VEGVÍSIR BJÖRNS OG ÍSLANDSHREYFINGIN.

Þegar talsmaður Íslanndshreyfingarinnar lýsti því í umræðuþætti í sjónvarpi um utanríkismál fyrir síðustu kosningar að hreyfingin vildi setja aukinn kraft í það starf sem þyrfti til að þjóðin væri vel undirbúin ef sú staða kæmi upp að nauðsynlegt þætti að sækja um aðild að ESB varð það að aðalfrétt í seinni fréttatíma Sjónvarpsins að hreyfingin vildi tafarlausa inngöngu í ESB.

Daginn eftir fór Staksteinahöfundur hamförum í Morgunblaðinu um þetta sama og bætti því við að þetta væri í algeru ósamræmi við það að viðhalda sjávarútvegi á forræði Íslendinga vítt og breitt um landið. Tilgangur Staksteinahöfundar var augljóslega sá að sá fræjum tortryggni í garð I-listans úti á landi og eins og oft vill verða voru tilraunir okkar til að koma hinu rétta á framfæri með því að vitna í stefnuskrá okkar ekki taldar sömu stórfréttirnar og slegið hafði verið upp.

Nú hefur brugðið svo við að Björn Bjarnason hefur sett fram hugmyndir um "vegvísi" til að styðjast við ef með þyrfti vegna inngöngu í ESB. Þessar hugmyndir Björns eru mjög á sama veg og hugmyndir I-listans voru og taka mið af því að inngönguferlið í ESB getur tekið mörg ár og að mjög slæmt væri ef það ferli yrði óþarflega langt vegna þess að við hefðum ekki unnið heimavinnuna okkar áður.

Engar upphrópanir hef ég séð í Staksteinum vegna þessa enda ekki kosningar á næsta leiti. Hitt er gott að nú skuli einstakir menn í innsta hring Sjálfstæðisflokksins, sem afneitað hafa því staðfastlega að innganga í ESB væri til umræðu, vera farnir að fikra sig í átt til stefnuskár I-listans um þetta efni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Jón og séra Jón. Ég er ekki fylgjandi inngöngu, en það er auðvitað rétt að skoða málið og vita af hverju.

Annars er það af tækifæsissinnaða Mogganum og Vísi að frétta að þeir birtu ekki fréttatilkynningu Tíbetsvina, samkvæmt þessari færslu Birgittu Jónsdóttur. Stundum er fjölmiðlum ritstýrt of mikið, það er birt sem kemur sér vel og restinni sleppt.

Villi Asgeirsson, 29.3.2008 kl. 14:12

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er Sjálfstæðismaður, ef það skyldi hafa farið frá hjá einhverjum en ég sé ekkert að því að það sé skoðað af fullri alvöru að sækja um inngöngu í ESB. Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að hafa upplýsta afstöðu til málsins öðruvísi en allt liggi á borðinu? Ég hef ekki séð nærri nógu mörg rök, hvorki með eða á móti aðild.

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.3.2008 kl. 17:21

3 identicon

ha ertu sjálfstæðismaður ? Hélt einhvern veginn að þú værir vinstri grænn, ertu ekki að meina hægri grænn ?

Knud (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 20:31

4 Smámynd: Sævar Helgason

Ef fer sem nú horfir í okkar efnahagsmálum > 20 % vextir + 20-30 % hækkun á nauðsynjavörum , verðbólga í 2ja stafatölu - verðfall á fasteignamarkaðinum og jafnvel að sparifé landsmanna verði hirt til björgunar á hinu nýeinkavædda bankakerfi... er þá ekki líklegt að uppreisn verði í landinu- Íslenska byltingin (sbr franskabyltingin)  Stórhluti þjóðarinnar hefur þá engu að tapa nema skuldahlekkjunum sem margir eru búnir að koma sér í til lífstíðar ,að óbreyttu.

Það má velta þessu fyrir sér eins og öðru.

Verðum við ekki nú þegar að tengja okkur við evruna og reyna að bjarga því sem bjargað verður ? 

