30.4.2008 | 22:40
Áminning fyrir "íslensku leiðina".
Hvergi er lengri vinnutími en hjá Íslendingum. Það er vegna þess að grunnlaunum er haldið í lágmarki en í staðinn er það bætt upp með óhóflegri yfirvinnu. Aðrar þjóðir forðast þetta og vinnutilskipun ESB er ekki út í bláinn. Hún á að tryggja að í vandasömum nákvæmnisstörfum, ekki hvað síst þar sem um líf og limi fólks er að tefla, sé hætta á mistökum þreytts fólks haldið í lágmarki.
Í Landsspítaladeilunni glytti í þetta í gegnum hið flókna kerfismál sem almenningur skildi ekki. Upptaka vinnutímatilskipunar ESB hefði haft lækkun meðaltalslauna hjúkrunafræðinga í för með sér. Þeir áttu sem sagt að borga kosntaðinn.
Lengst af starfsævi minni hef ég unnið í harðri og hraðri fréttamennsku á tólf tíma vöktum og veit hve það kallar mjög á mistök. Þetta er ekki gott í fréttamennsku en getur verið banvænt í nákvæmnisstörfum heilbrigðisstétta þar sem engu má oft skeika.
Nýlega hef ég farið í gegnum nákvæmnisaðgerðir á spítala og skynjað þetta. Hvert tapað mannslíf á íslandi kostar að meðaltali 200 milljónir króna og er ómetanlegt tilfinningalegt tjón þá ekki meðtalið.
Ég sé menn stökkva upp og hrópa við tíðindin af LSH: Svona á að taka þetta! Aldrei að víkja frá ítrustu kröfum! Ég er ekki einn af þeim sem set allar kröfugerðir undir sama hatt. Það verður að vera skynsemi á bak við kröfur og það var það í þetta sinn og gott að hægt var að lenda málinu og öllum til sóma sem að því stóðu.
Eftir situr að fyrst það stendur í stjórnarsáttmála að rétta skuli hlut kvennastétta er tvöföld ástæða til þess að ríkið borgi kostnaðinn af nauðsynlegum öryggiskröfum í vinnufyrirkomlagi.
Hvíldartímaákvæði ESB um vöruflutningabílstjóra snýst um öryggi vegfarenda. Ef það kostar peninga að tryggja það öryggi þá verður að hækka flutningsgjöldin. Í sífellt flóknara og tæknivæddara þjóðfélagi er leið óhóflegs og hættulegs vinnuálags fyrir löngu búin að ganga sér til húðar og hefur þegar valdið miklum skaða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
30.4.2008 | 22:12
!
Hvergi er vinnutími eins langur og á okkar landi. Þetta hefur skapast vegna "íslensku leiðarinnar" að halda grunnlaunum í skefjum en bæta það upp með aukavinnu. Ef allir hinir flóknu þættir Landsspítalamálsins eru síaðir út skín íslenska leiðin í gegn, fólk vinnur lengur en sæmandi er og þar með er öryggi sjúklinganna teflt í tvísýnu.
Vinnutímatilskipun ESB, svo sem um hámarkslengd vakta, er ekki til orðin að ástæðulausu. Störf lækna og hjúkrunarfræðinga eru nákvæmnisstörf þar sem ekkert má oft út af bera. Ég hef sjálfur unnið á tólf tíma vöxtum í harðri fréttamennsku og þekki þau mistök sem langar og erfiðar vaktir kalla á og hve fráleitt það er að fara fram á lengri vaktir. Frekar ætti að stytta þær.
Það er skárra að slík mistök gerist í fréttamennsku heldur en í meðferð sjúklinga.
Að undanförnu hef ég gengist undir aðgerðir á spítala þar sem ekki hefur mátt neinu skeika í aðgerðum.
Ríkisstjórnin segist í stjórnarsáttmála vilja bæta hlut kvennastétta. Ég fæ ekki betur séð en að vinnutilskipun ESB hefði lækkað meðaltalslaun hjúkrunarfræðinga þannig að þeir áttu að borga fyrir aukið öryggi sjúklinga.
