12.3.2008 | 21:00
ALVEG ÖFUGT HJÁ MÉR OG ALBERTI.
Hræðsla Madonnu við að deyja á sviði er mér lítt skiljanleg. Ef ég mætti velja mér andlátsstað minn yrði sviðið ofarlega á blaði. Þegar Albert Guðmundsson spilaði með Stjörnuliðinu mínu í knattspyrnu þrýsti kona hans hart á mig að leyfa honum það ekki vegna þess að hann væri hjartveikur og það gæti kostað hann lífið.
Albert leit þveröfugt á málið. "Þetta er nokkuð sem ég vil fá að ráða sjálfur, " sagði hann, "ég heimta að fá að spila hvenær sem það er hægt. Hlustaðu ekki á hana. Ég get ekki hugsað mér yndislegri dauðdaga en að detta dauður niður með boltann á tánum fyrir troðfullu húsi."
Svo fór að Albert fékk kallið á biðstofu spítala og hvorki hann né kona hans fengu neinu ráðið um það.
![]() |
Óttast að deyja á sviðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.3.2008 | 20:45
LÖNGU TÍMABÆRT.
Það var löngu tímabært að reyna að rjúfa kyrrstöðuna í endursýningu leikins efnis í Sjónvarpi. Allt frá upphafi Sjónvarpsins 1966 hafa verið tekin þar upp mjög vel gerð leikverk og þótt þau væru svart-hvít fyrsta áratuginn gat þar að líta í mörgum tilfellum mjög mikla fagmennsku á öllum sviðum. Sem dæmi um það hve slæmt það var að þessi verk rykféllu áratugum saman má nefna að þegar Gísli Marteinn Baldursson var að gera hina skemmtilegu bók sína um topp tíu þetta og topp tíu hitt á Íslandi, bar hann undir lista sína undir ýmsa álitsgjafa.
Hann sýndi mér lista yfir tíu bestu karlleikarana og tíu kvenleikara og ég tók eftir því að enginn hinna eldri jöfra voru þar á blaði. Ég sagði við Gísla Martein að lágmark væri að Brynjólfur Jóhannesson væri á þessum lista. "Hver var hann?" spurði Gísli Marteinn, eðlilega, - hans kynslóð hafði aldrei séð neitt til þessa frábæra leikara og margra annarra sem léku í fyrstu sjónvarpsleikverkunum.
Ég svaraði að Brynjólfur hefði verið einhver fjölhæfasti leikari allra tíma á Íslandi, jafnvígur á dramatísk hlutverk og grínhlutverk. Þótt hann væri höfðuleikarinn hjá Iðnó eftir stofnun Þjóðleikhússins var talið óhjákvæmilegt að láta hann leika Jón Hreggviðsson í sýningu Þjóðleikhússins á Íslandsklukkunni og Jón bónda í Gullna hliðinu.
Enginn hefði síðan getað gert þetta eins vel og hann.
Það eitt að verið sé að reyna að koma hreyfingu á þessa hluti nú er gott. Nógu stórt menningarslys hefur þegar orðið.
![]() |
RÚV semur við félög leikara og tónlistarmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)