Sævar Helgason, 29.3.2008 kl. 20:50

5 identicon

Jú Sævar þetta er mikið rétt hjá þér, og hreint alveg furðulegt að eftir að vera með þvílíkan uppgang hér, stóriðjuframkvæmdir, sala á gulleggjum og í raun allt sem ætti að gera að við værum í mjög svo góðum málum, þá er allt sem viðkemur hinum almenna borgara í hinum verstu málum, hæstu vextir sem þekkjast, almenningur borgar hutfallslega hærri  skatta en áður, heislugæslan í fjársvelti, mikilvægar þjóðbrautir drápsgildrur, löggæsla í molum vegna peningaskorts, kvótakefi sem lokar á alla nýliðun en hefur samt aukið skuldir um 200 milljarða og gengið frá þorskstofninum, og margt sem mætti benda á til viðbótar. Merkilegt að men skuli ennþá hreykja sér af að vera sjálfstæðismenn, eða samfylkingarfólk, ekki hótinu betra, en alltaf slatti af nytsömum sakleysingjum sem sjá með öðru auganu og halda að þetta sé fótboltaleikur og þú standir með þínum mönnum, auðvitað er svona "liði" vorkunn.

Knud (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 21:27

6 identicon

          Lýðveldið Ísland og Evrópusambandið
  



Hæstvirtur forsætisráðherra Davíð Oddsson fór fyrst fyrir ríkisstjórn 1991 þá í samstarfi með Alþýðuflokknum (Samfylkingin). Formaður Alþýðuflokksins var Jón Baldvin Hannibalsson og jafnframt utanríkisráðherra í þeirri ríkisstjórn. Hún gekk undir nafninu Viðeyjarstjórnin.

Á þeim tíma leiddi Jón Baldvin þá vinnu að koma í höfn samningi um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og við þau tímamót þegar skrifað var undir samninginn lét ríkisstjórnin í það skína að við Íslendingar hefðum fengið nánast allt fyrir ekkert og velmegun myndi aukast verulega þegar fram liðu stundir.

Andstæðingar aðildar vildu láta reyna á tvíhliða viðræður við Evrópusambandið (ESB) um samning sem yrði svo hægt að auka að efni til eftir atvikum. Þeir sem voru á móti EES samningnum töldu hann ekki verða til góðs því með honum yrðu tekin tvö skref af þremur inn í ESB sem hefði í för með sér brot á fullveldisákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar.

Annað ákvæði í EES- samningnum um frjálst fjármangsflæði milli aðildarríkjanna skipti sköpum og fullveldissinnar treystu því ekki að okkar litla hagkerfi stæðist ágang erlends fjármagns og myndi því hreinlega sogast inn í hringiðu hagkerfis Evrópusambandslandanna. Þetta myndi leiða til þess að Íslendingar misstu efnahagslegt sjálfstæði sitt í framtíðinni.

Eins og sjá má á þjóðmálaumræðunni í dag hafa erlendar skuldir landsmanna vaxið langt umfram getu okkar litla hagkerfis eftir inngönguna í EES og hafa þær aldrei verið meiri. Góðæriskenningin á sínar rætur frá þessari þróun, skuldir undirstaðan þó þeirra væri aldrei getið í sjálfum málflutningnum þ.e.a.s. þeirra sem studdu EES samninginn. Sannarlega hafa þær verkað sem driffjöður á lífæð hagkerfisins hér á landi, já, hér er verið að tala um skuldir, sem jafnframt hafa verið stór þáttur stöðugleikans, svokallaða.

En hvar er hin raunverulega framleiðni? Uppsveifluna í efnahagslífinu má rekja að mestu leyti til uppbyggingar á Stór- Reykjavíkursvæðinu sem varð til vegna landsbyggðarflóttans sem hefur verið mikill síðustu tvo áratugina. Hornsteinn þessarar þróunar, (landsbyggðarflóttinn annars vegar og fjármagnsstreymið til uppbyggingar hér syðra hins vegar) var lagður með kvótabraskkerfinu sem tryggt var svo í sessi með aðildinni að EES samningnum, áratug síðar. Þetta gerði hinum fáu útvöldu kleift að fjármagna mestu búsyfjan af mannavöldum í sögu þjóðarinnar.