Hvíldartilskipun ESB í vöruflutningaakstri er af sama toga, snýst um öryggi vegfarenda og líf og limi þeirra.
Hvert mannslíf sem tapast vegna mistaka kostar þjóðfélagið að meðaltali 200 milljónir króna. Ótalið er annað tjón sem ekki er hægt að meta í peningum.
Lausn þessarar deilu þýðir ekki að ævinlega eigi að beygja sig fyrir ósveigjanlegum kröfum. Ég er ekki í hópi þeirrra sem stekkur nú á fætur og hrópar: Svona á að taka þetta! Aldrei að víkja! Það þarf ævinlega að vera skynsemi með í för og það á við um þessa lausn. Kosti skynsamleg lausn hærri launakostnað fyrir ríkissjóð verður svo að vera og kosti það hærri flutningsgjöld í vöruflutningum að bílstjórar séu ekki útkeyrðir verður svo að vera.
![]() |
Vaktakerfið dregið til baka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.4.2008 | 14:05
Nítjándu aldar málsmeðferð hingað til.
Nú er liðin vika síðan átökin frægu urðu við Rauðavatn og þær fréttir berast að allsherjarnefn Alþingis, sem tekið hefur málið til skoðunar, sé ekki enn komið með myndband í hendur. Ég fullyrði að án myndbandsupptöku er tómt mál að fjalla um þessa atburði. Á fundinum, sem allsherjarnnefnd hélt með deiluaðilum sögðu þeir báðir frá atburðum frá sínum sjónarhóli án þess að hægt væri að nýta sér kosti tækninnar og skoða hvað þeir voru að tala um, biðja um útskýringar og sannreyna framburðinn eftir því sem tök voru á.
Sem sagt, þetta var að mestu ónýt nítjándu aldar málsmeðferð og þýðir væntanlega annan fund með aðilum þegar myndbandið verður komið og þar með var hinn fyrri fundur ónýtur að miklu leyti og málið dregið á langinn.
Við skoðun á þeim hluta atburðanna, sem sýndir voru í sjónvarpsfréttatímum og þáttum var hægt að fá býsna skýra mynd af nokkrum atriðum sem skipta máli og sýna mistök og röng viðbrögð á báða bóga.
Þegar brununum á Mýrunum lauk hér um árið voru eldar varla slokknaðir þegar beðið var um allt tiltækt myndefni yfir þá.
Það er komin 21. öldin og það á að vera hægt að afgreiða svona áilitamál á mun markvissari, öruggari og meira upplýsandi hátt en á 19. aldar árum Alþingis. Það er gert með því láta öflun grundvallargagna hafa forgang.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.4.2008 | 13:50
Veldur hver á heldur.
Margar af merkustu uppgötvunum mannsins hafa falið í möguleika til góðra nota og illra. Eldurinn, púðrið, dínamitið, sprengihreyfillinn, skriðdrekinn, flugvélin, þotan, eldflaugin og kjarnorkan eru góð dæmi. Ófullkominn maðurinn hefur oft staðið álíka gagnvart þessu og barnið sem kemst yfir hníf, rakvélablað eða skæri í fyrsta sinn.
Ekki er við vísindamennina eða þá sem vildu nýta þessar uppgötvanir til góðs að sakast og Nobel, Oppenheimer og Hofman höfðu mikla andlega raun af því að sjá hvernig farið var með verk þeirra. Nobel reyndi friðþægingu verðlauna sinna og Oppenheimer kom sér í ónáð hjá ráðamönnum. Hofman grunaði ekki afleiðingar LSD-neyslu og hefði varla geta látið sig óra fyrir öllm þem órum og róti sem uppgötvun hans færði mannkyninu.
Til framtíðar verður "sýrð" tónlist sjöunda og áttunda áratugar síðustu aldar minnisvarði um tíma barnaskaparins varðandi LSD, sem glyttir víða í, oft í tvíræðum dulbúningi eins og nafni plötu Stuðmanna "Sumar á Sýrlandi."
![]() |
Maðurinn sem fann upp LSD látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.4.2008 | 04:23
Ekki sjálfsagt mál.
Ef forsendur og útkoma könnunar á fjölmiðlafrelsi í mismunandi löndum standast getum við Íslendingar þakkað okkar sæla fyrir hana. Það leiðir hugann að því að fyrir fjórum árum gerði Davíð Oddsson hatramma atlögu að því ástandi sem nú ríkir í íslenskri fjölmiðlun. Þessari atlögu hans var sem betur fer hrundið.
Þetta ástand hefur ekki ríkt alla tíð. Davíð vildi vafalaust koma aftur á því ástandi sem ríkti nokkrum árum fyrr þegar Morgunblaðið og DV réðu ríkjum undir forystu afla, sem voru handgengin þáverandi ríkisstjórn.
Sagnfræðinga framtíðarinnar munu vafalaust undrast sá munur sem var á stjórnarháttum Davíðs sem borgarstjóra og forsætisráðherra á árunum 1982-1999 og síðan á tímabilinu 2000-2005. En sú dæmalausa 17 ára sigurganga hans á fyrra tímabilinu virtist verða honum um megn.
Þetta er þekkt fyrirbrigði. Völd spilla jafnvel afburðamönnum og það er ekki að ástæðulausu sem forseti Bandaríkjanna hverju sinni fær ekki að sitja nema í átta ár.
![]() |
Mesta fjölmiðlafrelsið á Íslandi og Finnlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.4.2008 | 01:57
"Þá vil ég frekar deyja!"
Deilur í heilbrigðiskerfinu eru slæmar og gott að ró hefur fengist á Blönduósi í minni gömlu heimasveit, en ég var í fimm sumur að Hvammi í Langadal.
Þar á bæ fengu þrír niðursetningar, móðir með tvær dætur sínar, fyrir gæsku frænku minnar að vera í gömlum torfbæ og varð ein þeirra óvart fyrir slæmum hremmingum af minni hálfu, sem nánar er lýst í bókinni "Manga með svartan vanga."
Síðar var hún í elli sinni sett á héraðshælið á Blönduósi þar sem hún fékk eitt sinn svo heiftarlega ígerð að rætt var um að senda þyrfti hana suður til Reykjavíkur. Kveið kerling því óskaplega þar sem hún lá í hálfgerðu óráði enda hafði hún aldrei út fyrir héraðið komið.
En ástandið breyttist þegar í ljós kom að nýr héraðslæknir, sem var rétt að taka við starfi þarna gæti skorið hana upp og var farið að rúmi kerlu til að segja henni þessi gleðitíðindi. Það ljómaði bros á fölum vörum hennar þegar hún spurði: "Og hvað heitir nú þessi höfuðsnillingur?"
"Ómar Ragnarsson," var svarið. Þá reis kerla upp í rúminu, hvít af skelfingu með sóttheit augun sem á stilkum og hrópaði: "Nei! Nei! Nei! Aldrei í lífinu! Þá vil ég frekar deyja!"
Ég lái henni það ekki enda hef ég ætíð verið þakklátur fyrir að hafa ekki reynt fyrir mér í læknislistinni. Svo fór að nafni minn skar kerlu þegar henni hafði verið gerð nánari grein fyrir málinu og barg lífi hennar.
Mér rennur því bóðið til skyldunnar að árna nafna mínum og öllum nyrðra heilla með lausn mála.
![]() |
Læknar starfa áfram á Blönduósi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.4.2008 | 01:39
20. barnabarnið.
Alma, dóttir okkar Helgu, fæddi manni sínum, Inga R. Ingasyni í gær 20. barnabarn okkar hjóna og eru afkomendurnir þar með orðnir 27. Þetta er rauðhærður drengur sem starði nýfæddur með galopnum, bláum augum sínum á heiminn, sem hann var kominn inn í, alveg eins og sagt var að hinn rauðhærði afi hans hefði gert fyrir 67 árum. Drengurinn fæddist á afmælisdegi Jónínu, dóttur okkar, á svipaðan hátt og ég sjálfur fæddist á afmælisdegi Jónínu, móður minnar.
Enn einu sinni er fjölskyldu okkar færð mikil og sönn gleði. Er ekki lífið dásamlegt?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)