Hvað segir Guðjón Arnar ?

Jón Magnússon spyr í bloggi sínu hvað ég segi um síðustu atburði í borgarkerfi Reykjavíkur. Hann virðist álíta að formenn stjórnmálaflokka eigi að sitja við það á flokksskrifstofunum að fara yfir mannaráðningar og hvaðeina sem gert er hjá sveitarstjórnarmönnum um allt land og láta síðan málin til sín taka.

Skrýtið er að Jón skuli ekki spyrja sinn eigin flokksformann um þetta úr því að hann telur að þetta sé svona mikið á þeirra könnu. F-listinn í Reykjavík, listi Frjálslyndra og óháðra, notaði listabókstaf Frjálslynda flokksins í borgarstjórnarkosningunum 2006, en I-listi Íslandshreyfingarinnar hefur ekki verið borinn fram í byggðakosningum, heldur bauð fyrst fram í Alþingiskosningum í fyrra.

Davíð var kannski með puttana á sínum tíma ofan í því hvað hans fólk var að gera í borgarmálefnunum, en aldrei kom það fram.

Borgarstjórnarfulltrúar eiga eins og Alþingismenn að fara eftir sannfæringu og samvisku sinni og niðurstaðan getur verið einstaklingsbundin eftir aðstæðum og mati hvers og eins. Það vildi svo til að efstu menn á F-listanum í byggðakosningum 2006 urðu í fararbroddi á I-listanum í alþingiskosningunum 2007 og nutu þá og njóta enn fyllsta trausts mín varðandi það að gera sitt besta og vinna eftir bestu samvisku, þótt sum vinni fyrir meirihlutann og önnur fyrir minnihlutann í Reykjavík.

Íslandshreyfingin hefur aldrei boðið fram til borgarstjórnar og ég hélt að Jón Magnússon vissi að listabókstafurinn sem um ræðir var F við síðustu kosningar.

Þess vegna segi ég við Jón: Af hverju spyr þú ekki hvað Guðjón Arnar hafi að segja?


Áfram, Lára Hanna !

Lára Hanna Einarsdóttir hefur sýnt stórkostlegt fordæmi að undanförnu með skeleggri baráttu sinni gegn Bitruvirkjun. Þetta er nákvæmlega það, sem okkur hefur vantað, nýtt og öflugt baráttufólk. Þegar brautryðjendur eins og Guðmundur Páll Ólafsson hafa verið nógu lengi að er þeirra góða barátta afgreidd sem þráhyggja og þeir sjálfir sem kverúlantar.

Virkjanafíklarnir hafa nýtt sér yfirburði fjármagns, valda og aðstöðu til að sækja fram á svo mörgum stöðum og jafnfram svo hratt, að þeir hafa komið sínu fram. Við þurfum fólk í forystu á hverjum stað á borð við Láru Hönnu, fólk sem þorir, fólk sem tekur af skarið.

Bitruvirkjun er ekki aðeins fráleit hugmynd hvað snertir fórn á náttúruverðmætum. Hún er líka fráleit þótt engin slík verðmæti væru í veði, vegna þess að nýting Hengils- Hellisheiðarsvæðisins er þegar komin fram úr allri skynsemi og svæðið verður allt orðið dautt og kalt eftir nokkra áratugi, einmitt þegar okkur á eftir að vanta þetta afl til að knýja flota rafbíla og skipa.

Þessi virkjun er ofbeldi gagnvart afkomendum okkar.

Áfram, Lára Hanna!


Grimmur heimur.

Eftir því sem fólki fjölgar á jörðinni hafa náttúruhamfarir æ meiri hörmungar í för með sér. "Eins dauði er annars brauð" segir máltækið og það er grimmd fólgin í þeirri staðreynd að olíuverð lækkaði á heimsmarkaði þegar fréttist um hinar miklu hörmungar í Kína. Við horfum fram á tröllaukin viðfangsefni á nýrri öld, sem getur orðið okkur Íslendingum hagfelldari en hugsanlega öllum öðrum þjóðum.

En þá verðum við að hugsa fyrir endalokum olíualdarinnar og eiga til ráðstöfunar jarðvarma og vatnsafl til þess að rafvæða samgöngur okkar og samfélag í stað þess að sóa orkunni í ósjálfbært bruðl á spottprís fyrir orkufrekasta iðnað, sem finnst á jarðríki og fórna til þess ómetanlegum náttúruverðmætum. 


mbl.is Versti jarðskjálfti í 30 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. maí 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband