SKAÐLEG ÁSÆLNI RÍKISINS.

Ég heyrði útundan mér í útvarpi undan og ofan af kröfum ríkisins um þjóðlendur á sunnanverðu Miðnorðurlandi en nóg til þess að spyrja hvenær talsmenn ríkisvaldsins ætli að láta af endalausri kröfugerð sem stórskaðað hefur umræðu um flest varðandi nýtingu landsins. Þetta hefur reitt landsbyggðarfólk til reiði svo að margt af því fær grænar bólur þegar það heyrir orð sem byrja á "þjóð" svo sem þjóðlendur og þjóðgarðar.

Ekki er vafi á að þessi stanslausi málarekstur hefur tafið eðlilega framþróun í því sem ég vil kalla náttúruverndarnýtingu um mörg ár og sér ekki fyrir endann á því.

Þessi alltof harða ásælni hefur eðlilega hleypt illu blóði í dreifbýlisfólk og aukið á tortryggni þess gagnvart "kaffistofu-liðinu í 101 Reykjavík" eins og sumt landsbyggðafólk kallar þá sem búa á suðvesturhorni landsins.

Að mínum dómi eru kröfur um þjóðlendur á Tröllaskaga og á milli dala og byggða á Norðurlandi til þess eins fallnar að valda óþarfa úlfúð og deilum. Ég held að í grófum dráttum megi draga línu frá Kiðagili um Nýjabæjarfjall og vestur til Hrútafjarðar og láta af öllum kröfum um þjóðlendur fyrir norðan þá línu.

Reykvíkingar skildu loksins um hvað var að ræða þegar ríkið vildi rífa Esjuna af borgarbúum og Kjalnesingum og gera að þjóðlendu. Það sem talsmenn ríkisins vilja fyrir norðan er ekkert skárra og enginn endir virðist eiga að verða á óþarfa deilum og málarekstri af þessum toga sem hleypir illu í blóði í fólk .


HLIÐSTÆÐAN VIÐ 1947.

1947 tók við völdum ríkisstjórn sem hafði að baki sér 80% þingfylgi. Hún tók við þegar þjóðin hafði lifað langt um efni fram á valdatíma Nýsköpunarstjórnarinnar. Sú stjórn var að vísu stórhuga og hratt í framkvæmd mikilli og þarfri endurnýjun í sjávarútvegi og réttlátum endurbótum almannatrygginga. En hún sólundaði stríðsgróðanum og stakk höfðinu í sandinn varðandi óhjákvæmilegan samdrátt og erfiðleika í stríðshrjáðum ríkjum Evrópu, sem entist á tæplega áratug og hlaut að hafa áhrif hér á landi.

Fyrir bragðið fóru í hönd hafta- og skömmtunarár með tilheyrandi spillingarkerfi og stöðnun sem tók lungann af 20. öldinni að komast út úr.

Undanfarin ár hefur þjóðin lifað um efni fram í skjóli allt of hás gengis krónunnar og stóriðjuframkvæmda, sem ekki verður hægt að halda áfram endalaust og valda mun stórfelldri eyðileggingu á mestu verðmætum landsins, einstæðri náttúru þess.

Seyðið af því munu börn okkar og afkomendur súpa þegar ekki verður neitt meira eftir til að virkja.

Stefaníu-stjórnin 1947-49 hefur hlotið þunga dóma en Nýsköpunarstjórnin notið glansmyndarinnar sem heillandi persónuleiki og stjórnkænska Ólafs Thors hefur lyft undir. Fyrr eða síðar þarf sú stjórn  að sæta endurmati hvað varðar mikið fyrirhyggjuleysi gagnvart fyrirsjáanlegum enda eyðslufyllerísins fyrstu árin eftir stríð.

Stjórnirnar sem tóku við lögðust lágt þegar þær sugu út úr Bandaríkjamönnum meiri Marshallaðstoð miðað við fólksfjölda en nokkur önnur þjóð fékk. Höfðum við þó einir þjóða grætt á stríðinu en aðrar þjóðir goldið hræðilegar fórnir.

En þessar ríkisstjórnir voru í raun að fást við timburmenn Nýsköpunarstjórnarinnar og var að því leyti til vorkunn.

Nú er komin til valda ríkisstjórn sem nýtur álíka yfirburða í þingfylgi og stjórnirnar frá 1947-56. Ef allt væri með felldu væri hún nú á kafi upp fyrir haus að fást við timburmenn neyslufyllerís undanfarinnar ára. En ekki er að sjá að svo sé.

