!

Hvergi er vinnutími eins langur og á okkar landi. Þetta hefur skapast vegna "íslensku leiðarinnar" að halda grunnlaunum í skefjum en bæta það upp með aukavinnu. Ef allir hinir flóknu þættir Landsspítalamálsins eru síaðir út skín íslenska leiðin í gegn, fólk vinnur lengur en sæmandi er og þar með er öryggi sjúklinganna teflt í tvísýnu.

Vinnutímatilskipun ESB, svo sem um hámarkslengd vakta, er ekki til orðin að ástæðulausu. Störf lækna og hjúkrunarfræðinga eru nákvæmnisstörf þar sem ekkert má oft út af bera. Ég hef sjálfur unnið á tólf tíma vöxtum í harðri fréttamennsku og þekki þau mistök sem langar og erfiðar vaktir kalla á og hve fráleitt það er að fara fram á lengri vaktir. Frekar ætti að stytta þær.

Það er skárra að slík mistök gerist í fréttamennsku heldur en í meðferð sjúklinga.

Að undanförnu hef ég gengist undir aðgerðir á spítala þar sem ekki hefur mátt neinu skeika í aðgerðum.

Ríkisstjórnin segist í stjórnarsáttmála vilja bæta hlut kvennastétta. Ég fæ ekki betur séð en að vinnutilskipun ESB hefði lækkað meðaltalslaun hjúkrunarfræðinga þannig að þeir áttu að borga fyrir aukið öryggi sjúklinga.

Hvíldartilskipun ESB í vöruflutningaakstri er af sama toga, snýst um öryggi vegfarenda og líf og limi þeirra.

Hvert mannslíf sem tapast vegna mistaka kostar þjóðfélagið að meðaltali 200 milljónir króna. Ótalið er annað tjón sem ekki er hægt að meta í peningum.

Lausn þessarar deilu þýðir ekki að ævinlega eigi að beygja sig fyrir ósveigjanlegum kröfum. Ég er ekki í hópi þeirrra sem stekkur nú á fætur og hrópar: Svona á að taka þetta! Aldrei að víkja! Það þarf ævinlega að vera skynsemi með í för og það á við um þessa lausn. Kosti skynsamleg lausn hærri launakostnað fyrir ríkissjóð verður svo að vera og kosti það hærri flutningsgjöld í vöruflutningum að bílstjórar séu ekki útkeyrðir verður svo að vera.


mbl.is Vaktakerfið dregið til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það hefur alveg skort að einhver fjölmiðill geri okkur grein fyrir um hvað þessi deila var. Eftirfarandi er samkvæmt minni bestu vitund, en samt viðurkenni ég að það er margt í þessu sem ég skil ekki.


Þetta með EES reglugerðir var óttalegt klór hjá stjórnendum LSH. Þessir hjúkrunarfræðingar eru meðal þeirra hlutfallslegu fáu hjúkrunarfræðinga sem ganga dagvaktir og vinna að jafnaði ekki á rauðum dögum eða helgum. Þannig vinna þær að jafnaði 8 klst. vakt og fara svo bara heim, enda eru skurðstofurnar ekki opnar nema þann tíma. Heima voru hjúkrunarfræðingarnir margir hverjir á bakvakt með þá kvöð að komast á spítalann á e-h lágmarkstíma.

Hið svakalega „brot“ á EES reglugerðum held ég að hafi annaðhvort verið þetta „álag“ að vera í vinnu í 8+ klst. á vakt og síðan 8+ á bakvakt eða í þeim tilvikum sem þær voru kallaðar út af bakvakt. Þá getur það gerst að þær vinni 8 klst. og eru síðan kallaðar út eftir að vera heima í 5-6 klst. í 2-4 klst. vinnu. Samtals 15-18 klst. vinnudagur.

Það sem hjúkkunum var boðið var að vinna 12 klst. vaktir alla daga vikunnar. Þetta hefði leitt til að þær ynnu rauða daga og nætur. Það eitt er veruleg breyting á lífsmynstri fólks sem er EKKI að vinna vaktavinnu. Ég veit að ég myndi ekki þiggja það liggjandi ef vinnuveitandi minn myndi einhliða ákveða að ég skyldi vinna starf mitt að nóttu til á sunnudegi.

Þetta hefði að auki lækkað laun þeirra þar sem bakvaktataxti og regluleg útköll vega meira en vaktaálagið.

Hefði þetta aukið öryggi sjúklinga? Í raun ekki því þótt hjúkkurnar hefðu hangið þarna allar nætur þá hefur aldrei staðið til að hafa skurðstofurnar opnar lengur né eru stoðdeildir s.s. gjörgæslan útbúin fyrir meiri rennsli sjúklinga. Enda eru skurðlæknar og svæfingalæknar löngu farnir heim og eru kallaðir út eftir þörfum. Ég get ekki séð að þeir séu nokkuð fljótari að heiman á spítalann en hjúkkurnar á bakvakt.

GT (IP-tala skráð) 1.5.2008 kl. 00:44

2 Smámynd: Hrappur Ófeigsson

ESB = Afsölun Frelsis ?  http://www.zeitgeistmovie.com/ ég vona að allir sem ætla að "kjósa" Já við ESB geri sér grein fyrir að við afsölum íslendingum réttinum til að kjósa um reglur og réttindi, en kommon. kannski væri landinu betur stjórnað af útlendingum, frekar en af íslensku ARÐRÆNINGJUNUM sem sitja á þingi ?    Ég er viss um að þá myndu kannski fleiri mótmæla þegar á þeim væri brotið. (spurning hinsvegar hvort það væri ekki of seint) 350.000 manns til eða frá eru bara dropi í hafið hjá heimsins-auðvaldsinnum.

Hrappur Ófeigsson, 1.5.2008 kl. 01:14

3 Smámynd: Ólöf Guðrún Ásbjörnsdóttir

Mikið er ég sammála þessari færslu þinni Ómar.  Og einnig þeim athugasemdabirtingum hér að ofan.  Ekki skil ég þetta EES og ESB.

Eru það semsagt bara fagstéttir hjúkrunarfræðinga og geislafræðinga sem eiga að vinna eftir þessu kerfi?  Hvað með alla deildarlæknana?  Ég veit ekki betur en að það góða fólk þurfi að sætta sig við allt að sólarhringsvaktir.  Og hvar er öryggið þá?

Skurð og svæfingarhjúkrunafræðingar eru ekki einu hjúkrunarfræðingarnir sem vinna á LSH.  Vissulega fer fram mikil sérhæfing á skurðstofunum, en svo er einnig um aðrar deildir spítalans. 

Verandi hjúkrunarfræðingur og vinnandi á LSH veit ég að þar er margt að.  Það vantar mjög marga hjúkrunarfræðinga á allar deildir spítalans.  Það vantar fleiri hjúkrunarfræðinga á allar vaktir.  Oft er mikið álag á þá hjúkrunarfræðinga sem eru á vakt hverju sinni og lítið má út af bregða.

Það eina sem má segja er að vanti ekki á LSH eru, sjúklingar!!!!!!!

Ólöf Guðrún Ásbjörnsdóttir, 1.5.2008 kl. 02:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband