19.3.2008 | 17:05
ANAÐ ENN LENGRA FRAM ÚR SÉR !
Íslendingar fara æ lengra fram úr sér í glórulausri ásókn eftir að selja orku, þótt við blasi að langt sé frá því að hægt verði að standa við öll loforðin og viljayfirlýsingarnar um orkusölu sem bætast við nær daglega. Með nýjasta útspilinu um 135 megavött til REC í Þorlákshöfn nægir Bitruvirkjun meira að segja ekki til að útvega alla orkuna sem búið er að veifa framan í Helguvík og fleiri aðila.
Stefnt er að því markvisst og ákveðið að ekkert færi verði gefið á að halda þessum litla en umhverfislega mikilvæga hluta svæðisins ósnortnum.
Viðskiptaráðherra hefur lýst því hvað það sé gaman að vera í ráðuneyti þar sem er biðröð af kaupendum eftir orkunni og virðist ekki gera sér grein fyrir þeim vandræðum á alla lund sem það mun hafa í för með sér að ætla að þjóna þeim öllum, hvað þá því að standa við kosningaloforðin um allsherjar úttekt á íslenskum náttúrverðmætum áður en anað verður áfram.
Þau loforð eru í beinni mótsögn við útsöluæðið nú. Það er eins og sumir haldi að íslensk náttúruverðmæti hefjist ekki fyrr en höfuðborgarsvæðið er úr augsýn, en í raun liggur einstætt efni í eldfjallaþjóðgarð við fætur hins erlenda gests þegar hann stígur út úr Leifsstöð. Þar, fyrir norðaustan Mývatn og við Þjórsá er nú aðalátakasvæði jarðýtuhers virkjanasinna.
Innan fárra ára er ætlun þeirra að hinn erlendi gestur standi við Leifsstöð og horfi á annan endann á samfelldri 250 kílómetra röð stóriðjuvera, háspennulína, virkjana, stöðvarhúsa, stíflna og miklunarlóna sem endar ekki fyrr en upp á miðju miðhálendinu.
Ég vísa til fínnar úttektar í bloggi Dofra Hermannssonar um þetta orkuöflunarmál á Reykjanesskaga, sem sýnir vel þetta óðagot en vil bæta því við að ofan á allt þetta á að halda áfram að kreista tvöfalt meiri orku út úr þessum svæðum en þau afkasta til langframa.
"Endurnýjanlega orkan" endist ekki nema í 40 ár og við ætlum að kasta því yfir á herðar afkomendanna að ráða fram úr því. 40 ár er mjög stuttur tími. Það eru ekki nema 40 ár síðan virkjað var fyrst við Búrfell og eitthvað myndi hvína í tálknum okkar nú væri sú orka á fðörum og við þyrftum að finna jafnmikla orku annars staðar.
Sem fyrr er steinþagað yfir þessari staðreynd og væntanlega verður logið í Al Gore eins og alla aðra goðsögninni um endurnýjanlegu orkuna sem algilt og undantekningarlaust lögmál á Íslandi.
![]() |
REC Group til Ölfuss |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.3.2008 | 13:58
FLÓKIÐ OG ÞARF SKOÐUNAR.
Tvennum sögum fer af því hvort mismunur á kostnaði við loftraflínur og jarðlínur fari vaxandi eða minnkandi. Ef til vill skiptir leið jarðlína mestu máli vegna þess að óafturkræf umhverfisáhrif þeirra eru mun meiri en virðist í fljótu bragði.
Við framkvæmdir á ævinlega að gera skýran greinarmun á afturkræfum áhrifum og óafturkræfum og skoða möguleikann á því að hægt sé síðar að breyta öllu til baka í upprunalegt horf.
Það er hægt að orða það svo að sé loftlína lögð yfir úfið, ósnortið hraun, séu sjónræn áhrif mikil á meðan línan er ofanjarðar, en óafturkræf áhrif af loftlínu geta verið mun minni en af jarðlínu á sama stað, vegna þess að til þess að leggja línu í jörðu verður að umbylta hrauninu fyrst áður en mokað er yfir, og hið raskaða yfirborð hraunsins fæst aldrei til baka.
Óafturkræf áhrif af loftlínu felast aðeins undirstöðum mastranna, sem hugsanlega er hægt að flytja burt síðar. Með klaufagangi er að vísu hægt að valda miklu óþarfa raski en það er líka hægt við lagningu jarðlína.
Jarðlína er ekkert galdraorð sem leysir allan vanda.
Ef á annað borð eru lagðar jarðlínur ætti að keppa að því að leggja þær samhliða vegum til þess að skera ekki ósnortin svæði í sundur. Það getur kostað lengri línuleið og enn meiri mismun á kostnaði og þar stendur hnífurinn líklega í kúnni þegar á hólminn er komið.
Ekki virðist enn hafa verið mikil tilhneiging hér á landi gagnvart því að leggja línur framhjá viðkvæmu landi. Þannig var því hafnað fyrir tíu árum að leggja háspennulínu annars staðar en alveg við Ölkelduháls og mér skilst að beiðni um að leggja línu frá Þeystareykjum aðeins 1300 hundruð metrum lengri leið en virkjanaaðilar vildu til að þyrma merkilegu hrauni og gjám hafi verið hafnað af kostnaðarástæðum.
Og vel á minnst, Þeystareykir. Látið var í veðri vaka í upphafi að bortækni yrði þannig beitt á því svæði að ekki yrði borað alveg í miðju jarðhitasvæðisins þar sem það er fallegast. Náttúruverndarmenn dreymdi um skáborun en allir sem koma á svæðið sjá hvar aðalborholusvæðið er.
Þar, eins og við Sogin við suðurenda Trölladyngju, má sjá gróf dæmi um tillitsleysi virkjana- og rannsóknaraðila gagnvart náttúruverðmætum.
![]() |
Stjórnarformaður OR vill línur meira ofan í jörðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)