Alls kyns spákaupmennska hefur rutt sér til rúms síðustu árin þar sem arður er gerður úr væntingum og greiddur út í milljörðum til réttra aðila. Þetta hefur verið að gerast í íslensku atvinnulífi og nú síðast í sjávarútveginum á Akureyri, svo tekið sé dæmi. Sameiningarferli íslenskra fyrirtækja undir nafninu ,,Hagræðing” er eingöngu til þess fallið að fyrirtækin geti haldið sjó á meðan þau eru að ná þeim stærðum á markaðinum að þau verði góður fjárfestingarkostur fyrir stóru erlendu fjárfestana sem bíða handan við hornið.

Lykilinn til að ná þessum markmiðum endanlega er innganga okkar í ESB svo að erlendir fjárfestar geti eignast hér áhrif og völd í framtíðinni í okkar annars auðuga landi. Með inngöngunni myndu hinir fáu útvöldu áskotnast mikið fé við að selja auðlindir íslensku þjóðarinar ásamt réttindum til lands og sjávar sem þeir hafa verið að söðla undir sig síðustu misserin geng vilja þorra landsmanna.

Íslenskum útflutningsfyrirtækum er fyrirmunað að stunda sjálfbæran og heilbrigðan atvinnurekstur svo sem í sjávarútvegi og iðnaði. Þau heyja allt að því vonlausa baráttu vegna kvótabraksins og hátt gengis íslensku krónunnar en í staðinn hefur rekstrargrundvelli þeirra verið haldið gangandi með stöðugu flæði af erlendu lánsfé inn í hagkerfið. Gjaldþrot hafa verðið með mesta móti á síðasta ári og sér ekki fyrir endann á þeirri óheilla þróun.

Samtök iðnaðarins hafa staðfest flótta iðnfyrirtækja frá Íslandi. Þreytumerki hafa líka komið fram hjá fyrirtækjum sem framleiða gjaldeyrissparandi vörur fyrir innanlandsmarkað og eru í samkeppni við innfluttar vörur sem eru ódýrari en ella vegna gjaldeyrisútsölunnar. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins Sveinn Hannesson vísaði til þeirra staðreynda í Viðskiptablaði Mbl. 26. febrúar s.l. þegar hann sagði að mörg fyrirtæki væru í rekstri þrátt fyrir að í raun væru þau löngu orðin gjaldþrota. Þar kom einnig fram að Samtök iðnaðarins teldu að full aðild að ESB og upptaka evru væri besta vörnin til að bæta markaðsstöðu íslenskra útflutningsfyrirtækja.

Hér ber að hafa í huga þegar Íslendingar gerðust aðilar að EES samningnum töldu sömu aðilar að stigið hefði verið eitt stærsta skref til sóknar fyrir atvinnulífið hér á landi. Stundum verður manni á að þekkja ekki muninn á vörn og sókn þegar kemur að framsetningu markaðsmála.

Matarbúr landsmanna, íslenski landbúnaðurinn, sem er einn stærsti öryggisþáttur í almannavörnum þjóðarinar, vegna legu landsins sem eyríki, er í hættu vegna áhrifa frá Evrópusamrunnanum. Hörðustu stuðningsmenn aðildar að ESB er að finna í Samfylkingunni og vilja þeir hefja aðildarviðræður sem fyrst. Framsóknarflokkurinn er líklegastur ásamt Samfylkingunni að vera í þeirri ríkisstjórn sem myndi samþykkja inngöngu okkar inn í Evrópusambandið.

Hæstvirtur utanríkisráðherra Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, sem settist í stól fyrirrennara síns Jón Baldvins hefur verið að undirbúa jarðveginn fyrir seinni áfangann að Ísland geti tekið þriðja skrefið inn í ESB. Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála í umræðunni um ESB hér á landi eftir að verðandi forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson tekur við starfanum 15 september n.k úr hendi núverandi hæstvirts forsætisráðherra Davíðs Oddssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu sjómannadaginn 6.júni 2004

P.S Fullveldi er hrein sál í hjarta þjóðarinar.ESB aðild er sama og selja aðgang að sálu sinni.

B.N. (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 23:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband