyri mengað.

Ólafur Egilsson lét fleiri gullkorn falla í téðu fréttaviðtali. Hann sagði einnig: "Áreiðanlega eiga margir eftir að gera sér ferð í skammdeginu til að sjá ljósadýrðina í slíkri stöð þegar hún er risin". Ég trúði ekki mínum eigin eyrum, stoppaði, spólaði til baka, hlustaði aftur. Jú, hann sagði þetta.

Mín fyrstu viðbrögð voru að skella upp úr. Ég sá fyrir mér bílalestir yfir Hálfdán og Hrafnseyrarheiði í vetrarfærð og myrkri, fólk að brjóta sér leið yfir fjallvegina til að góna á ljósum prýdda olíuhreinsistöð! Ólafur gleymdi alveg að bæta því við að í leiðinni myndi fólkið fá að hlýða í andakt á hávaðamengun verksmiðjunnar í kvöldkyrrðinni og anda að sér unaðslegum, eitruðum olíufnyk sem legði inn eða út fjörðinn eftir vindáttum - upp dali og fjallshlíðar og skilja þar eftir sig eiturgufur sem drepa allt kvikt.

Hvað heldur maðurinn eiginlega að Vestfirðingar séu? Hálfvitar? Þá verður hann fyrir miklum vonbrigðum."

Lára Hanna Einarsdóttir, 25.2.2008 kl. 13:27

7 identicon

Ekki verður feigum forða, né ófeigum fargað - eða eitthvað svoleiðis.  Nú, fyrst að svo margir eru á móti olíuhreinsistöð fyrir Vestan, nú þá fara þeir bara í eyði.  Þá getur fólk komið á ofurjeppunum sínum og brunað um Vestfirði og dásamað eyðiþorpin þar.  Vestfirðir yrðu þá að einskonar byggðasafni um liðna tíð og búskaparhætti, sem væri opið ca. 3 mánuði á ári.

Fyrst að svona málsmetandi fólk vill hafa forræði fyrir Vestfirðingum og þar með hafa ráð og framtíð fólksins þar í hendi sér, þá mætti olíuhreinsistöðin bara koma hingað á Norð-Austurhornið.  Nóg er af landrými, engir djúpir firðir, mörg útnes þar sem vindurinn blæs, minni hætta á hafís og styttra til Rússlands og Vestur-Evrópu.  Það yrði upplagt að fá olíuhreinsistöð á t.d. Melrakkasléttu þegar olía finnst á Dreka-svæðinu og annarsstaðar úti fyrir Norð-Austulandi. 

Íbúar hér Norð-Austanlands munu án efa fagna því, en án efa mun hávær utansveitarhópur mótmæla þessu og þykjast hafa vit fyrir fólki hér og hvað því sé fyrir bestu.  Þessi sami hópur vill samt sem áður kaupa eldsneyti á fínu risa-jeppana sína og fljúga um allan heim í þotum sem nota mikið eldsneyti, en því er hinsvegar alveg sama hvaðan eldsneytið kemur og hvar það er unnið, bara að það ekki unnið á Íslandi.

Marteinn Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 25.2.2008 kl. 13:56

8 Smámynd: Halldór Þórðarson/dóritaxi

Sæll Ómar, mikið er talað um hvort olíu hreinsistöð eigi að koma eða ekki en við sem ennþá erum að þrjóskast við að eiga heima á Vestfjörðum en erum ekki flutt suður "flóttamenn" vitum það manna best að ekki getum við lifað á því að þjóna brottfluttum  "flóttamönnum"  sem harðast ganga fram í því að kalla sig Vestfirðinga og náttúruverndarsinna  nú þegar fiskveiðar eru nánast  liðin tíð þá  verður eitthvað að koma til  "það hljóta allir að  sjá "  ekki lifum við á  hreinu lofti einu saman  og við verðum löngu dauð úr hungri þegar "ferðamannastraumurinn" gefur nægilega mikið af sér

Halldór Þórðarson/dóritaxi, 25.2.2008 kl. 14:07

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Verst þykir mér, ef rússar fjármagna dæmið. Þá er Rússland komið með tangarhald á Vestfjörðum og geta hótað að leggja byggð þar í auðn, ef ekki verður gengið að þeirra kröfum.

Þeir eru þegar farnir að sveima hér í kringum miðin og láta vita af mætti sínum og megni.

Theódór Norðkvist, 25.2.2008 kl. 15:17

10 Smámynd: Bryndís G Friðgeirsdóttir

Fínn og upplýsandi pistill Ómar. Það er hægt að nálgast glærurnar frá málþinginu á heimasíðu Fjórðungssambands Vestfirðinga.  http://fjordungssamband.is/fv/stadarvalsverkefni/malthing/ 

Af hverju er Ólafur Hátækniiðnaður feiminn við að segja hvaða Rússar þetta eru?  Hafa Rússarnir frétt af því hve orka til stóriðju er ódýr á Íslandi? Ólafur sagði á þinginu að ÞEIR kæmu í mars. Ætli þeir verði í felubúningum merktum VIÐSKIPTALEYNDARMÁL.

Bryndís G Friðgeirsdóttir, 25.2.2008 kl. 16:03

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Kynnt eru áform um stórkarlalega töfralausn á byggðavandanum og tryggður stuðningur sveitarstjórna við þær".

Ef töfralausnir eru til, sem ég efast um, þá er stóriðja á Reyðarfirði það næsta sem því kemst. Það þarf auðvitað að liggja fyrir stuðningur íbúa og sveitarstjórna og það hefur ekki verið erfiður hjalli hingað til og óþarfi að gera þetta atriði tortryggilegt.