Einu ráðin virðast vera framlenging fyllerísins með aðgerðarleysi og óbreyttri stóriðjustefnu sem líkja má við það að pissa í skó sinn.  

 


mbl.is Mesta verðbólga í 6 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SKÁSTA SKATTHEIMTAN.

Afstaða okkar Íslendinga til eldsneytisverðs er full af mótsögnum. Við mótmælum hástöfum ört hækkandi eldsneytisverði á sama tíma og innflutningur stórra og eyðslufrekra bíla nær nýjum hæðum. Jafnframt berjum við okkur á brjóst í stjórnarsáttmála og þykjumst ætla að verða fyrirmynd annarra þjóða um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Í skoðankönnunum vilja 70% þjóðarinnar lækkun opinberra gjalda en sömu 70% vilja aukna þjónustu ríkisins. Í stjórnarsáttmála stjórnar, sem hefur fylgi 70% þjóðarinnar, er rætt um endurskoðun gjalda á bílaflotannn meðal annars til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Mótsögnin í hneykslun Íslendinga á háu eldsneytisverði felst í því að losun gróðurhúsalofttegunda er að mestu í réttu hlutfalli við notkun eldsneytisins sem heimtað er að verðið sé lækkað á svo að við getum notað enn meira af því og keypt okkur enn fleiri og stærri bíla.

Ég veitti fjármálaráðuneytinu á sínum tíma fyrstu ráðgjöfina um mismunandi gjöld á bíla eftir stærð og vissi vel að það er sama hve mikið menn reyna að búa til skynsamlegt kerfi um þessi atriði, byggt á stærðum bíla og véla, - að það verður ævinlega reynt og hægt að misnota það. ´

Á einhverjum svæðum slíks kerfis verður ávallt innbyggt ranglæti.

Þrátt fyrir allt eru að mínum dómi aðeins þrjár aðferðir skástar til að koma böndum á bruðl okkar sem sprengir gatna- og vegakerfið og eykur útblástur gróðurhúsalofttegunda:

1. Eldsneytisverð. Réttlátasta skattheimtan, gjaldið borgað beint við bensíndæluna, engin undanskot né skattsvik og sá borgar mest sem notar mest.

2. Koltvísýringsgjald, sem greitt er í réttu hlutfalli við útblástur koltvísýrings.

3. Lengdargjald, sem miðast við lengd bíla, þ. e. hve mikið rými þeir taka í umferðinni. Sá borgar mest sem tekur mest rými af dýru malbiki og stuðlar með bruðli sínu að nauðsyn þess að gera dýr mislæg gatnamót fyrir bíladrekana. Án þess að íþyngja vegfarendum myndi stytting meðalbílsins um aðeins hálfan metra (Úr Corolla/Avensis niður í Yaris) losa 50 kílómetra af malbiki á dag á Miklubrautinni einni.

Ég tel mig vera að verja bílismann með ofangreindum tillögum því að núverandi þróun stefnir umferðarmálum okkar í augljóst óefni og mun á endanum stúta frjálsum samgöngum.  

Raunar væri árangursríkara að hækka álög á eldsneyti og minnka gjöld á innflutning bíla til að greiða fyrir hraðari endurnýjun bílaflotans með styttiri, öruggari og sparneytnari bílum.

Undanfarin ár hefur þjóðin lifað um efni fram í skjóli allt of hás gengis íslensku krónunnar. Nú berjast menn um á hæl og hnakka við að reyna að viðhalda þessu í stað þess að horfast í augu við þá staðreynd að fylleríinu verður að ljúka.

Þorsteinn Pálsson tekur undir það í ritstjórnargrein að nú vanti tafarlausa innspýtingu fjárfestinga og veltu með nýjum stóriðjuframkvæmdum.

Einn af ráðherrunum fyrir tíu árum sagði við mig að slíkt yrði að halda áfram stanslaust til að koma í veg fyrir kreppu og atvinnuleysi.

Þegar ég spurði á móti hvað ætti að gera þegar ekkert væri eftir til að virkja svaraði hann: Það verður viðfangsefni þeirrar kynslóðar, sem þá verður uppi. Sem sé, vandanum velt á þann yfirgnæfandi hluta kjósenda sem enn er ófæddur eða á barnsaldri.

Mikil reisn og réttlæti, ekki satt?


mbl.is Lokun vegarins háalvarlegt mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. mars 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband