29.3.2008 | 22:59
SKIPTAR SKOÐANIR.
Ísleifur Jónsson er einn af reyndustu verkfræðingum þjóðarinnar á sviði jarðborana. Hann hefur áður varað við göngum út í Vestmannaeyjar á svipuðum forsendum og hann varar við Sundagöngum. Hann tók vandræðin við jarðgöng Kárahnjúkavirkjunar sem dæmi um áhættu við jarðgangagerð á eldvirka beltinu. Hins vegar hef ég heyrt aðra verkfræðinga andmæla sjónarmiðum Ísleifs, til dæmis varðandi jarðgöng til Eyja.
Hin vel heppnuðu Hvalfjarðargöng eru norðan við skil eldvirka beltisins og hins eldra svæðis. Sennilega hefur verið mikil lukka yfir því hve lítið Hvalfjarðargöng láku og ég hef heyrt þá útskýringu að menn hafi hitt þráðbeint inn í miðju á á þykku bergi.
Sundabraut með brú yrði tilkomumikið mannvirki og hægt að meta gott útsýni af brúnni til fjár. En vel þyrfti að ganga frá því að ekki yrði of hvasst á henni og marga daga. Brúarlausnin er ódýrari en gangaleiðin.
Borgarstjórn Reykjavíkur hefur einróma viljað gangaleiðina. En alltaf má staldra aðeins við og ræða mismunandi sjónarmið.
![]() |
Varar við Sundagöngum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
29.3.2008 | 14:02
VEGVÍSIR BJÖRNS OG ÍSLANDSHREYFINGIN.
Þegar talsmaður Íslanndshreyfingarinnar lýsti því í umræðuþætti í sjónvarpi um utanríkismál fyrir síðustu kosningar að hreyfingin vildi setja aukinn kraft í það starf sem þyrfti til að þjóðin væri vel undirbúin ef sú staða kæmi upp að nauðsynlegt þætti að sækja um aðild að ESB varð það að aðalfrétt í seinni fréttatíma Sjónvarpsins að hreyfingin vildi tafarlausa inngöngu í ESB.
Daginn eftir fór Staksteinahöfundur hamförum í Morgunblaðinu um þetta sama og bætti því við að þetta væri í algeru ósamræmi við það að viðhalda sjávarútvegi á forræði Íslendinga vítt og breitt um landið. Tilgangur Staksteinahöfundar var augljóslega sá að sá fræjum tortryggni í garð I-listans úti á landi og eins og oft vill verða voru tilraunir okkar til að koma hinu rétta á framfæri með því að vitna í stefnuskrá okkar ekki taldar sömu stórfréttirnar og slegið hafði verið upp.
Nú hefur brugðið svo við að Björn Bjarnason hefur sett fram hugmyndir um "vegvísi" til að styðjast við ef með þyrfti vegna inngöngu í ESB. Þessar hugmyndir Björns eru mjög á sama veg og hugmyndir I-listans voru og taka mið af því að inngönguferlið í ESB getur tekið mörg ár og að mjög slæmt væri ef það ferli yrði óþarflega langt vegna þess að við hefðum ekki unnið heimavinnuna okkar áður.
Engar upphrópanir hef ég séð í Staksteinum vegna þessa enda ekki kosningar á næsta leiti. Hitt er gott að nú skuli einstakir menn í innsta hring Sjálfstæðisflokksins, sem afneitað hafa því staðfastlega að innganga í ESB væri til umræðu, vera farnir að fikra sig í átt til stefnuskár I-listans um þetta efni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.3.2008 | 12:15
FRÁBÆRT SVÆÐI.
Landmannalaugasvæðið að vetrarlagi er gimsteinn sem allt of fáir hafa kynnst. Svæðið þolir mun meiri fjölda ferðamanna að vetrarlagi en nú ef þess er gætt að dreifa umferðinni. Þannig er afburða falleg leið inn að Langasjó, yfir að Sveinstindi og síðan til baka, - einnig inn í Jökulgil og upp í Hrafntinnusker.
Hlýnun loftslags hefur að vísu sett nokkurt strik í reikninginn undanfarna vetur en þetta svæði liggur svo hátt yfir sjó, að aukin úrkoma, jafnvel í hlýrra veðri en áður, verður að snjókomu og yfirleitt mikilli snjókomu. Þetta er venjulega eitthvert snjóþyngsta svæði landsins og getur verið þungamiðjan í sókn íslenskrar ferðaþjónustu í þann markhóp, sem þyrpist hundruðum þúsunda saman lengri vegalengd en til Íslands, þ.e. til Lapplands.
Tímabilið frá miðjum mars til byrjunar maí er besta ferðatímabilið. Sólargangur er orðinn langur og veður og vindar skaplegri en um miðjan vetur.
![]() |
Blíðviðri á hálendinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)