Það var alltaf vitað áhrif stóriðjunnar yrðu fyrst og fremst á Reyðarfirði og hjá næstu byggðakjörnum. Ekki nýjar eða sjokkerandi fréttir.

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.2.2008 kl. 19:53

12 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Takk fyrir góðan pistil, Ómar.

Úrsúla Jünemann, 25.2.2008 kl. 21:35

13 identicon

Við sem vonumst til að Vestfirðir verði stóriðjulausir hljóum að treysta því að eðlileg skynsemi stjórni framvindu þessa heimskulega máls.  Hvað er þessi Ólafur að vilja uppá dekk?  Er það hans eigin gróðavon sem kemur manninum til að hrinda þessari ógæfuhugmynd úr vör?  Og  sumir örvæntingarfullir íbúar grípa hálmstráið sem kannski er von.  Ekki undarlegt að menn vestra séu búnir að fá nóg af úrræðaleysi og klaufaskap stjórnvalda.  Það er alveg ótrúlegt hve ráðamenn stara á stóriðju í  landinu okkar.  Óskandi að þeir fari að hugsa og sjái að annað og betra er til.  Líta til annarrra kosta og sjái að landið er enn fagurt og frítt.  Ekki spilla því.

Auður (IP-tala skráð) 25.2.2008 kl. 21:43

14 Smámynd: Benedikt V. Warén

"Austfirska aðferðin til að koma á stóriðju, sem notuð er í olíuhreinstöðvamálinu á Vestfjörðum, er kunnugleg." segir Ómar.

Ég verð að segja ansi eru þessar línur Ómars kunnuglegar og þeirra, sem taka undir með honum.

Rúv er einnig farið að hljóma kunnuglega og "Náttúruvaktin" þar er tekin til starfa og áróðuskórinn farinn að æfa fyrir stóra verkefnið fyrir vestan.

"Það hefur nú komið á dagin og jaðarsvæðin verr sett en áður og áfram fækkar fólki í Austurlandsfjórðungi." heldur Ómar áfram.

Hér er billega skautað yfir sviðið og staðreyndir málsins ekki ekki tíundaðar.  Þeir sem hafa fylgst með fréttum vita að væntingar sem stóðu til fiskeldis, m.a. laxeldis á Djúpavogi eru að engu orðnar.  Niðurskurður hefur orðið á aflaheimildum og nú er í gildi bann við loðnuveiðum. 

Í þessu verkefni höfðu menn áhyggju af jaðarbyggðunum, en samt hafa menn þaðan verið að sækja vinnu til Reyðarfjarðar og ef hugmyndir um heilborun ganga á Austurlandi verða að veruleika, kemur samfélag eins og Seyðisfjörður sterkur inn í þetta verkefni.

Svo í lokin legg ég til að flugvöllurinn í Vatnsmýrinn verði óhreyfður til framtíðar og Egilsstaðaflugvöllur lengdur í 2700 metra.

Benedikt V. Warén, 25.2.2008 kl. 22:03

15 identicon

Fólk úr jaðarbyggðum Austurlands sækir vinnu til Reyðarfjarðar m.a. vegna þess að enga vinnu er að hafa í þar sem það býr.  Ekki endilega vegna þess að vill vinna í verksmiðju á Reyðarfirði.

Björgvin Valur (IP-tala skráð) 25.2.2008 kl. 23:08

16 Smámynd: Benedikt V. Warén

Duglegir menn (og konur) sækja vinnu þar sem vinnu er að hafa, ef ekki á Austurlandi, - þá jafnvel í Reykjavík.

Fólksflótti undanfarinna ára er sönnun þess, að á Austurlandi býr duglegt fólk, sem ógjarnan vill vera á bótum til að framfæra sér og sinni fjölskyldu.  Slíkar bætur eru þar að aukheldur þvílík hungurlús, að enginn getur lifað af þeim.

Auk þess er einnig ýmsa aðra vinnu að fá fyrir þá sem ekki vilja vinna í álverinu.  Mörg smærri fyrirtæki hafa opnað starfstöð á Reyðarfirði og þar er vinnu að hafa fyrir vinnufúsar hendur. 

   

Benedikt V. Warén, 25.2.2008 kl. 23:47

17 identicon

Hvert er þessi umræða að fara?

Ég var á fundinum á sunnudaginn og tók þar meðal annars eftir því að Ómar kom í salinn rétt í tæka tíð með mynddisk fyrir Berg. Því við sem sóttum fundinn á sunnudaginn á ísafirði fengum ekki að sjá það sama og þeir sem sóttu fundinn á laugardeginum á Bíldudal. Bergur þurfti víst að "laga til" staðreyndirnar sem hann lagði fram á laugardeginum. Ekki getur það verið að þeir sem gæta hagsmuna umhverfis umfram allt annað séu að leggja fram tölur/upplýsingar sem ekki standast. "Ég trúi því ekki"

Ég er búsettur á Þingeyri og hef fundið mína framtíðarvinnu á þessum spjallvef Ómars. Ég ætla að gerast húsvörður "sumarhúsana" en í dag eru 17 hús eða íbúðir sem ég skilgreini sem sumarhús og fólkið sem á húsin þarf örugglega að láta passa húsin sín, þá 8-9 mánuði sem þau eru ekki í  notkun.  Ég sé fram á að eftir örfá ár verður nóg að gera hjá mér að passa þau 160 hús eða íbúðir sem eru á Þingeyri og nágrenni.  Endilega hafið samband við mig þegar þið eruð búin að kaupa ykkur sumarhús hér.

Torfi Jó (IP-tala skráð) 26.2.2008 kl. 10:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband